23. ágúst 2022

Börn á Afríkuhorni á heljarþröm vegna þurrka

Fólki sem ekki hefur tryggt aðgengi að hreinu vatni í Eþíópíu, Kenía og Sómalíu hefur fjölgað úr 9,5 milljónum í 16,2 milljónir á fimm mánuðum. Verð á vatni víða hækkað gríðarlega.

Ungur drengur í Dollow í Sómalíu reynir að nýta það litla vatn sem eftir er í þessari uppþornuðu á.

Börnum á Afríkuhorninu og í Sahel bíður dauðinn einn vegna alvarlegrar vannæringar og vatnsborinna sjúkdóma ef ekkert er að gert. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, varar við þessu í dag í tilefni að Viku Vatnsins sem nú stendur yfir.  

 

„Sagan sýnir að þegar við glímum við hátt hlutfall alvarlegrar bráðavannæringar ofan á banvæna faraldra á borð við kóleru og niðurgangspestir þá eykst dánartíðni barna verulega. Þegar hreint vatn er ekki til staðar eða óöruggt aukast ógnir sem steðja að börnum margfalt,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF. „Um allt Afríkuhorn og Sahel eru milljónir barna aðeins einum sjúkdómi frá stórslysi.“  

Frá því í febrúar síðastliðnum til júlí hefur fjöldi fólks án öruggs aðgengis að hreinu vatni aukist verulega, úr 9,5 milljónum í 16,2 milljónir á þurrkasvæðum Eþíópíu, Kenía og Sómalíu.  

Í Búrkína Fasó, Tjad, Malí, Níger og Nígeríu auka þurrkar, átök og ótryggt ástand mjög á vatnsöryggi þessara ríkja. Og líf og velferð 40 milljóna barna eru undir. Hvergi deyja fleiri börn vegna mengaðs vatns og skorts á hreinlætisaðstöðu en í Sahel, samkvæmt nýjustu tölum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).  

Gríðarlegar verðhækkanir á vatni

Flestir íbúar Afríkuhornsins reiða sig á vatnssendingar en á svæðunum þar sem staðan er verst hafa fjölskyldur ekki lengur efni á vatninu.  

  • Í Kenía hefur verð á vatni hækkað verulega í 23 héruðum. Mest í Mandera 400% og Garissa um 206% samanborið við janúar 2021. 
  • Í Eþíópíu hefur verð á vatni tvöfaldast í Oromia í júní og hækkað um 50% í Sómalí samanborið við upphaf hamfaraþurrkanna í október 2021. 
  • Í Sómalíu hefur meðalverð á vatni hækkað um 85% í Suður-Mudug og 55-75% í Buurhakaba og Ceel Berde, samanborið við meðalverð í janúar 2022. 
Drengur í Garissa-sýslu Kenía fær sér vatnssopa við vatnsstöð í þorpinu Daley. UNICEF styður við stjórnvöld til að bregðast við hamfaraþurrkum.

Í Sómalíu hefur geisað faraldur niðurgangs og kóleru á öllum þurrkasvæðunum, en vannærð börn eru ellefu sinnum líklegri til að deyja vegna vatnsborinna sjúkdóma en vel nærð börn. 8.200 tilfelli frá janúar til júní er tvöfalt fleiri tilfelli en á sama tímabili í fyrra.  Tveir þriðju hlutar þessara tilfella eru börn undir fimm ára. 

Frá júní í fyrra til júní í ár hafa UNICEF og samstarfsaðilar meðhöndlað 1,2 milljónir tilfella af niðurgangi hjá börnum undir fimm ára aldri á verstu þurrkasvæðum Eþíópíu, Afar, Sómalíu og Oromia. UNICEF er á vettvangi á öllum þessum hamfarasvæðum að veita lífsbjargandi aðstoð. 

UNICEF biðlar til þjóðarleiðtoga, almennings og alþjóðasamfélagsins til að tryggja fjármagn svo hægt sé að mæta þeirri mannúðarkrísu sem nú geisar sem og að tryggja langtímauppbyggingu til að rjúfa vítahring neyðar í þessum heimshluta.   

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi

UNICEF á Íslandi hefur undanfarið staðið fyrir neyðarsöfnun vegna vannæringar og hamfaraþurrka á svæðinu sem ógna lífi milljóna barna. Þú getur lagt þitt af mörkum.  
 
Sendu SMS-ið NEYD í númerið 1900 til að styrkja söfnunina um 1.900 kr.  
Hægt er að leggja frjáls framlög inn á reikning 701-26-102015 kt. 481203-2950 

Frekari styrktarleiðir og upplýsingar má finna hér á vefsíðu UNICEF á Íslandi.  

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn