08. desember 2023

Brýn þörf á fjárfestingu í loftslagsfræðslu: Aðeins helmingur ungs fólks getur skilgreint loftslagsbreytingar

Niðurstöður loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, benda til þess að brýn þörf sé á fjárfestingu í börnum og þá sérstaklega loftslagsfræðslu. Aðeins helmingur ungs fólks skilur hvað loftslagsbreytingar eru.

Flest börn og ungmenni segjast hafa heyrt um loftslagsbreytingar en aðeins helmingur skilur hvað þær fela í sér samkvæmt nýrri könnun UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, og Gallup á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í Dubai um þessar mundir.

Að meðaltali sögðust 85 prósent ungmenna á aldrinum 15-24 ára frá 55 löndum hafa heyrt um loftslagsbreytingar, en þó gátu aðeins 50 prósent þátttakendanna skilgreint hugtakið.

„Ungt fólk hefur að miklu leyti knúið fram aðgerðir til þess að takast á við loftslagsbreytingar, svo sem með mótmælum á götum úti eða hinum ýmsu fundum en enn er þörf á að auka skilning þeirra á loftslagskrísunni sem nú er yfirvofandi,“ sagði Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF. „Á COP28 verða leiðtogar að skuldbinda sig til að tryggja að börn og ungt fólk fái fræðslu um vandamálið og svo þau geti tekið þátt í ákvörðunum sem munu móta líf þeirra næstu áratugi,“ sagði Russell.

Þekking minnst í lágtekjulöndum

Þekking á loftslagsbreytingum meðal ungs fólks reyndist minnst í lágtekjulöndum, sem eru þó þau lönd sem viðkvæmust eru fyrir áhrifum loftslagsbreytinga líkt og Pakistan, Sierra Leone og Bangladess.

Samkvæmt The Children's Climate Risk Index, sem UNICEF gaf út árið 2021, eru börn í öllum þremur löndunum flokkuð sem í mjög mikilli hættu vegna áhrifa loftslagsbreytinga og umhverfishnignunar, sem ógnar heilsu þeirra, menntun og vernd og gerir þau berskjölduð gagnvart banvænum sjúkdóma.

Niðurstöður Gallup könnunarinnar sýnir einnig fram á að ungt fólk reiðir sig sérstaklega á samfélagsmiðla til þess að nálgast upplýsingar en aðeins 23 prósent svarenda treysta vel þeim upplýsingum sem þau þar finna.  

„Rannsóknin veitir dýrmæta innsýn í hvernig börn og ungt fólk sér langtímaáskoranir vegna loftslagsbreytinga móta heiminn okkar, bæði nú þegar og í framtíðinni. Það skiptir sköpum að draga fram sjónarmið ungs fólks. Það hjálpar stefnumótendum nútímans að skilja þarfir og skoðanir komandi kynslóða á tímum örra breytinga og óvissu,“ sagði Joe Daly, hjá Gallup.

Réttur barna til hreins, heilbrigðs og sjálfbærs umhverfis

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna staðfesti í ágúst rétt barna til hreins, heilbrigðs og sjálfbærs umhverfis, í kjölfar þess að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í júlí 2022 viðurkenndi að hreint, heilbrigt og sjálfbært umhverfi væru mannréttindi. Leiðbeiningarnar fjölluðu meðal annars um neyðarástand í loftslagsmálum, minnkandi líffræðilegs fjölbreytileika og þá umfangsmikla mengun sem finnst í heiminum.

Þrátt fyrir að þessi réttindi hafi verið fullgild af 196 ríkjum í gegnum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að börn séu meðal þeirra sem viðkvæmust eru fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, eru börn oft virt að vettugi í ákvörðunum sem teknar eru til að takast á við loftslagskreppuna. Þetta þýðir að ákvarðanir taka oft ekki mið af þeim einstöku þörfum og framlögum barna og kynslóða framtíðarinnar.

UNICEF skorar á leiðtoga heimsins á COP28

Á COP28, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem stendur yfir í Dubai, skorar UNICEF á leiðtoga heimsins að tryggja að ákvarðanir verndi og fjárfesti markvisst í börnum, þar á meðal með því að tryggja þeim loftslagsfræðslu. Það felur meðal annars í sér að kalla saman sérfræðingaviðræður um börn og loftslagsbreytingar, að tryggja kynslóðajafnrétti í eftirfylgni með markmiðum Parísarsamkomulagsins í loftslagsmálum (Global Stocktake (GST)), að tryggja að tjónasjóður aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna sé barnvænn og að réttindi barna séu tryggð í stjórnunar- og ákvarðanaferli sjóðsins.

Fyrir utan COP28 skorar UNICEF á aðila að grípa til aðgerða til að vernda líf, heilsu og velferð barna, þar á meðal með því að aðlaga nauðsynlega félagsþjónustu og uppfylla alþjóðlega sjálfbærni- og loftslagsbreytingasamninga, meðal annars með því að draga hratt úr losun.

„Eftir að hafa orðið vitni að krafti ungmenna í þágu baráttunnar gegn loftslagsvandanum er ég viss um að virkja þarf ungt fólk enn frekar svo hægt sé að takast á við þetta stóra vandamál sem heimurinn stendur frammi fyrir,“ Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF að lokum.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn