06. desember 2023

Eitt af hverjum fimm börnum búa við fátækt í ríkustu löndum heims

Fátækt barna dregist saman um 8 prósent – Ísland í hópi ríkja sem nýttu góðærisár ekki nægilega vel – Fátækt barna hér enn með því lægsta sem gerist innan OECD og ESB en hefur þó aukist

Jákvæðu fréttirnar eru að fátækt barna hefur heilt yfir dregist saman um 8 prósent. Efnaminni ríkin sýna að margt má áorka með viljann að vopni. Mynd/UNICEF

Mörg efnuðustu ríki heims misstu af tækifærinu til að uppræta fátækt barna í efnahagslegri velsæld síðasta áratugar og hafa þess í stað horft upp á aukningu þar á. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Innocenti, alþjóðlegrar rannsóknarmiðstöðvar UNICEF, sem ber yfirskriftina Report Card 18: Child Povery in the Midst of Wealth þar sem velferð barna innan ríkja OECD og Evrópusambandsins er skoðuð. Þar kemur fram að Lettland og Suður-Kórea hafa náð hvað mestum árangri í að vinna gegn fátækt barna á samanburðartímabilinu 2014-2021 á meðan nokkrar af efnuðustu þjóðum heims hafa sofnað á verðinum. 

Ísland er meðal þeirra ríkja sem fjallað er um í skýrslunni og kemur fram í skýrslunni að þó að tíðni barnafátæktar sé hér lág í þessum samanburði þá lendum við engu að síður í hópi með Frakklandi, Noregi, Sviss og Bretlandi yfir þau ríki þar sem fátækt barna hefur aukist hlutfallslega mest á áðurnefndu tímabili. Eða um 10 prósent eða meira. 

Skýrslan sýnir að þó fátækt hafi heilt yfir dregist saman um samtals nærri 8 prósent í ríkjunum 40 sem rannsóknin nær til á milli áranna 2014 og 2021 þá búa rúmlega 69 milljónir barna á heimilum sem þéna innan við 60% af meðaltekjum í sínu landi í árslok 2021. 

Fram kemur að í 38 ríkjanna, þar sem gögn voru til, voru börn einstæðra foreldra þrefalt líklegri til að búa við fátækt en önnur börn. Börn með fötlun eða úr fjölskyldum sem tilheyra minnihlutahópum eru líka í yfir meðallagi líklegri til að búa við fátækt en önnur börn. 

Sofið á verðinum í góðæri 

Í rannsókninni kemur fram að á árunum 2012-2019 hafi verið stöðugur efnahagslegur vöxtur hjá þessum ríkjum með tilheyrandi tækifærum til að vinna gegn því bakslagi sem efnahagssamdráttur eftirhrunsáranna 2008-2010 hafði í för með sér. Það vekur hins vegar athygli skýrsluhöfunda að þrátt fyrir að margar þjóðir hafi náð góðum árangri, þá hafi nokkrar af efnaðri þjóðum hópsins ekki nýtt þessi tækifæri sem skyldi í að draga úr og uppræta fátækt barna samkvæmt mælingarviðmiðum skýrslunnar. Póllandi náði til dæmis að draga úr fátækt barna um 38 prósent, Slóvenía, Lettland og Litáen um rúmlega 30 prósent á tímabilinu. Á sama tíma jókst fátækt barna um 20 prósent í Bretlandi en um 10% í Frakklandi, Íslandi, Noregi og Sviss. 

Ísland er í 6. sæti yfir þau ríki þar sem fátækt barna mælist minnst (12,4%) en Danmörk vermir toppsætið með 9,9%. Slóvenía er í 2. sæti með 10%, Finnland 10,1%, Tékkland 11,6% og Noregur 12%. Rétt er að taka fram að það hlutfall sem mælist á Íslandi, 12,4%, þýðir að eitt barn af hverjum átta búi við fátækt. Upplýsingar um umsækjendur um alþjóðlega vernd eru ekki inni í þessum tölum. 

Hægt að bæta velferð án ríkidæmis  

Skýrslan sýnir einnig fram á það að hægt er að bæta velferð barna burtséð frá efnahagslegri stöðu ríkis. Til dæmis eru Pólland, Slóvenía, Lettland og Litáen ekki meðal efnuðustu þjóða OECD og ESB en tókst samt sem áður að draga verulega úr fátækt barna. 

Til að uppræta fátækt barna og standa undir skuldbindingum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í þeim efnum kallar skýrslan eftir því að stjórnvöld grípi tafarlaust til aðgerða. Svo sem að: 

  • Auka félagslega vernd barna, þar á meðal með bótagreiðslum til að auka tekjur heimila. 
  • Tryggja jafnan rétt barna að allri grunnþjónustu, eins og dagvistun og gjaldfrjálsri menntun. 
  • Skapa atvinnutækifæri sem tryggja nægjanlega framfærslu og innleiða fjölskylduvæna stefnu, svo sem launað fæðingarorlof, stuðning við foreldra og forsjáraðila til að ná jafnvægi milli vinnu og heimilis. 
  • Tryggja fullnægjandi aðgerðir í þágu minnihlutahópa og barna einstæðra foreldra til að tryggja jafnt aðgengi að nauðsynlegri félagsþjónustu og annarrar þjónustu og þannig draga úr ójöfnuði.  

Niðurstöður skýrslunnar eru í samræmi við fyrri skýrslur UNICEF á Íslandi um efnislegan skort barna á Íslandi. Í skýrslu sem kom út árið 2021 voru stjórnvöld hvött til þess að huga að langtímaaðgerðum gegn neikvæðum efnahagslegum áhrifum Covid-19 heimfaraldursins á börn. Jafnframt að tryggja viðunandi framfærslu fólks með tilliti til jafnrar stöðu allra barna og lita sérstaklega til hagsmuna barna við gerð fjárlaga og fjárhagsáætlana sveitarfélaga.   

Það má læra mikið af árangri mismunandi ríkja í að auka velsæld barna, segir Bo Viktor Nylund, yfirmaður Innocenti UNICEF.  

„Hvernig við nýtum þann lærdóm mun síðan ákvarða hversu vel okkur mun takast til við að tryggja velferð allra barna í dag og til frambúðar.“   

Skýrsluna Report Card 18: Child Poverty in the Midst of Wealth má nálgast í heild sinni hér. 

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn