„Þessar síðustu árásir bæta enn við þá hrollvekjandi tölur að rúmlega 160 börn hafa verið drepin á Gaza á rétt rúmum mánuði. Það gerir að meðaltali fjögur barn á dag frá byrjun nóvember.“ Þetta segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu um helgina eftir mannskæða árás á Nuseirat-búðirnar í miðhluta Gaza á föstudag þar sem 33 létu lífið, þar af 8 börn.
„Síðastliðna fjórtán mánuði hafa rúmlega 14.500 börn verið drepin og nær öll börn á Gaza, 1,1 milljón talsins, þurfa á vernd, aðstoð og stuðningi að halda. Í norðri vofir hungursneyð yfir og alvarlegar hindranir eru enn á aðgengi mannúðarstofnana,“ segir Russell.
„Hundruð þúsunda barna eru meðal þeirra 1,9 milljóna íbúa sem neyðst hafa til að flýja heimili sín á þessu tímabili. Enginn staður á Gaza er öruggur, enginn stöðugleiki er í lífi barna sem skortir mat, vatn, sjúkragögn og hlýjan fatnað. Sjúkdómar, sem undir eðlilegum kringumstæðum er auðvelt að koma í veg fyrir, halda áfram að dreifa sér. Og lækkandi hitastig vetrartímans eykur á þjáningar barna.“
„Heimsbyggðin getur ekki haldið áfram að horfa framhjá þessu ástandi þegar svo mörg börn eru á hverjum degi að upplifa blóðsúthellingar, sjúkdóma, hungur og kulda. Við ítrekum enn á ný ákall okkar til allra aðila átakanna, og þeirra sem áhrif og völd hafa til, að tryggja að réttindi barna séu virt sem og skuldbindingar gagnvart alþjóðlegum mannúðarlögum.“
Búðu til pláss í hjartanu þínu – fyrir börnin á Gaza. Komdu í hóp Heimsforeldra UNICEF í dag.