Þjóðarleiðtogar, mannúðarsamtök og einkaaðilar hétu í gær alls 280 milljónum dala (tæpum 40 milljörðum króna) til baráttunnar við síversnandi vannæringarkrísu barna í heiminum. Síðan í júlí nema slíkar skuldbindingar alls 577 milljónum dala (um 82 milljörðum króna) og er UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna treyst fyrir að minnsta kosti 60 prósent þeirrar upphæðar til að halda áfram lífsbjargandi starfi sínu og verkefnum.
UNICEF stóð fyrir viðburði í gær á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna ásamt Þróunarstofnun Bandaríkjanna (USAID), Children‘s Investment Fund Foundation (CIFF) og stjórnvöldum í Senegal í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Yfirskrift viðburðarins var The Child Malnutrition Crisis: Pledging to Save Lives.
Barn verður vannært á hverri einustu mínútu
Ríkisstjórnir Kanada, Írlands, Hollands og Bretlands, auk Aliko Dangote Foundation, Bill & Melinda Gates Foundation, CIFF, Eleanor Crook Foundatiion, Greta Thunberg Foundation, Humanitarian Services of The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints og King Philanthopies komu þar saman og hétu því að leggja málstaðnum lið. Hamfaraþurrkar vegna loftslagsbreytinga, átök og hækkandi matvælaverð hafa haft skelfilegar afleiðingar fyrir ung börn víða um heim sem glíma nú við alvarlega vannæringu sem aldrei fyrr. Í þeim löndum sem verst hafa orðið úti, þar á meðal á Afríkuhorni og í Sahel verður barn alvarlega vannært á hverri einustu mínútu samkvæmt nýjustu greiningu UNICEF.
„Milljónir barna eru við heljarþröm þess að verða hungurmorða – ef ekkert verður að gert endar þetta með hörmungum,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF.
„Þakklæti er okkur hjá UNICEF efst í huga yfir þessum framlögum sem okkur hafa borist en það þarf meira af óbundnu fjármagni til að ná til barna áður en það er um seinan. Við getum ekki staðið hjá og látið börn deyja, ekki þegar við höfum allt sem þarf til að koma í veg fyrir það, greina og meðhöndla alvarlega vannæringu og rýrnun.“
Meðhöndlun fyrir öll sem þurfa
Samantha Power, yfirmaður USAID, benti á að meirihluti barna sem standa frammi fyrir alvarlegri bráðavannæringu búi á svæðum sem venjulega þurfi ekki mannúðaraðstoð.
„Við erum að vinna í að breyta því, að gangast við því að meðferð við alvarlegri vannæringu þurfi að vera aðgengileg öllum, ekki aðeins þeim sem búa við mannúðarkrísu hverju sinni,“ segir Power.
Alvarleg rýrnun er sýnilegasta og alvarlegasta birtingarmynd vannæringar. Þar sem börn verða það grönn að ónæmiskerfi þeirra veikist það mikið að börn undir fimm ára eru ellefu sinnum líklegri til að láta lífið af þeim sökum.
UNICEF á vettvangi
UNICEF hefur undanfarið unnið að því að stórauka viðbragð sitt í þeim fimmtán löndum sem verst standa. Afganistan, Búrkína Fasó, Tjad, Kongó, Eþíópía, Haítí, Kenía, Madagaskar, Malí, Níger, Nígería, Sómalía, Suður-Súdan, Súdan og Jemen eru meðal þeirra þjóða sem eru í forgangi. Áætluð fjárþörf í þau verkefni nemur 1,2 milljörðum Bandaríkjadala.
Framlögin nú hjálpa UNICEF að veita þjónustu í forvörnum á upphafsstigum vannæringar, greiningu og meðhöndlun á rýrnun og vannæringu og auka aðgengi að næringarríka jarðhnetumaukinu og öðrum næringargögnum sem gera kraftaverk í meðhöndlun vannærðra barna.