11. mars 2024

Framkvæmdastjóri UNICEF: Börn í Súdan á barmi hungursneyðar

Vannæring meðal ungra barna komin langt umfram svörtustu spár

Malaz og tveggja ára gömul dóttir hennar Aida í Kassala í Súdan. Í skimun UNICEF reyndist Aida vera eitt þeirra barna sem voru alvarlega vannærð og fékk nauðsynlega meðhöndlun á heilsugæslu auk næringarfæði. Mynd/UNICEF

„Íbúar Súdan eru nú á barmi hungursneyðar og skelfilegs mannfalls vegna þess hrottalega stríðs sem þar geisar. Þar er nú stærsta fólksflutningakrísa meðal barna í heiminum í dag, alvarleg vannæring meðal ungra barna er komin langt umfram svörtustu spár og þar geisa faraldrar kóleru, mislinga og malaríu.“ Þetta segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu vegna ástands barna í hinu stríðshrjáða Afríkuríki.

Hún segir vísbendingar um mikla aukningu í dauðsföllum barna tengd vannæringu og þá sérstaklega meðal barna á vergangi. Í janúar síðastliðinum greindu Læknar án landamæra frá því að í Zamzam-búðunum í Norður-Darfur væri vannæring og dauðsföll barna yfir neyðarmörkum. Sömuleiðis leiddi skimun UNICEF og samstarfsaðila í Mið-Darfur og Gezira héruðum í febrúar í ljós sláandi hlutfall barna sem glímdu við rýrnun, alvarlegasta form vannæringar. Í febrúar staðfesti heilbrigðisráðuneytið í Vestur-Darfur einnig 14 dauðsföll hjá börnum sökum vannæringar.

Russell segir skelfilegt að staðan sé svona slæm nú, þar sem framundan sé árlegt tímabil milli uppskera þar sem vannæring mun aukast enn.

Óásættanlegar hindranir við mannúðarstarf

„Samfélög eru á barmi hungursneyðar því okkur er meinað aðgengi að börnum og fjölskyldum í neyð. Það er óásættanlegt. Það þarf stóraukið átak í mannúðaraðstoð til að ná til þess stóra hóps sem þarf lífsnauðsynlega á aðstoð að halda. Og til þess að það sé mögulegt þurfa stríðandi fylkingar að tryggja viðvarandi, öruggt og óhindrað aðgengi mannúðarstofnana þegar í stað. Bæði um víglínur innan Súdan sem og þvert á landamæri nágrannaríkja Súdan,“ segir Russell.

Hún segir alþjóðsamfélagið verða að bregðast við með stórauknum fjárstuðningi við mannúðaraðstoð fyrir lok mars svo stofnanir geti útvegað hjálpargögn og tryggt mannafla á vettvangi til að koma í veg fyrir algjörar hörmungar. Sé aðeins litið til UNICEF þá sé ljóst að fjárþörf vegna hungursneyðarviðbragði nemur 240 milljónum dala.

„Börnin hafa ekki tíma til að bíða meðan heimsbyggðin veltir fyrir sér hvort hungursneyð sé hafin í Súdan eða ekki. Þau þurfa hjálp NÚNA.“


Gerast Heimsforeldri UNICEF.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn