14. ágúst 2020

Brynja Karítas gaf stóran hluta fermingarpeninganna til að tryggja börnum menntun

Brynja Karítas Thoroddsen, sem búsett er á Akureyri, var staðráðin í að styrkja gott málefni eftir fermingu þann 19. júlí síðastliðinn. Hún ákvað því að láta stóra hluta fermingarpeninganna sem hún fékk að gjöf renna til einhvers sem skipti hana verulegu máli.

14. ágúst 2020 Brynja Karítas Thoroddsen, sem búsett er á Akureyri, var staðráðin í að styrkja gott málefni eftir fermingu þann 19. júlí síðastliðinn. Hún ákvað því að láta stóran hluta fermingarpeninganna sem hún fékk að gjöf renna til einhvers sem skipti hana verulegu máli. Það varð gæfa okkar hjá UNICEF á Íslandi að þessi ótrúlega flotta stúlka valdi að láta peningana, heilar 135 þúsund krónur, renna til menntunar nauðstaddra barna. Hún segir að lestur bókarinnar um baráttukonuna Malölu Yousafzai hafi opnað augu hennar fyrir mikilvægi menntunar og því hversu mörg börn í heiminum fari á mis við þessi réttindi sín.

Gjöf Brynju Karítasar fylgdi aðeins þessi ósk að hún yrði nýtt til menntunar barna. Var því ákveðið að setja saman sérstakan menntapakka af Sönnum gjöfum, sérstaklega fyrir Brynju Karítas, með áherslu á málefnið. En af hverju menntun barna?

„Eftir að ég las bókina Ég er Malala áttaði ég mig á því að það eru svo mörg börn í heiminum sem fá litla sem enga menntun. Mig langaði mjög mikið að hjálpa þessum börnum vegna þess að menntun er eitt það besta sem þú getur fengið. Það opnast svo miklu fleiri möguleikar í lífinu og þú skilur miklu betur ef einhver er ósanngjarn við þig. Ef við viljum eiga heima í góðum heimi verða allir að vita hver sín réttindi eru,“ segir Brynja Karítas sem, í samráði við foreldra sína, veitti góðfúslegt leyfi fyrir því að greint yrði frá þessari rausnarlegu gjöf í von um að hvetja aðra til góðra verka.

Gjöf sem mun bæta og tryggja menntun og velferð hundruð barna

Skemmst er frá því að segja að við hjá UNICEF á Íslandi erum djúpt snortin yfir þessu frábæra framtaki Brynju Karítasar. Að hún skuli þrátt fyrir ungan aldur hafa svo djúpa sýn á málefnið og sú samkennd sem hún sýnir, með því að láta svo veglega fjárhæð af hendi rakna til baráttunnar fyrir réttindum barna, er ekkert annað en stórkostlegt. Við erum full þakklætis.

En hvaða hjálpargögn af vefnum Sannargjafir.is innihélt Fermingarpakki Brynju Karítasar?

Hún keypti tvo bráðabirgðaskóla, eða Skóla í kassa, sem eru smekkfullir af alls konar nauðsynlegum námsgögnum fyrir alls 80 börn. Þessir kassar eru meðal annars notaðir til að tryggja áframhaldandi menntun barna við erfiðar aðstæður á neyðarsvæðum eða í flóttamannabúðum.

Þessu til viðbótar bættum við í pakkann 740 blýöntum, 240 stílabókum og 80 skólatöskum.

Menntun er öflugasta vopnið gegn fátækt og hungri. Aukin menntun stuðlar að lækkun barnadauða, er mikilvæg í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og er í raun lykillinn að bjartari framtíð öllum til heilla.

En stúlkur hafa víða ekki jafnt aðgengi að menntun. Einn þáttur í því er að í mörgum löndum er skömm í kringum blæðingar. Stúlkur hafa ekki aðgang að tíðarvörum og getur það heft skólagöngu þeirra. Þess vegna innihélt pakkinn líka 150 fjölnota dömubindi með poka til geymslu.

Og þar sem heilsa barna er einnig lykilþáttur í að þau geti stundað nám þá innihélt gjöfin einnig:

  • 60 skammta af bóluefni gegn stífkrampa.
  • 40 skammta af bóluefni gegn mænusótt.
  • 40 skammta af bóluefni gegn mislingum.
  • 50 skammta af vítamínbættu jarðhnetumauki.
  • Kælibox fyrir bóluefnin.

UNICEF mun svo sjá til þess að hver gjöf verði send þangað sem neyðin er mest hverju sinni.

UNICEF á Íslandi þakkar Brynju Karítas enn og aftur kærlega fyrir stuðninginn, fyrir hönd allra þeirra barna sem njóta munu góðs af. Þvílík fyrirmynd.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn