14. júlí 2023

Ellefu börn láta lífið í hverri viku á leið yfir Miðjarðarhafið

Áætlað að 11.600 börn hafi lagt í hið hættulega ferðalag yfir miðju Miðjarðarhafs á árinu, meirihlutinn fylgdarlaus eða sem hafa orðið viðskila við foreldra sína

Björgunarvesti flóttafólks og hælisleitenda við gríska strönd fyrir nokkrum árum. (Mynd úr safni). /UNICEF

Að minnsta kosti 289 börn eru talin hafa látið lífið eða horfið það sem af er þessu ári á hinni hættulegu siglingaleið fyrir miðju Miðjarðarhafi frá Norður-Afríku að meginlandi Evrópu samkvæmt UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Það jafngildi nær ellefu börnum á viku sem ýmist láta lífið eða hverfa í leit að öryggi, friði og tækifærum til betra lífs.

UNICEF áætlar að um 1.500 börn hafi látið lífið eða horfið á þessari siglingaleið síðan 2018. Samkvæmt tölum frá Alþjóðlegu fólksflutningastofnuninni (IOM) hafa alls 8.274 einstaklingar látið lífið eða horfið á leið sinni yfir hafið á þessum tíma.

Þegar skipskaði verður á þessari leið eru mörg tilfelli þar sem enginn kemst lífs af eða ferðin óskráð svo UNICEF telur líklegt að tala látinna geti í raun verið mun hærri. Undanfarna mánuði hafa börn verið meðal látinna í sjóslysum á þessari siglingaleið, sem og á öðrum leiðum yfir Miðjarðarhafið og frá Vestur-Afríku, þar á meðal nýlega undan ströndum Grikklands og Kanaríeyja.

Skapa þarf örugga og lögleið leið fyrir börn

„Í leit sinni að öryggi, fjölskyldum sínum og betri framtíð eru allt of mörg börn týna lífi eða hverfa eftir að hafa farið um borð í báta á leið yfir Miðjarðarhafið,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. „Þetta er skýrt merki um að það verður að skapa örugga og löglega leið fyrir börn til að leita hælis– sem og að styrkja innviði til björgunaraðgerða á hafi. En þegar upp er staðið verður að gera meira til að taka á rót vandans, sem veldur því að börn hætta lífi sínu í leit að öryggi og betra lífi til að byrja með,“ segir Russell.    

UNICEF áætlar að 11.600 börn, að meðaltali 428 börn á viku, hafi komið að ströndum Ítalíu frá Norður-Afríku síðan í janúar síðastliðnum. Tvöfalt fleiri en á sama tímabili í fyrra. Meirihluti barnanna leggja frá landi í Líbíu og Túnis og eiga þá oftar en ekki að baki hættuleg og löng ferðalög frá öðrum löndum víðs vegar um Afríku og Mið-Austurlönd.

Mikill meirihluti fylgdarlaus

Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs voru 71 prósent barna sem komu að meginlandi Evrópu um miðju Miðjarðarhafsins ýmist fylgdarlaus eða höfðu orðið viðskila við foreldra eða forráðamenn. Sjóferðin er því aðeins ein af hættunum sem steðja að þeim börnum sem leggja í þessar ferðir þar sem ferðalagið og komunni á áfangastað fylgja meiri líkur á hvers kyns ofbeldi og misnotkun og öðrum brotum gegn réttindum barna.

UNICEF sendir því ákall til allra stjórnvalda að fara að alþjóðalögum og virða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með því að vernda börn með öllum tiltækum ráðum, hvort heldur sem er í upphafi ferðar, á sjó eða áfangastað. UNICEF skorar einnig á Evrópusambandið að tryggja að sérstaklega verði hugað að stöðu barna í komandi samkomulagi um samræmda stefnu í málefnum flóttafólks og hælisleitenda.

UNICEF mun halda áfram vinnu sinni með ríkjum við að styrkja barnaverndar- og félagsleg úrræði og móttökukerfi fyrir flóttafólk og hælisleitendur til að koma í veg fyrir og milda hætturnar sem steðja að börnum í þessum aðstæðum. 

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn