02. maí 2022

Fagnar hækkun kjarnaframlaga íslenskra stjórnvalda til UNICEF

Stjórnvöld fara fram með góðu fordæmi segir framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi

Utanríkisráðuneytið hefur greint frá því að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að hækka kjarnaframlög til þriggja stofnana Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, UN Women og UNFPA. Á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríksráðherra með framkvæmdastjórum stofnanna í síðustu viku kom fram að framlög til UNICEF hækki um 15 prósent, UN Women um 12 prósent og rúmlega 70 prósent til UNFPA, en það er Mannfjöldastjóður Sameinuðu þjóðanna.

„Það er mikið fagnaðarefni að íslensk stjórnvöld hækki framlög til kjarnastarfsemi UNICEF. Enda áskoranirnar gríðarstórar sem Barnahjálpin stendur frammi fyrir vegna afleiðinga COVID-19 og mikillar neyðar vegna átaka, hungurs og hamfarahlýnunar. Þarna fara stjórnvöld fram með góðu fordæmi,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, vegna þessara gleðilegu tíðinda.

Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins segir að undanfarin ár hafi kjarnaframlag Íslands til UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, numið 130 milljónum en verði á þessu ári 150 milljónir króna.

Stærstu samstarfsverkefni Íslands og UNICEF hafa verið vatns- og hreinlætisverkefni í samstarfslöndum Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu, Malaví og Úganda, og þá veittu íslensk stjórnvöld 250 milljónum króna í mannúðarákall UNICEF vegna flutnings á COVID-19 bóluefnum innan þróunarríkja. 

„Ástæða þess að við hækkum framlög okkar til þessara mikilvægu stofnana Sameinuðu þjóðanna er meðal annars til þess að bregðast við þeirri neyð sem víða blasir við, þar á meðal í Úkraínu og Afganistan. Ísland hefur lagt áherslu á að veita óeyrnamerkt kjarnaframlög til þess að tryggja fyrirsjáanleika og að stofnanirnar geti brugðist við þar sem neyðin er mest hverju sinni,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í tilkynningu ráðuneytisins

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn