14. nóvember 2023

BM Vallá styrkir vetraraðstoð UNICEF í Afganistan

Framlagið er hluti af styrktarsamningi BM Vallár og UNICEF á Íslandi og liður í samfélagssjóðnum Hjálparhella BM Vallár.

Ungur drengur í Afganistan fær hlýjan vetrarfatnað. Mynd/UNICEF

BM Vallá mun styrkja mikilvæga vetraraðstoð UNICEF í Afganistan í ár. Framlagið er hluti af styrktarsamningi BM Vallár og UNICEF á Íslandi og liður í samfélagssjóðnum Hjálparhella BM Vallár.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna er leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum og markmið umfangsmikillar vetraraðstoðar stofnunarinnar nú að veita 111 þúsund fjölskyldum í Afganistan lífsnauðsynlega mannúðaraðstoð í komandi vetrarhörkum þar sem hitastig getur farið niður í -33 gráður.  

Allir geta verið hjálparhellur

Hjálparhella BM Vallá er samfélagssjóður sem hefur það markmið að styðja við fjölbreytt samfélagsverkefni, stór sem smá til lengri og skemmri tíma. Styrktarsamningur BM Vallár og UNICEF á Íslandi er hluti af langtímaverkefnum sjóðsins en á síðasta ári var undirritaður styrktarsamningur til þriggja ára. Viðskiptavinir BM Vallár gegna mikilvægu hlutverki í þessum verkefnum fyrirtækisins þar sem ákveðið hlutfall af ársveltu fyrirtækisins fer í sjóðinn og geta þannig allir verið hjálparhellur.   

Harður vetur framundan en UNICEF er á vettvangi

Vetraraðstoð UNICEF í Afganistan mun fela í sér að tryggja að fjölskyldur hafi aðgengi að nauðsynlegum vistum og grunnþjónustu til að sinna velferð barna. Þetta felur í sér næringarríka fæðu, hreint vatn, hreinlætisvörur, föt, skóla- og sjúkragögn og hita. Heilsugæslustöðvar verða studdar sérstaklega yfir veturinn og loks verður fjölskyldum sem á þurfa að halda veittur tímabundinn framfærslustyrkur til að vega upp á móti áhrifum efnahagskreppu og skulda heimilanna sem og hættunni á að börn verði send út á vinnumarkaðinn, neydd í hjónaband eða þau flosni upp úr námi. Þá er ljóst að í kjölfar nýlegra náttúruhamfara í Afganistan megi gera ráð fyrir að neyð almennings á hamfarasvæðum verði enn meiri. Veturinn verður því miður harður fyrir mörg börn í Afganistan og því ljóst að fjármagn til verkefna þar í landi mun kom sér vel í þessum umfangsmiklu vetraraðgerðum.  

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM Vallár: 

„Því miður hefur sjaldan verið meiri þörf fyrir neyðaraðstoð til barna í heiminum og því teljum við afar mikilvægt að styðja við mannúðarverkefni UNICEF. Starfsemi UNICEF í Afganistan nær aftur til 65 ára og mun framfærslustyrkur til barnafjölskyldna landsins skipta þar miklu máli og lífsafkomu þeirra yfir vetrarhörkurnar sem framundan eru. Við hjá BM Vallá leggjum áherslu á samfélagsábyrgð og með samfélagssjóðnum Hjálparhella getum við sýnt þann stuðning í verki með því að leggja fjárstyrki í ákveðin góðgerðar- og samfélagsverkefni. Það er afar ánægjulegt að sjá árangur samstarfsins með UNICEF og hvað það hefur mikil áhrif en á síðustu tveimur árum hefur fjárstyrkurinn staðið straum af kostnaði við bóluefnadreifingu í efnaminni löndum, svokallað Covax samstarf, og fjármögnun á 113.000 pokum af jarðhnetumauki til vannærðra barna í Afríku.“

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi

„Það er því miður þannig að staða mannúðarmála er óvíða verri en í Afganistan og margar barnafjölskyldur horfa fram á erfiðan, jafnvel lífshættulegan vetur. Þrautseigja og seigla íbúa Afganistan er þó aðdáunarverð og það skiptir máli að UNICEF sé til staðar til að mæta þörfum þeirra og styðja til bættrar lífsafkomu og reisnar – og búa til tækifæri fyrir börn til að njóta réttinda sinna þrátt fyrir allar áskoranirnar. Við gætum ekki haldið úti mikilvægu starfi okkar í Afganistan ef ekki væri fyrir bakhjarla eins og BM Vallá, sem eru tilbúin til að styðja við lífsbjargandi verkefni UNICEF sem falla utan við kastljós fjölmiðla. Slíkur stuðningur er ómetanlegur í starfi okkar.“

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn