29. september 2023

Fjöldi fylgdarlausra barna á flótta frá Norður-Afríku eykst um 60 prósent

Það sem af er ári hafa meira en 11.600 börn flúið yfir Miðjarðarhafið án foreldra sinna eða forsjáraðila. Þetta er um 60 prósent aukning síðan í fyrra en þá flúðu 7.200 fylgdarlaus börn yfir Miðjarðarhafið

„Miðjarðarhafið er orðið kirkjugarður fyrir börn og framtíð þeirra, sem reyna að komast yfir til Evrópu í von um betra líf,“ segir Regina De Dominicis, svæðisstjóri UNICEF í Evrópu og Mið-Asíu og sérstakur umsjónarmaður flóttamannamála í Evrópu.

Dauðsföll og mannshvörf á miðjarðarhafsleiðinni hættulegu hafa þrefaldast í sumar miðað við sumarið 2022. Á milli júní og ágúst á þessu ári létust að minnsta kosti 990 manns, þar á meðal börn, en í fyrra nam fjöldinn 334 manns. Raunverulegur fjöldi mannsfalla er þó líklega mun hærri, þar sem mörg börn sem leggja ferðalagið á sig erum hvergi skráð eða finnast aldrei.  

Sem dæmi um þessa gífurlegu aukningu þá koma um 4.800 manns á flótta, daglega til eyjunnar Lampedusa á suður Ítalíu.

Fylgdarlaus börn á leið yfir Miðjarðarhafið

Stríð, átök, ofbeldi og fátækt eru meðal helstu ástæðna að baki þessum mikla fjölda fólks á flótta. Rannsóknir sýna að fylgdarlaus börn eiga í mikilli hættu á að vera misnotuð á ferð sinni yfir Miðjarðarhafið, þá sérstaklega stúlkur og börn frá Afríku, sunnan Sahara. Fylgdarlaus börn sem hætta ein í þessa ferð eru ítrekað sett í yfirfulla gúmmíbáta eða aðra lélega báta sem þola ekki slæm veðurskilyrði. Aðstæðurnar eru sérstaklega slæmar fyrir börn og er mikill skortur á svæðisbundinni og samræmdri leitar- og björgunargetu á svæðinu sem eykur hættuna fyrir börn sem neyðast til flýja heimalönd sín.

Þau sem lifa ferðina af safnast saman á svokölluðum heitum reitum (e. hot spots) áður en þau eru flutt á móttökustöðvar þar sem frelsi þeirra er skert að miklu leyti. Meira en 21.700 fylgdarlaus börn víðsvegar um Ítalíu eru nú í þeim aðstæðum, í samanburði við 17.700 fyrir ári síðan.

Þörf á öruggum og lögmætum leiðum til að leita hælis

Í samræmi við alþjóðalög og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skorar UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, á stjórnvöld að tryggja öruggari leiðir til að leita hælis ásamt því að virða réttindi barna, svo sem með því að skerða ekki frelsi þeirra, styrkja innlend barnaverndarkerfi, og samræma leitar- og björgunaraðgerðir.

Umræða Evrópuþingsins og aðildarríkja Evrópusambandsins um sáttmála Evrópusambandsins um fólksflutninga og hæli er mikilvæg til þess að tryggja réttindi barna á öllum stigum flótta, það er í brottför, flutningi og við komu í hælisland.

Viðvarandi stuðningur UNICEF

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, heldur áfram að styðja við aðildarríki sem taka á móti fólki á flótta með því að styrkja innviði og stuðning í upprunalöndum, draga úr hættu sem börn standa frammi fyrir á flótta, og veita öllum börnum stuðning og þjónustu án aðgreiningar, óháð réttarstöðu þeirra eða foreldra þeirra. Í bænum Lampedusa á Ítalíu veitir UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna meðal annars sálfélagslegan stuðning og aðgang að upplýsingum um sérhæfða þjónustu sem þörf er á eftir hættulegt ferðalag yfir Miðjarðarhafið. Starf UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna er stutt af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um fólksflutninga og innanríkismál.

Þegar þú ert Heimsforeldri styður þú við mannúðaraðstoð og langtímaverkefni UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í löndum Afríku og yfir 190 öðrum ríkjum um allan heim. SMELLTU HÉR TIL AÐ SJÁ HVERNIG ÞÚ GETUR ORÐIÐ HEIMSFORELDRI STRAX Í DAG.  

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn