01. nóvember 2024

Bólusetningar í Norður-Gaza halda áfram á morgun

Mannúðarhlé tryggt en svæðið sem bólusetningar fara fram á hefur verið minnkað umtalsvert frá fyrstu umferð – Sameiginleg yfirlýsing UNICEF og WHO

Ung stúlka á Gaza fær bóluefni gegn mænusótt. Mynd: UNICEF/UNI668431/El Baba

Í sameiginlegri yfirlýsingu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir að þriðji áfangi bólusetningarherferðar stofnananna gegn mænusótt í norðurhluta Gaza muni hefjast á morgun. Þetta er sá áfangi sem þurfti að fresta þann 23. október síðastliðinn vegna loftárása, skorts á aðgengi og mannúðarhléi sem og fyrirskipunum um umfangsmikla fólksflutninga sem gerðu bólusetningu barna ómögulega þá.

„Trygging fyrir mannúðarhléi liggur fyrir svo hægt sé að ráðast í bólusetningar, en á móti kemur að svæðið sem bólusetningar fara fram á hefur verið minnkað umtalsvert frá því sem var í fyrstu umferð í norðurhlutanum í september síðastliðnum. Svæðið nú er bundið við borgarmörk Gaza-borgar. Þó síðustu vikur hafi hundrað þúsund manns verið gert að rýma Norður-Gaza og halda til Gaza-borgar af öryggisástæðum eru um 15 þúsund börn undir tíu ára aldri í bæjum eins og Jabalia, Beit Lahiya og Beit Hanoun í norðri sem enn eru óaðgengilegir og munu því missa af bólusetningum –sem aftur mun draga úr árangri herferðarinnar. Til að koma í veg fyrir smit mænusóttar þurfa að minnsta kosti 90 prósent allra barna í samfélagi og nágrenni að vera bólusett. Þessu viðmiði verður erfitt að ná við núverandi aðstæður,“ segir í sameiginlegri tilkynningu UNICEF og WHO.

Þar segir enn fremur að í þessari lokaumferð hafi verið stefnt á að ná til 119 þúsund barna undir tíu ára aldri í norðurhluta Gaza og gefa þeim seinni skammtinn af mænusóttarbóluefni en vara stofnanirnar við því að ólíklegt sé að það markmið náist við núverandi takmarkanir.

Og þrátt fyrir þessar takmarkanir hafi það verið mat þeirra stofnana sem að verkefninu koma, sem eru auk UNICEF og WHO heilbrigðisráðuneyti Gaza og UNRWA auk annarra samstarfsaðila, að halda áfram með lokaumferð herferðarinnar. Er það gert til að reyna allt til að lágmarka áhættu með því að á til eins margra barna og mögulegt er. Aðgerðin og framkvæmdin verði öll skipulögð með það fyrir augum, sem og að ná til allra innan þess svæðis sem úthlutað hefur verið. 216 teymi á 106 staðsetningum munu framkvæma bólusetningarnar auk þess sem fjölmennt teymi mun fara um til að tryggja sýnileika og láta vita af bólusetningunum. 

Tímarammi mannúðarhlésins hefur verið lengdur um tvær klukkustundir og er áætlað að það standi frá 06:00 til 16:00 hvern dag.

Bólusetningarherferðin nú kemur í kjölfarið á vel heppnuðum tveimur umferðum í mið- og suðurhluta Gaza þar sem náðist að bólusetja ríflega 450 þúsund börn eða 96% af markmiðinu þar.

„Þrátt fyrir áskoranir þá ítreka WHO og UNICEF mikilvægi þess að mannúðarhléið verði virt svo hægt sé að tryggja örugga og árangursríka afhendingu seinni skammta af bóluefninu. Þetta er algjörlega nauðsynlegt til að koma í veg fyrir útbreiðslu mænusóttar á Gaza og í nágrannaríkjum,“ segir að lokum.


Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn