25. nóvember 2021

Nauðstödd börn í Súdan munu njóta góðs af veglegri erfðagjöf

Að skilja eftir gjöf í erfðaskrá er falleg leið til að styðja við málefni sem fólki er annt um. Um nokkurt skeið hefur UNICEF á Íslandi boðið fólki að styrkja okkur með erfðagjöfum en nú í vikunni barst stærsta gjöfin hingað til.

Að skilja eftir gjöf í erfðaskrá er falleg leið til að styðja við málefni sem fólki er annt um. Um nokkurt skeið hefur UNICEF á Íslandi boðið fólki möguleikann á erfðagjöfum til styrktar góðu málefni en nú í vikunni barst stærsta slíka gjöfin til þessa.

Gjöfin kom frá Kolbrúnu Hjartardóttur, kennara og sagnfræðing, sem lést þann 28. febrúar síðastliðinn en hún hafði óskað eftir því að eftir hennar dag yrði hluta af búi hennar ráðstafað til styrktar starfi UNICEF í þágu barna í Súdan. Og nú á dögunum varð þessi fallega ósk Kolbrúnar að veruleika.

Kolbrún fæddist á Ísafirði þann 19. júlí 1935 en flutti ellefu ára gömul til Reykjavíkur ásamt fjölskyldu sinni. Hún útskrifaðist sem stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og lauk sagnfræðinámi frá Háskóla Íslands og námi í kennsluréttindum.
Kennslan varð hennar aðalstarf og kenndi hún í grunnskólum víða um land. Meðal annars í Hrútafirði, Laugagerðisskóla, Hrísey, á Stokkseyri og Hellu– þar sem hún var um tíma skólastjóri. Síðari hluta starfsævinnar kenndi hún við Digranesskóla í Kópavogi. Kolbrún, sem var sjálfstæð alla tíð og eignaðist ekki börn, helgaði líf sitt börnum og starfi í þágu menntunar þeirra. Minnast ættingjar hennar sem góðrar frænku sem ræktaði frændgarð sinn, systkini, mágfólk og afkomendur þeirra af mikilli alúð og umhyggju um hag og velferð sinna nánustu. Átti hún sjö systkini auk tveggja samfeðra hálfsystra. Það er því við hæfi að erfðagjöf Kolbrúnar renni til baráttu UNICEF fyrir hag og velferð bágstaddra barna.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir að um ótrúlega dýrmæta gjöf sé að ræða og að þakklæti sé henni efst í huga.

„Erfðagjafir sem þessar eru svo falleg leið til að breyta heiminum til hins betra fyrir komandi kynslóðir barna og skilja eftir sig arfleið sem endurspeglar í þessu tilfelli svo vel ævistarf Kolbrúnar. Við erum ótrúlega þakklát fyrir þessa dýrmætu gjöf sem mun nýtast börnum í neyð um allan heim svo vel.“

Blessuð sé minning Kolbrúnar Hjartardóttur. (f. 19.7.1935, d. 28.2.2021).

Tilkynning þessi er birt í samráði við aðstandendur Kolbrúnar.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn