20. febrúar 2024

Fordæmalaus aukning vannæringar meðal barna á Gaza

Síðustu þrjá mánuði hefur hlutfall vannærðra barna stóraukist – 1 af hverjum 6 börnum undir tveggja ára í norðurhluta Gaza glímir við bráðavannæringu

Hin tveggja ára gamla Leen í skimun eftir vannæringu á Gaza. Mynd/UNICEF

Rýrnun, alvarlegasta birtingarform vannæringar, var sjaldgæf meðal barna á Gaza áður en yfirstandandi átök hófust. Um 0,8 prósent barna undir fimm ára aldri glímdu þá við bráðavannæringu. Í nýrri greiningu Global Nutrition Cluster (GNC) kemur fram að meðal barna í norðurhluta Gaza mælist rýrnun barna undir tveggja ára aldri nú 15,6 prósent sem GNC segir fordæmalaust hrun á næringarstöðu íbúa á heimsvísu á þriggja mánaða tímabili.  

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) fjalla um niðurstöður rannsóknar GNC í sameiginlegri tilkynningu í dag þar sem varað er við að mikil aukning vannæringar meðal barna, óléttra kvenna og kvenna með barn á brjósti ógni lífi þeirra og heilsu. Þessa aukningu má að sjálfsögðu rekja til skorts á matvælum og vatni á Gaza þar sem átök hafa geisað í hátt í 20 vikur.  

Ástandið verst í norðri

Í skýrslu GNC, sem ber yfirskriftina Nutrition Vulnerability and Situation Analysis – Gaza, kemur fram að ástandið sé sérstaklega slæmt í norðurhluta Gaza enda verið nánast lokað fyrir alla mannúðaraðstoð þangað síðustu vikur. Næringarskimun sem gerð var í búðum og heilbrigðismiðstöðvum í norðri sýndi að 15,6 prósent, eða 1 af hverjum 6 börnum undir tveggja ára, glíma við bráðavannæringu. Af þeim glíma 3 prósent við alvarlega rýrnun sem er alvarlegasta og lífshættulegasta birtingarform vannæringar fái börn ekki viðhlítandi meðferð. Fram kemur í tilkynningu UNICEF, WHO og WFP að gagnaöflun hafi farið fram í janúar svo líklegt verði að teljast að ástandið sé enn verra í dag. 

Sambærileg skimun í Rafah, í suðurhluta Gaza, þar sem mannúðaraðstoð hefur verið aðgengilegri sýndi að 5 prósent barna undir tveggja ára aldri glíma við bráðavannæringu. UNICEF segir þetta sýna fram á mikilvægi aðgengis íbúa að mannúðaraðstoð og mikilvægi þess að vernda Rafah fyrir frekari árásum. 

„Á Gaza er yfirvofandi hrina dauðsfalla hjá börnum sem hægt er að koma í veg fyrir í ofanálag við þann óbærilega fjölda barna sem þegar hafa látið lífið á svæðinu,“ segir Ted Chaiban, yfirmaður mannúðaraðstoðar og birgðamál hjá UNICEF. „Vikum saman höfum við varað við því að Gaza sé á barmi næringarkrísu. Ef átökum linnir ekki núna mun næringarástand barna halda áfram að versna sem aftur mun leiða til dauðsfalla eða heilsufarsvandamála sem geta haft óafturkræf áhrif á börn til frambúðar.“ 

UNICEF, WHO og WFP kalla eftir því að öruggt, óhindrað og viðvarandi aðgengi mannúðaraðstoðar á Gaza verði tryggt enda sé ljóst að án hennar muni ástandið halda áfram að versna hratt. Verja þurfi sjúkrahús og heilbrigðisstarfsfólk fyrir árásum svo hægt sé að veita nauðsynlega þjónustu. Tafarlaust vopnahlé í nafni mannúðar sé í dag besta leiðin til að bjarga lífum og binda enda á þjáningu.

Til að styrkja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi:

Sendu SMS-ið NEYD í númerið 1900 til að styrkja um 2900 krónur (Síminn og Nova)

Söfnunarreikningur: 701-26-102015 / Kennitala: 481203-2950

AUR í númerið: 123 789 6262 eða @unicef

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn