15. júní 2022

Edda Hermannsdóttir nýr stjórnarformaður UNICEF á Íslandi

Ársfundur UNICEF á Íslandi fór fram í dag – Ársskýrsla ársins 2021 komin út –  Tekjur UNICEF á Íslandi námu alls 852 milljónum króna á síðasta ári – Þar af námu gjafir Heimsforeldra 619 milljónum 

Edda Hermannsdóttir, nýkjörin formaður stjórnar UNICEF á Íslandi ásamt Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra, og Óttarri Proppé, fráfarandi stjórnarformanni UNICEF á Íslandi.

Edda Hermannsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka, er nýr stjórnarformaður landsnefndar UNICEF á Íslandi. Þetta var tilkynnt á ársfundi UNICEF á Íslandi sem fram fór í dag. Fundurinn var í beinu streymi á Facebook síðu UNICEF og má horfa á upptökuna hér.  

Edda tekur við stjórnarformennskunni af Óttarri Proppé, sem verið hafði stjórnarformaður síðan í júní 2021 og setið í stjórn UNICEF á Íslandi frá árinu 2019, en hann var nýlega ráðinn til að leiða stýrihóp mennta- og barnamálaráðuneytisins um málefni barna á flótta og barna af erlendum uppruna. UNICEF á Íslandi þakkar Óttarri hjartanlega fyrir hans störf í þágu réttinda barna. 

Edda Hermannsdóttir tók sæti í stjórn UNICEF á Íslandi í fyrra. Hún starfar í dag sem markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka. Áður var hún aðstoðarritstjóri á Viðskiptablaðinu og dagskrárgerðarkona á RÚV. Hún er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið stjórnendanámi frá IESE í Barcelona. Þá hefur hún setið í stjórn Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga og ÍMARK auk þess að gefa út bækurnar Forystuþjóð og Framkoma. 

„Það er mikill heiður að taka við stöðu formanns stjórnar og ég er spennt að vinna áfram með þeim öfluga hópi sem stendur að baki UNICEF á Íslandi. Starfsfólk og stjórnarfólk brennur fyrir málefnum barna og oft hefur þörfin verið mikil en er nú nauðsyn í ljósi frétta af börnum á stríðshrjáðum svæðum. Við höldum því áfram að vinna af krafti í þágu barna og þökkum auðmjúklega fyrir allan þann stuðning sem Íslendingar hafa veitt til þessa verkefnis,“ segir Edda. 

Auk Eddu skipa nýja stjórn UNICEF á Íslandi þau Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, lögfræðingur, Guðrún Hálfdánardóttir, blaðamaður, Guðrún Pétursdóttir, lífeðlisfræðingur, Gunnar Helgason, rithöfundur og leikari, Hjörleifur Pálsson, stjórnarformaður Sýnar og formaður háskólaráðs HR, Jón Magnús Kristjánsson, læknir, Jökull Ingi Þorvaldsson, háskólanemi og Tatjana Latinovic, VP Intellectual Property hjá Össuri og formaður Kvenréttindafélags Íslands. Þá er Hjördís Freyja Kjartansdóttir, framhaldsskólanemi og formaður ungmennaráðs UNICEF, áheyrnarfulltrúi í stjórninni. 

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi  segir: „Árið 2021 var krefjandi ár að svo mörgu leyti en stuðningur fólks á Íslandi við börn og réttindi þeirra var öflugur sem aldrei fyrr. Tekjur landsnefndarinnar hafa aldrei verið hærri og réttindastarfið aldrei verið umfangsmeira. Það munaði svo sannarlega um mikinn stuðning fyrirtækja og almennings við söfnun landsnefndarinnar fyrir COVAX og samstarf við ráðuneyti, sveitarfélög og skóla um allt land í þágu réttinda barna. Ekki veitir af enda lifum við tíma þegar nauðsynlegt er að bæta verulega í alla fjárfestingu í þágu barna.” 

Tekjur UNICEF á Íslandi á árinu 2021 námu rúmum 852 milljónum króna, 6,6% hækkun milli ára, og komu tæplega 75% teknanna frá Heimsforeldrum sem styðja börn um allan heim með mánaðarlegum framlögum.

Hlutfallslegur fjöldi Heimsforeldra á Íslandi sá hæsti á heimsvísu 

Á ársfundinum, sem var haldinn í Miðstöð Sameinuðu þjóðanna, kynnti Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, helstu niðurstöður úr starfsemi landnefndarinnar á árinu 2021 og ný ársskýrsla var gefin út. Tekjur UNICEF á Íslandi á árinu 2021 námu rúmum 852 milljónum króna, 6,6% hækkun milli ára, og komu tæplega 75% teknanna frá Heimsforeldrum sem styrkja UNICEF með mánaðarlegum framlögum. Hlutfallslegur fjöldi Heimsforeldra á Íslandi er sá hæsti á heimsvísu og framlag landsnefndarinnar til verkefna UNICEF það næsthæsta allra landsnefnda miðað við höfðatölu á síðasta ári.  
 
Stærstum hluta, eða tæpum 471 milljón króna, var varið til reglubundins hjálparstarfs UNICEF í þeim löndum þar sem þörfin er mest. Heildarframlög til neyðar á árinu 2021 námu rúmum 86 milljónum króna, bæði frá einstaklingum og fyrirtækjum. Tæpum 70 milljónum var varið til verkefna innanlands, við réttindagæslu, réttindafræðslu og innleiðingu barnvænna sveitarfélaga, í góðu samstarfi við félags- og barnamálaráðuneytið. 

Auk þess ber að þakka þeim fjölmörgu einstaklingum sem studdu starf UNICEF á síðasta ári með kaupum á Sönnum gjöfum og framlögum í neyðarsafnanir síðasta árs.  

Sérstakar þakkir fá einnig þau fjölmörgu fyrirtæki sem lögðu starfi UNICEF lið á síðasta ári með margvíslegum og ómetanlegum hætti: Kvika banki, Krónan, Alvotech og Alvogen, Te og Kaffi, Íslandsbanki, BM Vallá, Deloitte, Vörður, Lindex á Íslandi, MAGNA lögmenn og Fasteignafélagið Reitir.  
 
Stuðningur íslenskra stjórnvalda til fyrirmyndar 

UNICEF er skilgreind sem ein af fjórum lykilstofnunum utanríkisráðuneytisins í marghliða þróunarsamvinnu Íslands og er samstarf íslenska ríkisins við Barnahjálpina afar gott og náið. Íslenska ríkið er álitið fyrirmyndarstyrktaraðili UNICEF vegna hárra kjarnaframlaga (e. regular resources) og mikils stuðnings miðað við höfðatölu. Kjarnaframlög eru ekki eyrnamerkt ákveðnum verkefnum og því gerir hátt hlutfall þeirra, 130 milljónir króna á ári, UNICEF kleift að sinna þróunar- og hjálparstarfi á svæðum sem eru ekki endilega í kastljósi fjölmiðla og umheimsins. Við færum íslenskum yfirvöldum hugheilar þakkir fyrir hönd þeirra ótal barna sem njóta góðs af stuðningnum. Þegar litið er á heildarframlag Íslands á liðnu ári, þ.e. frá bæði ríki og landsnefnd, erum við enn á ný einn stærsti styrktaraðili UNICEF á heimsvísu miðað við höfðatölu. Af því erum við afskaplega stolt og þakklát.    

Stærsta einstaka fjáröflunarverkefni síðasta árs fólst í COVAX-samstarfinu þar sem UNICEF var falið það verkefni að dreifa bóluefnum við Covid-19 til efnaminni ríkja.

Eitt stærsta söfnunarverkefni frá upphafi 

Stærsta einstaka fjáröflunarverkefni síðasta árs fólst í COVAX-samstarfinu þar sem UNICEF var falið það verkefni að dreifa bóluefnum við Covid-19 til efnaminni ríkja. Gríðarlegur stuðningur var við verkefnið hér á landi frá einstaklingum, fyrirtækjum og stjórnvöldum og vakti það verðskuldaða athygli hjá UNICEF erlendis. Alls söfnuðust ríflega 48,5 milljónir króna í COVAX-samstarfið á síðasta ári frá einstaklingum og fyrirtækjum. Íslenska ríkið studdi einnig dyggilega við COVAX samstarfið með beinum framlögum og með því að gefa umframskammta.  

Öflugt og sívaxandi innanlandsstarf 

Sem fyrr var mikið um að vera í innanlandsstarfi UNICEF á Íslandi á árinu 2021. Unnið var að margvíslegum verkefnum tengdum þátttöku barna í samstarfi við sex aðrar landsnefndir UNICEF með styrk frá Evrópusambandinu. Árið litaðist áfram af áhrifum heimsfaraldursins og einbeitti UNICEF á Íslandi sér að áhrifum hans á börn og hagsmunagæslu um réttindi þeirra. Stjórnvöld voru hvött til að setja hagsmuni barna í forgang þegar skólum var lokað. 

 
Gefin var út skýrsla um efnislegan skort barna sem sýndi að heilt yfir liðu börn á Íslandi minni skort en börn í öðrum Evrópuríkjum. Hins vegar var ljóst af niðurstöðum greiningarinnar að ójöfnuður ríkir meðal barna og að sum börn á Íslandi líða meiri skort en önnur. Sérstaklega var fjallað um skort íslenskra barna á tómstundastarfi, en samanborið við önnur Evrópuríki skortir mörg börn á Íslandi tómstundastarf á borð við íþróttir, tónlist eða annað barna- og ungmennastarf. Mestur efnislegur skortur barna var á barnmörgum heimilum, á heimilum þar sem atvinnuþátttaka foreldra mældist lág og meðal barna sem bjuggu í leiguhúsnæði.  

 
Réttindaskólum fjölgaði um fimm, réttindafrístundum um fimm, félagsmiðstöðvum um þrjár og leikskólum um 19 og voru því 20 skólar, 14 frístundaheimili, 11 félagsmiðstöðvar og 19 leikskólar sem taka þátt í verkefninu sem fékk styrk frá menntamálaráðuneytinu og er nú hluti af aðgerðaráætlun nýrrar menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030. Samstarf hófst við leikskóla í Kópavogi og Reykjavík um þróun réttindaleikskóla en sú vinna felst í því að aðlaga innleiðingarferli Réttindaskóla- og frístundar að leikskólakerfi.  

Þátttakendum í verkefninu Barnvæn sveitarfélög fjölgaði úr 11 í 17. Þau sveitarfélög sem bættust í hópinn voru: Fjarðabyggð, Hrunamannahreppur, Mosfellsbær, Rangárþing eystra, Seltjarnarnes og Vopnafjarðarhreppur. Við árslok 2021 bjuggu 48,5% barna á Íslandi í sveitarfélagi sem vinnur að því að verða barnvænt.   

Ítarlegri umfjöllun og sundurliðun á starfi UNICEF á Íslandi á árinu 2021 má lesa í heild sinni í ársskýrslunni sem aðgengileg er hér. 

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn