17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum

Ritrýnd rannsóknargrein byggð á rýnihópaviðtölum við nemendur fjögurra grunnskóla á Norðurlandi sýnir jákvæð áhrif Réttindaskóla og -frístundar UNICEF

Börn í Réttindaskóla og -frístund UNICEF. /Mynd úr safni

Töluverður munur er á útskýringum nemenda á Barnasáttmálanum og réttindum eftir því hvort þau eru í Réttindaskóla UNICEF eða ekki. Þeir fá meiri fræðslu um málefnið sem skilar sér í betri orðaforða til að útskýra hugtök tengd mannrétttindum og réttindum barna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ritrýndri grein Elínar Helgu Björnsdóttur, Eyrúnar Maríu Rúnarsdóttur og Guðrúnar Kristinsdóttur sem ber yfirskriftina „Táknræn eða raunveruleg þátttaka grunnskólabarna: Sýn barna á réttindi og lýðræðislega þátttöku í skóla.“

Greinin byggir á meistararitgerð Elínar Helgu og fól rannsókn greinarhöfunda í sér rýnihópaviðtöl við 43 börn úr 4. og 8. bekk fjögurra grunnskóla, þar af eins réttindaskóla, á Akureyri og Eyjafjarðarsveit. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á reynslu og þekkingu barna á lýðræðislegri þátttöku og hvaða sýn þau hafa á ávinning af fræðslu í skóla um Barnasáttmálann.

Þekking og skilningur almennt góður

Helstu niðurstöður sýndu að þátttakendur virtust kunna skil á innihaldi þeirra réttinda sem Barnasáttmálinn veitir og er skilningur þeirra almennt góður. Þess ber að geta að Akureyri hefur auðvitað hlotið viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag sem innleitt hefur Barnasáttmálann í sína stjórnsýslu sem skilar sér í jákvæðum niðurstöðum varðandi þekkingu barnanna á réttindum sínum. Sú þekking og geta barna til að koma í orð og útskýra hugtök tengd mannréttindum og réttindum barna dýpkaði þó tölvuvert innan Réttindaskóla.   

Jákvæð áhrif innan Réttindaskóla

Þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður annarra viðhorfskannana sem vísað er til í greininni og lagðar hafa verið fyrir í Bretlandi ásamt 26 öðrum löndum, fyrir og eftir innleiðingu Réttindaskólaverkefnisins. Sem gefur til kynna að þekking barna á mannréttindum og alþjóðlegum málefnum eftir innleiðingu hafi aukist. Einnig að verkefnið hafi haft jákvæð áhrif á skólastarfið í heild sinni og ber þar sérstaklega að nefna aukinn stuðning og virðingu gagnvart minnihlutahópum, fjölbreytileika og fjölmenningu. Að auki sýna rannsóknir að innleiðing verkefnisins dregur úr einelti, stríðni og ofbeldisfullri hegðun.

Greinarhöfundar segja að þrátt fyrir góða viðleitni í skólastarfi til að auka þátttöku nemenda í ákvörðunum virðist hún í sumum tilfellum einungis fela í sér táknræna þátttöku þeirra.

„Álykta má að fræðsla sé forsenda þess að innleiðing Barnasáttmálans njóti velgengni og er von okkar að þessi rannsókn stuðli að jákvæðara viðhorfi til skoðana og þátttöku barna,“ segir í greininni.

Lesa má greinina í heild sinni hér.

Kynntu þér Réttindaskóla og -frístund UNICEF hér.

Nánar um Barnvæn sveitarfélög

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn