10. september 2024

Enginn fyrsti skóladagur hjá 45 þúsund fyrstubekkingum á Gaza

Það hefur skaðleg áhrif á andlega líðan, öryggi og þroska barna að vera svipt réttindum sínum til menntunar.

Börn á Gaza í einu af tímabundnu skólasvæðunum sem UNICEF hefur komið upp víða. Mynd/UNICEF

Víða í Mið-Austurlöndum eru börn á öllum aldri full tilhlökkunar að búa sig undir upphaf skólaársins. En í rústum Gaza eru minnst 45 þúsund sex ára gömul börn sem ekki munu upplifa sinn fyrsta skóladag í ár. Langstærstur hluti þeirra er á vergangi eftir að hafa verið hrakin frá heimili sínu vegna árása. Í stað þess að ganga menntaveginn, standa þau frammi fyrir daglegri lífsbaráttu.

Fyrsti skóladagurinn í Palestínu átti að vera í gær, en ekki á Gaza. Fyrstubekkingarnir sem áttu að vera að hefja sitt nám bætast þess í stað í hóp þeirra 625 þúsund barna sem þegar hafa verið svipt rétti sínum til náms í heilt ár. Nú þegar ekkert lát virðist vera á árásum og átökum, virðist fátt geta komið í veg fyrir að annað skólaár verði í það minnsta verulega skert.

„Börn á Gaza hafa misst heimili sín, fjölskyldumeðlimi, vini, allt sitt öryggi og rútínu í daglegu lífi. Þau hafa verið svipt friðhelgi skólans og þessi skelfilegu átök hafa varpað dimmum skugga yfir annars bjarta framtíð þeirra,“ segir Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF í Mið-Austurlöndum og N-Afríku.

Og árásum á skólabyggingar og þar með rétt barna til náms, hafa aukist á undanförnum vikum. Á Gaza er áætlað að minnst 84% allra skólabygginga þurfi að endurbyggja eða lagfæra verulega áður en þar getur hafist nám á ný. Og á Vesturbakkanum, þar á meðal í Austur-Jerúsalem, hafa verið gerðar 69 árásir á skóla og atvik sem hafa áhrif á nám, nemendur og kennara í nágrenni skóla telja á þriðja þúsund.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur ásamt samstarfsaðilum komið upp 39 tímabundnum skólasvæði á Gaza sem geta tekið við 12.400 nemendum. Að auki hefur neyðarskólagögnum og námsefni verið dreift og sálrænn stuðningur verið veittur börnum, ungmennum, forráðamönnum og kennurum í búðum fyrir fólk á flótta.

„Við verðum að finna leiðir til að hefja nám og endurbyggja skóla á ný til að viðhalda réttindum barna og næstu kynslóða til menntunar. Börn þurfa stöðugleika til að takast á við það gríðarlega áfall sem þau hafa upplifað og tækifæri til að vaxa, dafna og þroskast,“ segir Khodr.

„Öllum hindrunum sem okkar mikilvæga starfi eru settar verður að aflétta. Við þurfum nauðsynlega að koma miklu magni náms- og afþreyingargagna til barna á Gaza, tryggja örugg svæði til náms og tryggja að nemendur og kennarar hafi öruggt aðgengi skólabyggingum. Ofar öllu þarf vopnahlé og frið svo börn geti snúið aftur í skólastofur og hægt sé að endurreisa ónýtar skólabyggingar.“


Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn