24. nóvember 2022

Fimmtán skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar hljóta Réttindaviðurkenningu

Vatnsendaskóli, Frístundaheimilið Stjörnuheimar og Félagsmiðstöðin Dimma fengu sínar fyrstu viðurkenningar – Fyrstu réttindaleikskólar heims og endurmatsviðurkenningar veittar

Krakkarnir í Vatnsendaskóla með viðurkenningar skólans, Stjörnuheima og Dimmu í dag.

Vatnsendaskóli, Frístundaheimilið Stjörnuheimar og Félagsmiðstöðin Dimma í Kópavogi hlutu í dag sína fyrstu viðurkenningu sem Réttindaskólar- og frístund UNICEF. Fjölmargar endurmatsviðurkenningar hafa einnig verið veittar síðustu daga í kringum Alþjóðadag barna og ótrúlega gaman að fylgjast með þeim meðbyr sem Réttindaskólaverkefni UNICEF heldur áfram að njóta.

Laugarnesskóli, Frístundaheimilið Dalheimar og Frístundaheimilið Laugarsel í Reykjavík fengu á dögunum öll endurmatsviðurkenningu en til að hljóta slíka viðurkenningu þarf Réttindaskóli að hafa unnið áfram markvisst að réttindum barna í skólastarfinu, gera nýja aðgerðaáætlun, fylgja henni eftir og sýna fram á raunverulegar breytingar fyrir börn. Endurmatsviðurkenning er veitt þeim Réttindaskólum, -frístund, -félagsmiðstöð sem uppfyllt hafa þessar kröfur að þremur árum liðnum frá fyrri viðurkenningu.

Endurmatsviðurkenningar hlutu einnig Vesturbæjarskóli og Frístundaheimilið Skýjaborgir í Vesturbæ Reykjavíkur og nú í dag Flataskóli og Frístundaheimilið Krakkakot í Garðabæ.

Auk allra þessara þá fengu fimm leikskólar í Kópavogi á dögunum viðurkenningu sem fyrstu Réttindaskólarnir á leikskólastigi, líkt og greint hafði verið frá. Ekki aðeins fyrstu Réttindaleikskólar landsins, heldur í heiminum!

Hér fyrir neðan má lesa ræðu Réttindaráðs Vatnsendaskóla, sem Emelía Björk, Bryndís og Guðrún Katrín, skrifuðu sjálfar og fluttu á viðurkenningarathöfninni:

  • Við heitum Emelía Björk,Bryndís og Guðrún Katrín. Við erum allar í 6.bekk og erum í réttindaráði Vatnsendaskóla. Réttindaráðið í Vatnsendaskóla var stofnað haustið 2019 og þá var valið hverjir myndu taka þátt í þessu prógrammi. Hópurinn hittist reglulega yfir skólaárið og fer yfir ýmis málefni sem við teljum  mikilvæg að breyta og bæta.  
  • Við erum að vinna í því að bæta klósettaðstöðu skólans. Annað sem við höfum rætt er að minnka matarsóun og bæta lýsinguna á skólalóðinni. En hvað erum við búin að gera í því? Já við t.d. fengum Nönnu kennara til að smíða fyrir okkur kassa sem kallast hugmyndakassi og þá getur fólk sett sýnar hugmyndir um hvað sé hægt að gera betur. 
  •  Við hvetjum ykkur til að taka þátt í að passa réttindi barna  og gera góðverk. Við getum verið stolt af því að vera orðin réttindaskóli UNICEF. Við viljum þakka Ástu, Sigrúnu og starfsmönnum UNICEF.
  • Áfram Vassó og takk fyrir okkur.


Réttindaráð Flataskóla með viðurkenningarnar

Sigyn Blöndal, Réttindaskólastjóri UNICEF á Íslandi, segir:

„Það er alltaf mikil hátíð hjá okkur í kringum Alþjóðadag barna og hluti af því er að veita Réttindaskólum og -frístund viðurkenningar. Sum eru að fá sína fyrstu viðurkenningu á meðan önnur eru að fara í gegnum endurmat en það þýðir að það eru 3 ár frá fyrstu, eða síðustu, viðurkenningu og þá gerum við stöðumat. Við förum í heimsóknir og tökum viðtöl við stjórnendur, umsjónarmenn, réttindaráð, fulltrúa foreldra og fulltrúa starfsfólks sem er ekki í innleiðingarteyminu. Þannig sjáum við vel hver áhrif verkefnisins eru í öllu skóla- og frístundastarfinu og hvar þarf að leggja áherslur næstu 3 árin - þetta er nefnilega verkefni sem aldrei endar. Það er því alltaf hægt að gera meira og betur.“   

„Það er hápunktur úttektarheimsóknanna að hitta réttindaráð skólanna - börnin eru svo með´etta - meðvituð um sín réttindi og að öll börn eru jöfn og eiga sömu réttindi. Þau ræða hvað er hægt að bæta í skólastarfinu og hvernig þau geti látið gott af sér leiða í samfélaginu. Þau vita að það eru þeirra réttindi að láta sínar skoðanir í ljós en einnig að við fullorðna fólkið eigum að hlusta og taka tillit til þeirra. Þegar réttindaráð er orðinn fastur og sjálfsagður liður í skólastarfinu og kennarar orðnir öruggir í sínu hlutverki með þeim þá gerast töfrar. Börnin í réttindaráðinu sinna jafningjafræðslu í bekkjum, fara yfir hugmyndir sem berast frá börnunum í skólanum í gegnum hugmyndakassa og koma þeim til réttra aðila, skipuleggja barnaþing og kosningar og svo mætti lengi telja.“ 

„Svo er yndislegt að labba um ganga skólanna, frístundaheimilanna og félagsmiðstöðvanna og sjá öll frábæru verkefnin sem hanga upp um alla veggi. Þetta eru verkefni sem tengjast réttindum þeirra og eru tengd við ákveðnar greinar Barnasáttmálans - nú eða bara endurgera Barnasáttmálann með sínum eigin teikningum og orðum eins og 3. bekkur í Flataskóla. Þar eru öll börn í skólanum einnig búin að vinna skólareglurnar og tengja við greinar Barnasáttmálans og réttindi barna - alveg meiriháttar.“ 

Viltu vita meira um Réttindaskólaverkefnið? Lestu allt um það hér.

Börnin í Flataskóla teiknuðu og endursögðu greinar Barnasáttmálans.
Fulltrúar leikskólanna Furugrund, Sólhvörf, Álfaheiði, Kópahvoll og Arnarsmári með viðurkenningar sem fyrstu réttindaskólar UNICEF á leikskólastigi.
Réttindaráð Laugarnesskóla með viðurkenningar skólans, Dalheima og Laugarsels.
Réttindaráð Vesturbæjarskóla og Skýjaborga fagna endurmatsviðurkenningum sínum.
Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn