04. ágúst 2021

Eitt ár liðið frá sprengingunni í Beirút, Líbanon

Samkvæmt könnun sem UNICEF í Líbanon stóð fyrir þurftu sjö af hverjum tíu fjölskyldum á aðstoð að halda eftir sprenginguna í fyrra. 98% þeirra fjölskyldna þurfa enn á aðstoð að halda í dag, ári eftir sprenginguna

Í dag, 4.ágúst, er eitt ár liðið frá mannskæðu sprengingunni sem varð á hafnarsvæðinu í Beirút, höfuðborg Líbanons. Sprengingin eyðilagði stóran hluta borgarinnar, yfir 200 manns létust, yfir 6500 manns særðust, þar á meðal 1000 börn og 300 þúsund einstaklingar misstu heimili sín. Líf yfir 100 þúsund barna í Beirút var snúið á hvolf á einni nóttu. Börn jafnt sem fullorðnir hafa orðið fyrir gríðarlegu andlegu áfalli og eru margir sem munu bera tilfinningaleg ör til langs tíma.

Hamfarirnar í fyrra kölluðu á umfangsmikla neyðaraðstoð og sýndu einstaklingar, ríkisstjórnir og aðrir aðilar um allan heim mikið örlæti. Hjálparstofnanir a borð við UNICEF fengu liðsstyrk hvaðanæva að úr heiminum en þrátt fyrir mikinn stuðning í kjölfar sprengingarinnar þá ríkir enn mikil neyð í landinu – þar sem ástandið er flókið í Líbanon og margir ólíkir þættir spilast saman. Djúp fjármálakreppa, áhrif Covid-19 heimsfaraldursins, pólitískur óstöðugleiki og eftirmálar sprengingarinnar hefur skilið börn og fjölskyldur eftir í mikilli neyð.

Efnahagskreppan í Líbanon er sú versta í heiminum síðustu 150 ár. Verðbólgan er komin yfir 100% og líbanska líran hefur misst 90% prósent af verðgildi sínu. Verð á matvælum hefur margfaldast og skortur er á matvælum, lyfjum, eldsneyti og öðrum nauðsynjum. Þá hefur ekki tekist að mynda ríkisstjórn í landinu eftir sprenginguna og því hefur enginn gegnsæ og trúverðug rannsókn átt sér stað um hvað gerðist þennan örlagaríka dag í Beirút. Íbúar Líbanons krefjast réttlætis og að þeir sem eigi sök verði refsað fyrir atburðina.

„Frá því að sprengingin varð fyrir ári hefur ástandið í Líbanon versnað með hverjum deginum. Landið glímir við þrefalda krísu: efnahagslega, pólitíska og COVID-19 heimsfaraldurinn. Áhrifin eru gríðarleg og næstum hvert einasta barn í Líbanon er berskjaldað og þarfnast einhverskonar aðstoðar , "segir Ted Chaiban, svæðisstjóri UNICEF í Miðausturlöndum og Norður-Afríku".

Samkvæmt könnun sem UNICEF í Líbanon stóð fyrir þurftu sjö af hverjum tíu fjölskyldum á aðstoð að halda eftir sprenginguna í fyrra. 98% þeirra fjölskyldna þurfa enn á aðstoð að halda í dag, ári eftir sprenginguna og þriðjungur barnafjölskyldna segja að minnsta kosti eitt barn á heimilinu sýni enn einkenni andlegrar vanlíðan og áfallastreitu - nærri helmingur fullorðna einstaklinga sýnir enn slík merki. Könnuninn leiddi einnig í ljós að tvær af hverjum þrem fjölskyldum (68,6%) hafa ekki haft aðgang að heilbrigðisþjónustu eða lyfjum eftir sprenginguna og heimili nær allra fjölskyldna hafi þurft á viðgerðum að halda í kjölfarið. Hægt er að lesa meira um könnunina hér.

Starfsfólk UNICEF í Líbanon var í fremstu víglínu eftir sprenginguna í Beirút og vann með yfirvöldum og samstarfsaðilum að því að bregðast við þeirri miklu neyð sem þar ríkti í kjölfarið. Eftir sprenginguna hefur UNICEF stutt endurbyggingu á vatnsveitukerfum, barnaspítölum og skólum sem skemmdust í sprengingunni. Einnig hefur UNICEF dreift mat og hreinlætisvörum, veitt sálrænan stuðning og veitt þeim allra viðkvæmustu fjárhagsaðstoð (e. cash assistance).

Á sama tíma og gríðarleg neyð ríkir í landinu er möguleiki að ástandið geti versnað til muna. UNICEF hefur varað við vatnsskorti en vatnsveitukerfi í landinu eru á barmi hruns og því hvetur UNICEF til frekari aðgerða í landinu. Hætta er að allt 71% íbúa Líbanon eigi í hættu á að missa aðgang að hreinu, öruggu vatni ef ekki er gripið strax til aðgerða.

UNICEF á Íslandi stóð fyrir neyðarsöfnun til að bregðast við hörmungunum í Beirút og almenningur á Íslandi brást strax við. UNICEF vill þakka þeim fjölmörgu einstaklingum sem lögðu söfnuninni lið, sem og heimsforeldrum en stuðningurinn gerir UNICEF kleift að bregðast við þegar neyðarástand skapast eins og í Líbanon.

Flaggskip UNICEF kemur út í dag: Hin árlega skýrsla um stöðu barna í heiminum.
Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn