29. september 2021

Komum því til skila: Frystiskápasending UNICEF stóreykur möguleika til bólusetninga í Bangladess

Þökk sé dreifingu UNICEF á tuttugu og sex sérstökum lyfjafrystiskápum í Bangladess í gegnum COVAX-samstarfið hafa möguleikar stjórnvalda þar til að taka á móti, geyma og dreifa miklu magni Pfizer-bóluefnis í landinu stóraukist.

29. september 2021 Þökk sé dreifingu UNICEF á tuttugu og sex sérstökum lyfjafrystiskápum í Bangladess í gegnum COVAX-samstarfið hafa möguleikar stjórnvalda þar til að taka á móti, geyma og dreifa miklu magni Pfizer-bóluefnis í landinu stóraukist.

Hver þessara skápa, sem dreift var í ágúst síðastliðnum, getur geymt 300 þúsund skammta af bóluefni við COVID-19 og gerðu stjórnvöldum í Bangladess kleift að taka á móti 2,5 milljónum skammta af Pfizer-bóluefni í gær í gegnum COVAX-samstarfið. Sem kunnugt er þarf að geyma bóluefni, líkt og Pfizer, við ofurkaldar aðstæður, um -80 gráður.

Tomoo Hozumi, fulltrúi UNICEF í Bangladess, segir lykilatriði að styrkja öruggar dreifingarleiðir, hina svokölluðu köldu keðju, innan ríkja svo tryggja megi jafna dreifingu bóluefna í heiminum.

Aðeins 9% þjóðarinnar fullbólusett

UNICEF gegnir því mikilvæga hlutverki að tryggja dreifingu bóluefna til efnaminni þjóða heims sem setið hafa eftir gagnvart þeim efnameiri í dreifingu bóluefna við COVID-19. Frystiskáparnir 26 sem UNICEF dreifði í Bangladess eru hluti af markmaði UNICEF að dreifa 350 slíkum skápum til rúmlega 45 þjóða í gegnum COVAX-samstarfið. Verkið er umfangsmikið en uppbygging á köldum keðjum innan ríkja mun flýta fyrir möguleikum á að taka á móti, geyma og dreifa bóluefni og þar með bólusetja fleiri á sem stystum tíma.

Eins og staðan er í dag eru aðeins 9 prósent Bangladessa fullbólusett.

„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) er þakklát COVAX fyrir þennan stuðning við stjórnvöld í Bangladess,“ segir Badran Jung Rana, landsfulltrúi WHO í tilkynningu vegna málsins og segir hvern skáp gegna gríðarmikilvægu hlutverki í að tryggja geymslu, dreifingu og auka hlutfall bólusettra innan ríkja.

Komum því til skila

Dreifingarverkefni UNICEF í COVAX-samstarfinu er gert mögulegt með fjárstuðningi meðal annars frá einstaklingum og fyrirtækjum um allan heim. Þar á meðal hér á Íslandi.

Í tilkynningu sinni kalla UNICEF og WHO eftir áframhaldandi og auknum stuðningi allra við COVAX-samstarfið, bæði frá einstaklingum sem og stjórnvöldum ríkja þar sem bólusetningarhlutfallið er þegar mjög hátt.

Bólusett heimsbyggð er allra hagur. Komum því til skila. Þú getur styrkt dreifingu UNICEF á bóluefnum við COVID-19 í efnaminni ríkjum heims. Smelltu hér til að sjá hvernig þú getur hjálpað.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn