21. júní 2023

Börnin í Súdan vilja blóm frekar en byssukúlur

Börn á flótta undan blóðugum átökum í Súdan segja sögu sína í máli og myndum á barnvænum svæðum UNICEF

Majd með teikninguna sína af hermanni með blóm í stað byssukúlu í vopni sínu.

„Engar byssukúlur. Ein rós fyrir hvert barn.“ Með þeim áhrifamiklu orðum lýsir hin 10 ára gamla Majd teikningu sinni á barnvænu svæði UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í Madani. Þar eru Majd og önnur börn, sem neyðst hafa til að flýja heimili sín vegna átakanna í Súdan, samankomin. Þar fá þau sálræna aðstoð og öruggt svæði til að vera börn innan um blóðuga vígvelli Súdan.

Á þeim tveimur mánuðum síðan átök brutust út í Súdan hafa rúmlega milljón börn neyðst til að flýja heimili sín. Áætlað er að rúmlega 330 börn hafi látið lífið og hátt í tvö þúsund særst. Vegna þess hversu harðvítug átökin eru hefur aðgengi mannúðarsamtaka verið takmarkað á ákveðnum svæðum í landi þar sem 13 milljónir barna þurfa nauðsynlega á neyðaraðstoð að halda. Vatn, heilbrigðisþjónustu, næringu og vernd.

Við minnum á neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Súdan.

Fulltrúar UNICEF settust niður með nokkrum þessara barna í Madani þar sem þau sögðu sögu sína í máli og myndum. Ljóst er að á þessum tveimur mánuðum hafa þau séð og upplifað ólýsanlegan hrylling, sem ekkert barn ætti að þurfa að ganga í gegnum.

Teikning Majd. Engar byssukúlur. Ein rós fyrir hvert barn.

Blóm í stað byssukúlna

Í Madani eru ríflega þrjú þúsund einstaklingar sem neyðst hafa til að flýja heimili sín, meirihlutinn konur og börn.

Majd er fámál og endurupplifir reglulega þegar bestu vinir hennar, Sarah og Asrar, létu lífið í árás.

„Þau voru að bíða við hliðin eftir bíl sem átti að flytja þau frá Khartoum þegar sprengja féll skammt frá. Brot úr sprengjunni fóru í líkama þeirra. Þau dóu á leiðinni því það fannst ekki sjúkrahús,“ rifjar Majd upp sorgmædd. Það birtir þó yfir henni þegar hún sér liti og pappír fyrir framan sig og án þess að hugsa sig tvisvar um byrjar hún að teikna hermann með byssu sem stífluð er með blómi. Hún útskýrði síðar hvað teikningin táknar.

„Engar byssukúlur. Ein rós fyrir hvert barn. Þessi mynd er fyrir öll börn sem búa við þetta stríð.“

Majd óskar þess að friður komist á svo hún geti snúið aftur til Khartoum og sameinast fjölskyldu sinni. Hún saknar kisunnar sinnar og bókanna sinna.

„Ég vona líka að öll börn í þessu stríði komi sterkari til baka.“

Fatima með teikningu sína af skriðdreka.

Saknar vina sinna og leikfanga

Hin tíu ára gamla Fatima kemur frá Khartoum og hefur neyðst til að flýja í tvígang nú þegar ásamt fjölskyldu sinni. Fyrst frá Khartoum og síðar Kosti. Á blaðið sitt teiknar hún skriðdreka, en af hverju skriðdreka? 
„Út af stríðinu. Ég sá skriðdreka og hermenn þegar ég var á ferðalagi milli borga. Það voru átök. Heima, heyrði ég byssuskot og sprengingar.

„Ég sakna vina minna, Omniu, Fatumu og Faridu, svo mikið. Og leikfanganna minna og dúkkanna. Ég vil að þetta stríð hætti og ég vil fara heim.“

Ahmed með teikninguna sína. Ferðalagið til Madani líður honum seint úr minni.

Gleymir aldrei lyktinni

Ahmed svaf vært þegar hann hann var vakinn við hávaða frá byssuskotum og sprengingum þegar átökin færðust til heimabæjar hans. Þegar ljóst var að ástandið væri orðið slæmt átti fjölskylda hans enga annarra kosta völ en að flýja.

„Við tókum saman eigur okkar og hlupum út á götu í leit að rútu sem kom með okkur hingað,“ rifjar hann upp. Ferðalaginu mun hann því miður seint gleyma.

„Á leiðinni sáum við lík út um allt og lyktin var svo hræðileg að hún sat föst í rútunni alla leiðina.“

Hvert barn á sér sögu og þarf þinn stuðning

Að baki hverju einasta barni í Súdan, af þeim milljónum sem lifa nú við skelfileg stríðsátök, er rödd og áhrifamikil teikning. Upplifun þeirra fylgir mikið álag og áfall. Með því að lita og teikna fá þau meðal annars aðstoð við að vinna úr reynslunni. Með einföldu samtali og með því að fá að tjá sig um það sem þau hafa mátt þola hefst bataferlið, þar sem þau taka einn dag í einu.

UNICEF og samstarfsaðilar vinna að því að veita börnum og fjölskyldum þeirra í stríði sálrænan stuðning við afar erfiðar aðstæður í Súdan.

Þú getur hjálpað UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, að tryggja börnum og fjölskyldum frá Súdan nauðsynlega aðstoð og hjálpargögn við þær skelfilegu aðstæður sem þau búa við núna. Þinn stuðningur skiptir máli.

Við minnum á neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Súdan.

Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög er:

701-26-102020

Kennitala: 481203-2950

Aðrar styrktarleiðir má finna hér á heimasíðu UNICEF á Íslandi.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn