01. nóvember 2021

G20-ríkin fengið fimmtánfalt meira af bóluefni en efnaminni ríki

Ný skýrsla frá greiningarfyrirtækinu Airfinity varpar ljósi á gríðarlega misskiptingu í ráðstöfun bóluefna gegn COVID-19 til efnaminni ríkja.

Ný skýrsla frá greiningarfyrirtækinu Airfinity varpar ljósi á gríðarlega misskiptingu í ráðstöfun bóluefna gegn COVID-19 til efnaminni ríkja. Stóru iðnríki G20-bandalagsins, sem nú funda í Róm, hafa samkvæmt skýrslunni fengið fimmtánfalt meira af bóluefnum miðað við höfðatölu en Afríkuþjóðir sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Sömuleiðis fimmtánfalt meira en í öðrum efnaminni ríkjum og þrefalt meira miðað við höfðatölu en allar aðrar þjóðir heims samanlagt.

„Misskipting í dreifingu bóluefna gegn COVID-19 er ekki aðeins að halda aftur af efnaminni ríkjum, heldur er misskiptingin að halda aftur af öllum heiminum,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF vegna málsins. „Nú þegar þjóðarleiðtogar hittast til að ræða næstu skref í viðbragðinu við heimsfaraldri COVID-19 þá er nauðsynlegt að þau hafi það í huga að í bólusetningarkapphlaupinu þá annað hvort sigrum við saman, eða töpum saman.“

Efnameiri þjóðir, sem eiga umframmagn af bóluefni, hafa heitið því að gefa þá skammta áfram til efnaminni þjóða í gegnum COVAX-samstarfið. En í tilkynningu frá UNICEF er gagnrýnt að efndir á þessum loforðum séu því miður í hægagangi of víða. Af þeim 1,3 milljörðum skammta sem lofað hefur verið að gefa hafa aðeins 194 milljónir þeirra skilað sér til COVAX.

Ríki Afríku hafa umfram önnur verið skilin út undan í aðgengi að bóluefnum gegn COVID-19. Innan við 5 prósent íbúa heimsálfunnar er fullbólusett, sem aftur skapar mikla hættu á frekari smitbylgjum víða annars staðar.

Fyrir fund G20-ríkjanna í Róm um helgina sendu 48 fulltrúar og stuðningsmenn UNICEF í Afríku frá sér opið bréf þar sem kallað var eftir því að þjóðarleiðtogar efndu loforð sín um dreifingu þessara umframskammta áður en desember gengur í garð.

Samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er áætlað að á bilinu 80-180 þúsund heilbrigðisstarfsmenn um allan heim hafi látið lífið sökum COVID-19 frá janúar 2020 til maí 2021. Minna en 1 af hverjum 10 heilbrigðisstarfsmönnum í Afríku hafa verið fullbólusettir og rúmlega 128 þúsund þeirra hafa smitast. WHO segir einnig að vegna takmarkaðra prófanagetu þá greinist aðeins um eitt af hverjum sjö smitum í Afríku, sem þýðir að þessar tölur eru mjög líklega mun hærri.

UNICEF leiðir innkaup og dreifingu bóluefna við COVID-19 til efnaminni ríkja heims í gegnum COVAX-samstarfið. Þú getur lagt þitt að mörkum við að tryggja dreifingu bóluefna til þessara ríkja.

Sendu SMS-ið COVID í 1900 (1.900 kr.) og tryggðu dreifingu á bóluefni við COVID-19 fyrir þrjá einstaklinga í efnaminni ríkjum.

Bankanúmerið okkar er: 701-26-102060 og kennitalan er: 481203-2950.

Við tökum sömuleiðis við AUR greiðslum í gegnum númerið: 123 789 6262.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn