12. maí 2023

Börn og þjóðþekktir endurgera Eurovision-slagara fyrir UNICEF

Grunnskólakrakkar kveða burt fordóma í nýrri fræðslumynd Hreyfingarinnar

UNICEF á Íslandi hefur endurgert Eurovision-slagara Pollapönks, Enga fordóma, með hópi 40 barna og þjóðþekkts tónlistarfólks. Meðal þeirra sem leggja hönd á plóginn í gerð lagsins eru börn úr Söngskóla Maríu Bjarkar og Kór heyrnarlausra í Hlíðaskóla ásamt Sölku Sól, Unnsteini Manuel, Jóni Jónssyni og Heiðari úr Pollapönk.  

Níu ár eru síðan lagið Enga fordóma var framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2004 en lagið og ekki síst boðskapur þess hefur lifað áfram og nýtur það enn mikilla vinsælda –sérstaklega hjá yngri kynslóðinni. Við erum sannfærð um að endurgerðin, í flutningi þessara hæfileikaríku barna, gefur forveranum ekkert eftir. 

Tónlistarmyndbandið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 

Lagið er hluti af nýrri fræðslumynd UNICEF-Hreyfingarinnar þar sem fjallað er um 2. grein Barnasáttmálans um jafnræði og bann við mismunun.  Börn sem hafa þurft að flýja átök og setjast að á nýjum stað deila reynslu sinni og fjallað um hlutverk okkar allra í því að bjóða þau velkomin. Ævar Þór Benediktsson, leikari, rithöfundur og sendiherra UNICEF á Íslandi, fer þar með aðalhlutverk ásamt Snæ Humadóttur, Hilmari Mána Magnússyni, Ásdísi Fjeldsted og Emblu Karitas Magnúsdóttur.  

Fræðslumyndin, sem ber yfirskriftina Burtu með fordóma, er unnin í samráði við rýnihóp 40 barna í Réttindaráðum þriggja grunnskóla sem lagði grunninn að handritavinnu myndarinnar. Börnin voru spurð: Hvernig gerum við bestu, skemmtilegustu og áhrifamestu fræðslumynd allra tíma? Og ekki stóð á svörum frá rýnihópnum því afraksturinn er metnaðarfull og stórskemmtileg mynd fyrir alla aldurshópa sem sýnd verður í grunnskólum landsins sem taka þátt í UNICEF-Hreyfingunni í ár.  

Fræðslumyndin verður hin glæsilegasta, byggð á hugmyndum frá börnum.

Sigyn Blöndal, Réttindaskólastjóri UNICEF á Íslandi: 

„Ég lagði mikla áherslu á að tryggja þátttöku barna á sem flestum sviðum myndarinnar. Við byrjuðum í janúar að vinna með réttindaráðunum að því að fá þeirra rödd inn í handrits- og hugmyndavinnuna og koma þeim í framkvæmd eins og mögulegt var. Þau vildu vita hvað þau geti gert fyrir börn á flótta sem hingað koma og læra meira um Barnasáttmálann almennt. Þau vildu að fram kæmu hundur og krakkar á mismunandi aldri og með fjölbreyttan bakgrunn.  Þá þurfti þetta að þeirra að mati að vera fyndið– án þess að fara út í algjöra vitleysu, svo átti að vera brandari um Svala, spurningakeppni, myndin átti að vera táknmálstúlkuð og síðast en ekki síst innihalda lokalag, því allir góðir þættir eru með lokalag. 

Alls komu 80 börn að gerð þessarar fræðslumyndar með einum eða öðrum hætti sem er algjörlega frábært. Þessi vinna var svo skemmtileg, svo mikil gleði, jákvæð orka og samstaða í öllum sem komu að þessu og langar mig að þakka öllum sem gáfu tíma sinn í þetta verkefni– sem eru ótrúlega mörg.“ 

Hvað er UNICEF-Hreyfingin?  

Hreyfingin er fræðslu- og fjáröflunarverkefni UNICEF á Íslandi fyrir grunnskólabörn hér á landi. Markmið þess er að fræða börn um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og virkja þau til samstöðu með jafnöldrum sínum víða um heim. Börnin fá vandaða fræðslu um réttindi sín, störf UNICEF í þágu allra barna og ólíkar aðstæður jafnaldra sinna í öðrum löndum. Þau láta síðan til sín taka með áheitasöfnun sem nær hámarki á sérstökum viðburðadegi sem skólinn skipuleggur. Hugmyndin er að þau átti sig á að öll börn eigi sömu réttindi og að saman geti þau lagt sitt af mörkum til að gera heiminn að betri stað. Nánar um UNICEF-Hreyfinguna hér. 

 Horfðu á myndina og tónlistarmyndbandið: 

Fræðslumyndina „Burtu með fordóma“ má nálgast textaða og táknmálsþýdda í heild sinni á YouTube-síðu UNICEF á Íslandi en þar má einnig finna hina nýju og skemmtilegu endurgerð á laginu „Enga fordóma.“ 

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn