28. ágúst 2023

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna: Börn í forgrunni allra loftslagsaðgerða

Fyrstu opinberu leiðbeiningarnar til aðildarríkja, með vísan í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, um að þau verði að tryggja börnum hreint, heilbrigt og sjálfbært umhverfi með áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum.

Börn í Badghis í Afganistan sækja sér hreint vatn. Mynd/UNICEF

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur í fyrsta sinn gefið út opinberar leiðbeiningar til aðildarríkja, með vísan í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, um að þau verði að tryggja börnum hreint, heilbrigt og sjálfbært umhverfi með áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum.

Tilmælin eru sem gefin voru út í dag eru ítarleg útlistun og staðfesting á skyldum aðildarríkja gagnvart Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hvað varðar loftslagsmál og hamfarahlýnun.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var gefinn út árið 1989 og er útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims en 196 ríki fullgiltu hann. Hér á Íslandi var það gert þann 27. nóvember 1992 og hann síðar lögfestur 20. febrúar árið 2013.

Nýju leiðbeiningarnar bera yfirskriftina „Almenn athugasemd 26 um réttindi barna og umhverfið með sérstaka áherslu á loftslagsbreytingar“ tekur sérstaklega fyrir loftslagsvánna, hrun líffræðilegs fjölbreytileika, mengun og útlistar gagnaðgerðum til að vernda börn, líf þeirra og sjónarmið.

Philip Jaffé, nefndarmaður í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, segir:

„Börn um allan heim hafa leitt baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Skorað á stjórnvöld og fyrirtæki að grípa til aðgerða til að vernda Jörðina og framtíð þeirra. Með Athugasemd 26 er nefndin ekki aðeins að taka undir og lyfta sjónarmiðum barna, heldur líka að skilgreina réttindi barna í tengslum við umhverfismál sem aðildarríki verða að virða, vernda og uppfylla. Í heild og þegar í stað.“

Almenn athugasemd 26 tiltekur að aðildarríki beri ekki aðeins skylda til að vernda börn gegn yfirvofandi skaða heldur einnig gegn fyrirsjáanlegum brotum gegn réttindum þeirra í framtíðinni, ýmist vegna aðgerða eða aðgerðaleysis viðkomandi ríkja.

Enn fremur er undirstrikað að hægt sé að gera ríki ábyrg fyrir umhverfisspjöllum, ekki aðeins innan þeirra landamæra, heldur einnig fyrir aðkomu að skaðlegum umhverfisáhrifum og loftslagsbreytingum utan þeirra.

Öll þau 196 ríki sem fullgilt hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eru hvött til að grípa til tafarlausra aðgerða til að hætta að nota kol, olíu og gas í þrepum og færa sig að endurnýjanlegri orkugjöfum, bæta loftgæði og tryggja aðgengi að hreinu vatni, ráðast í gagngerar breytingar á landbúnaðar- og sjávarútveg til að framleiða hollar og sjálfbærar afurðir og verja líffræðilegan fjölbreytileika vistkerfa.

Í hinum opinberu leiðbeiningum er talað um að börn skuli hafa rödd og sjónarmið þeirra í forgrunni ákvarðana í umhverfismálum. Einnig er lögð áhersla á að fræða börn um umhverfið og undirbúa þau til að grípa til aðgerða, gerast talsmenn fyrir umhverfið og verjast skaðlegum umhverfisáhrifum.

Athugasemd 26 er afrakstur alþjóðlegrar vinnu, þvert á kynslóðir, með víðtæku samráði allra aðildarríkja, alþjóðlegra og svæðisbundinna stofnana og hagsmunaaðila. Og að sjálfsögðu börnum og ungmennum.

Joshua Hofert, framkvæmdastjóri Terre des Hommes í Þýskalandi segir:

„Börn bera minnstu ábyrgð á loftslagskrísunni en finna mest fyrir afleiðingunum. Á hverju ári deyja 1,7 milljónir barna undir fimm ára aldri vegna umhverfisskaða sem hægt er að koma í veg fyrir. En þrátt fyrir þetta þá eiga börn og ungmenni sjaldan eða aldrei sæti við borðið þegar kemur að því að taka ákvarðanir eða móta umhverfisstefnu. Með Almennri athugasemd 26 höfum við reynt að breyta þessu. Með 16 þúsund athugasemdum og hugmyndum frá börnum í 121 ríki er greinargerðin einstök því aldrei fyrr hafa börn haft jafn mikla og jafna aðkomu að nokkru ferli innan Sameinuðu þjóðanna. Við hjá Terre des Hommes eru afar stolt af því að hafa skipulagt þetta ferli með Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna.“

Líkt og fram kemur í máli Hofert leiddu barnahjálparsamtökin Terre des Hommes samstarfið við vinnslu athugasemdarinnar. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, lagði sömuleiðis til tæknilega sérfræðiþekkingu í ráðgjafarferlinu og aðstoðaði við að safna saman skoðunum barna víðs vegar að úr heiminum.

Almenn athugasemd 26 aðstoðar við að túlka skuldbindingu aðildarríkja samkvæmt Parísarsamkomulaginu til að virða, lyfta og taka tillit til réttinda barna þegar grípa á til aðgerða gegn hamfarahlýnun. Hún skýrir einnig að meta þarf sérstaklega áhrif allrar umhverfislöggjafar, -stefnu, -verkefna og -ákvarðana á réttindi barna. Aðildarríki munu loks reglulega þurfa að skila skýrslu til Barnaréttarnefndarinnar um stöðu og framgang sinn varðandi það að verja réttindi barna í umhverfismálum.

Paloma Escudero, sérstakur ráðgjafi UNICEF í réttindum barna og loftslagsaðgerðum, segir:

„Þegar kemur að fjármögnun loftslagsverkefna og stefnumótun í umhverfismálum eru þarfir barna enn vanræktar. Þessu verður að breyta. Þessi greinargerð er tafarlaust ákall til ríkja um forgangsraða aðgerðum sínum í þágu barna sem verða fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Svo sem réttindum barna til menntunar, hreins vatns og heilbrigðs umhverfis. Loftslagskrísan er barnaréttindakrísa. Allar ríkisstjórnir hafa skyldum að gegna gagnvart öllum börnum, í öllum heimshlutum, sérstaklega í ríkjum sem minnst hafa lagt til vandans í heild en uppskera verstu afleiðingarnar í formi flóða, þurrka, storma og hitabylgja.“

Almenna athugasemd 26 má nálgast í heild sinni hér.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn