20. febrúar 2024

Borgarstjóri afhenti styrk frá Reykjavíkurborg fyrir börn á Gaza  

Tillaga um að styrkja neyðarsöfnun um 150 krónur fyrir hvert barn í Reykjavík samþykkt einróma í borgarráði 

Birna Þórarinsdóttir og Einar Þorsteinsson. Mynd: UNICEF/Gerður

Þau ánægjulegu tíðindi bárust UNICEF á Íslandi í síðustu viku að borgarráð Reykjavíkur hefði samþykkt einróma tillögu um að styðja neyðarsöfnun okkar fyrir börn á Gaza um 150 krónur fyrir hvert barn í borginni eða alls 4,5 milljónir króna. Af því tilefni heimsótti Einar Þorsteinsson borgarstjóri skrifstofur okkar í dag og afhenti Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, styrkinn.  

Tillagan var lögð fram af Líf Magneudóttur, áheyrnarfulltrúa Vinstri Grænna, og á fundi sínum í síðustu viku samþykkti borgarráð tillöguna með þeirri breytingu að hækka framlagið úr 100 krónum fyrir hvert barn í Reykjavík í 150 krónur. Framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi hrósar borgaryfirvöldum fyrir framtakið og segir það sýna þann mikla samhug sem finna má í samfélaginu með þjáningum barna á Gaza.   

„Þetta framtak er til fyrirmyndar og kemur á ögurstundu þar sem hvergi í heiminum er hættulegra að vera barn í dag en á Gaza. Hvert einasta barn á Gaza þarf neyðaraðstoð í dag og því er bæði fallegt og táknrænt að hvert barn í Reykjavík hjálpi með þessum hætti börnunum á Gaza, “ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. 

Ástandið á Gaza versnar dag frá degi og enginn staður er öruggur. Eftir fjóra mánuði af látlausum árásum hafa um 28 þúsund manns verið drepin, meirihlutinn konur og börn, og um ein milljón barna verið þvinguð á flótta. Nú vofir yfir ógnin um auknar árásir á borgina Rafah þar sem íbúafjöldi hefur hátt í fimmfaldast á nokkrum vikum. Þúsundir til viðbótar gætu dáið í slíkum árásum eða vegna mikils skorts á nauðsynlegri þjónustu, mat, hreinu vatni og takmörkunum á mannúðaraðstoð.  

Börn eru um það bil helmingur íbúa Gaza og það eru þau sem stríðið bitnar verst á. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur ítrekað kallað eftir tafarlausu vopnahléi og vernd barna.  

 UNICEF á Íslandi hefur staðið fyrir neyðarsöfnun fyrir börn á Gaza síðustu mánuði.  

Hægt er að styrkja söfnunina hér

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn