01. desember 2023

Ellefu skólar hlutu viðurkenningu sem Réttindaskóli og- frístund UNICEF á Alþjóðadegi barna

/ Mynd eftir Unni Önnu Árnadóttur

Á Alþjóðadegi barna, 20. nóvember síðastliðinn veitti innanlandsteymi UNICEF á Íslandi viðurkenningar og endurmat vegna réttindaskóla- og frístundar. Fimm skólar, frístundaheimil og leikskólar fengu  viðurkenningu og þrír skólar og frístundaheimili fengu endurmat.

Það voru Naustaskóli á Akureyri, leikskólinn Iðavöllur, leikskólinn Klappir, Borgaskóli og frístundaheimilið Hvergiland, og Engjaskóli og frístundaheimilið Brosbær sem fengu viðurkenningu og Giljaskóli á Akureyri, Melaskóli og frístundaheimilið Selið, og frístundaheimilið Frostheimar sem fengu endurmat.

Leikskólarnir sem hafa fengið réttindaviðurkenningu eru því orðnir sjö talsins, gunnskólarnir þrettán, frístundaheimilin tíu og félagsmiðstöðvarnar þrjár.

Allt að 25% barna á grunnskólaaldri á Íslandi stunda því nám í skóla sem er kominn með viðurkenningu eða vinnur að því að verða Réttindaskóli og- frístund UNICEF. Í heild eru nú 75 grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar í innleiðingarferlinu og alls 21 leikskóli.

„Í nóvember er mikil uppskeruhátíð hjá okkur því þá veitum við viðurkenningar til skóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva sem eru að ljúka við fyrsta innleiðingarhring og fá sína fyrstu viðurkenningu eða fá endurmat. Viðurkenning gildir í 3 ár en svo tekur bara við áframhaldandi vinna við að gera skóla- og frístundaumhverfið betra fyrir börnin. Það eru svo mörg frábær verkefni sem er verið að vinna og margt sem breytist þegar við fræðumst um réttindi barna, rýnum í starfið og hugsum hlutina aðeins öðruvísi, með barnið í miðjunni,“ segir Sigyn Blöndal, réttindaskólastjóri UNICEF á Íslandi.  

Iðavöllur fær viðurkenningu sem Réttindaskóli á leikskólastigi / Mynd eftir Unni Önnu Árnadóttur

Út á hvað gengur Réttindaskóli og- frístund UNICEF?

Skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sem taka þátt í verkefninu leggja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til grundvallar í öllum samskiptum, stefnumótun og starfsháttum sínum. Til þess að fá viðurkenningu sem Réttindaskóli- og frístund UNICEF þarf árangur að vera mælanlegur í skóla- og frístundastarfi fyrir börn. Þetta er tryggt með því að leggja fyrir stöðumat, vinna aðgerðaáætlun þar sem börnin sjálf forgangsraða aðgerðum, endurskoða allar forvarnaráætlanir og tryggja barnaréttindafræðslu fyrir allt starfsfólk sem og börnin.

UNICEF á Íslandi, í samstarfi við fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar, hélt námskeið á Akureyri fyrir um 80 manns, það er starfsfólk leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva. Þar var sérstaklega farið yfir hvað það þýðir að innleiða Barnasáttmálann í skóla- og frístundastarf og var áhersla lögð á fræðslu fyrir stjórnendur, kennara og annað starfsfólk.

„Hluti af úttektarferlinu eru viðtöl við stjórnendur, kennara, foreldra, starfsfólk og börn í réttindaráði. Það er alveg magnað að heyra kennara til margra ára svara spurningunni hvort samskipti hafi breyst á milli starfsfólks og barna með orðunum; já við tökum meira tillit til tilfinninga barnanna,“ segir Sigyn.

Í fræðslunni var lögð áhersla á hvernig hægt sé að tryggja réttindamiðaða þátttöku og áhrif barna á skóla- og frístundastarfið, ásamt því að rýna í starfið út frá réttindum barna og skoða hvað er hægt að gera betur og hvernig megi ráðast í umbætur.  

„Innleiðingin snýst nákvæmlega um þetta, að hlusta meira á börnin, bera virðingu fyrir þeim og skoðunum þeirra, tryggja að þau hafi áhrif innan skóla og frístundastarfs og að þeim líði öllum vel svo þroskist og dafni hvert og eitt þeirra á sinn einstaka hátt. Til þess að ná þessum árangri þarf að tryggja fræðslu fyrir allt starfsfólk því við erum öll í þessu saman og við þurfum öll að vera með sama skilning á því hvað það er að vera góður við börn, hvernig við tryggjum þessi tækifæri til þátttöku og áhrifa og Barnasáttmálinn hjálpar okkur við það,“ bætir Sigyn við.

Hér fyrir neðan má lesa ræðu samda af Örnu og Bergrósu í 10. bekk Giljaskóla sem var lesin upp af Brimari í 5. bekk

„Okkur finnst eins og réttindaráðið hjálpi okkur krökkunum að finna okkar réttindi. Áður en við urðum réttindaskóli, þá held ég að flestir af krökkunum vissu ekki hversu réttindi við höfum sem börn. Réttindaráðið okkar í Giljaskóla hefur hjálpað okkur öllum krökkunum að vaxa saman og vita okkar réttindi sem við eigum rétt á að nota.”

„Það að vita okkar réttindi gefur okkur rödd til þess að tjá okkur og bera okkar skoðanir fram. Það að vera réttindaskóli hefur haft rosalega góð áhrif á hvernig okkur nemendum í Giljaskóla líður í skólanum og utan hans,“ sagði Brimar, en Bergrós og Brimar hafa verið í réttindaráði Giljaskóla frá upphafi.

Réttindaráð Giljaskóla tekur við nýjum fána Réttindaskóla UNICEF / Mynd eftir Unni Önnu Árnadóttur

Foreldrar og starfsfólk fagna verkefninu

Foreldrar og starfsfólk taka undir með börnunum og segja að það sé mikilvægt að allir fræðist meira um réttindi barna, þó svo að það væri auðvitað frábært að það væri ekki þörf á fræðslu sem þessari, að réttindi barna væru svo sjálfsögð. Foreldrarnir lögðu meðal annars áherslu á fjölmenningu og hversu mikilvægur stuðningurinn frá leikskólanum væri. Börn með sérþarfir fá stuðning við þeirra hæfi og sögðu starfið vera bæði „fallegt og mikilvægt“.

Börn á leikskólanum Klöppum glöð með viðurkenninguna sína / Mynd eftir Unni Önnu Árnadóttur
Börn í Naustaskóla kát með viðurkenninguna sína / Mynd eftir Unni Önnu Árnadóttur
Börn í Naustaskóla brosa fyrir ljósmyndara UNICEF á Íslandi / Mynd eftir Unni Önnu Árnadóttur
Vinnustofa leik- og grunnskólakennara, og stjórnendur skóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva á Akureyri / Mynd eftir Unni Önnu Árnadóttur
Réttindaráð Borgaskóla og Hvergilands taka á móti viðurkenningu sem Réttindaskóli og- frístund UNICEF. Þau fóru svo beint út að flagga / Mynd eftir Unni Önnu Árnadóttur
Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn