30. nóvember 2023

Fundur norrænna bæjarstjóra í Barnvænum sveitarfélögum upphafið að frekari samvinnu

Fundurinn var skipulagður af UNICEF á Íslandi í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið, í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni

Sá ánægjulegi viðburður átti sér stað í gær, 29. nóvember, að norrænir bæjarstjórar í Barnvænum sveitarfélögum hittust í fyrsta sinn á rafrænum fundi sem tileinkaður var réttindum barna. Fundurinn var skipulagður af UNICEF á Íslandi í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið, í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Aðaláhersla fundarins var þátttaka barna og mikilvægi þess að börnum séu tryggðar leiðir til þess að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi í samræmi við 12. gr Barnasáttmálans.

Níu bæjarstjórar tóku þátt í fundinum; fyrir Íslands hönd voru það Aldís Hafsteinsdóttir, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar, fyrir Finnlands hönd voru það Johanna Laisaari, varaborgarstjóri Helsinki og Olli-Poika Parviaines, borgarstjóri Hammeenlinna, fyrir hönd Danmerkur var það Morten Thiessen, varaborgarstjóri Álaborgar og fyrir Noreg voru það Mona Benjaminsen, bæjarstjóri Karlsøy og Jarand Felland, bæjarstjóri Tokke.

Verkefnið Barnvæn sveitarfélög er vel útbreitt bæði á Íslandi, þar sem 23 sveitarfélög vinna að því, og í Finnlandi, þar sem 53 sveitarfélög vinna að því. Í Danmörku vinna 3 sveitarfélög að verkefninu en í Noregi og Svíþjóð er verkefnið ekki virkt. Til að tryggja aðkomu sem flestra Norðurlandanna að fundinum var ákveðið bæjarstjórum þeirra sveitarfélaga sem þykja hafa hugað sérstaklega að réttindum barna í sinni stjórnsýslu, boðið á fundinn og þáðu tvö norsk sveitarfélög, Tokke og Karlsøy, boðið.

Frá norrænum fjarfundi bæjarstjóra og í Barnvænum sveitarfélögum.

Fundurinn markaði lok Norræna ungmennamánaðarins sem var í nóvember, einnig í tengslum við formennsku Íslands, þar sem norræn ungmenni ræddu saman um málefni sem þeim þykir mikilvægt að styðja við og breyta. Dagana 24.-25. nóvember fór fram Norræna ungmennaráðstefnan (e. Nordic Youth Summit) í Hörpu þar sem lokaniðurstöður vinnunnar voru afhentar Guðmundi Inga Guðbrandssyni, ráðherra norrænna samstarfsmála.

Stefán Olsen og Melkorka Assa Arnardóttir sögðu fundargestum frá vinnu norrænu ungmennanna sem skipulögð var af SAMFÉS og deildu með þeim lykilskilaboðum þeirra til ráðamanna. Ungmennum er hugleikið að allir eigi sinn stað í samfélaginu og að áhersla sé lögð á inngildingu, m.a. með því að tryggja aðgengi að menntun fyrir öll. Þá vilja þau leggja áherslu á mikilvægi þess að félagsmiðstöðvar og ungmennahús séu aðgengileg fyrir ungmenni þar sem það sé mikilvæg forvörn. Þá leggja þau einnig áherslu á mikilvægi umhverfisverndar og sjálfbærni og benda á mikilvægi þess að styðja við almenningssamgöngur, að minnka mengun og vernda græn svæði.

Hjördís Eva Þórðardóttir, sérfræðingur í réttindum barna hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu og stofnandi verkefnisins Barnvæn sveitarfélög UNICEF á Íslandi, ávarpaði fundinn og minnti á mikilvægi þess að halda áfram að styðja við réttindi barna þannig að Norðurlöndin verði áfram kyndilberar á því sviði alþjóðlega. Þá blés hún byr í brjóst fundargesta og hvatti til norrænnar samvinnu og skyldi við fundinn með því að lesa upp fallega tilvitnun í Eleanor Roosevelt:

Upphafið að frekari samvinnu

Á fundinum voru borin fram fjölbreytt erindi frá hverju landi sem öll fjölluðu um þátttöku barna. Umfjöllunarefnin voru m.a. hvernig leikskólabörn geta haft áhrif á skólaumhverfi sitt og leikskólalóð og hvernig mikilvægt er að fullorðnir tryggi öllum börnum leiðir til þess að taka þátt í tómstunda- og íþróttastarfi þannig að þeim líði vel og geti haft áhrif.

Í lokin samþykktu öll viðstödd að leggja sig fram um að koma skilaboðum ungmennanna áfram og styðja við og stuðla að aukinni þátttöku barna og ungmenna í sínu sveitarfélagi.

Fundurinn markar fyrsta skrefið í átt að frekari samvinnu Barnvænna sveitarfélaga (e. Child Friendly Cities) á Norðurlöndunum þar sem lík sveitarfélög geta speglað sig og lært af hvoru öðru.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn