27. júní 2024

BM Vallá styrkir neyðarsöfnun UNICEF fyrir börn á Gaza

Framlagið hluti af styrktarsamningi BM Vallár og UNICEF á Íslandi og liður í samfélagssjóðnum Hjálparhella BM Vallár. 

Birna Þórarinsdóttir og Þorsteinn Víglundsson á fundi þeirra í vikunni.

BM Vallá mun styrkja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn á Gaza en framlagið er hluti af styrktarsamningi BM Vallár og UNICEF á Íslandi og liður í samfélagssjóði fyrirtækisins. 

Stuðningur sem skiptir máli við erfiðar aðstæður

Vart þarf að fjölyrða um þær hörmungar sem börn á Gaza hafa mátt þola undanfarna mánuði og ljóst að þörf verður á umfangsmikilli mannúðaraðstoð fyrir þau og fjölskyldur þeirra um ókomna tíð. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur verið til staðar á vettvangi frá upphafi núverandi hörmunga við erfiðar aðstæður að vinna að því að koma neyðargögnum til barna og veita nauðsynlega mannúðaraðstoð. UNICEF gerir allt sem hægt er til að veita þessa mikilvægu aðstoð og er ávallt í viðbúnaðarstöðu að koma hjálpargögnum yfir landamærin þegar færi gefst, því börn á Gaza þola enga bið. Þess vegna er allur stuðningur við neyðarsöfnun UNICEF í þeirra þágu svo mikilvægur. Til að tryggja að hægt sé að veita þessa aðstoð og stökkva til þegar friður og vopnahlé kemst á.   

Öll getum við verið hjálparhellur

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM Vallár, ræddu á fundi sínum á dögunum mikilvægi þessa framlags fyrirtækisins í neyðarsöfnunina fyrir börn á Gaza. En BM Vallá hefur undanfarin ár verið traustur samstarfsaðili UNICEF á Íslandi og styrkt margvísleg verkefni UNICEF um allan heim. Má þar meðal annars nefna framlag til styrktar vetraraðstoð UNICEF í Afganistan, næringarverkefna UNICEF í Afríku og stuðning við bóluefnadreifingu til efnaminni ríkja í Covax-samstarfinu svokallaða.

Þessi stuðningur BM Vallár er mögulegur þökk sé samfélagssjóð fyrirtækisins, Hjálparhellunni, sem hefur það markmið að styðja við fjölbreytt samfélagsverkefni, stór sem smá. Þriggja ára styrktarsamningur BM Vallár og UNICEF á Íslandi er hluti af langtímaverkefnum sjóðsins en viðskiptavinir fyrirtækisins gegna mikilvægu hlutverki þar, því ákveðið hlutfall af ársveltu fyrirtækisins rennur í sjóðinn. Þannig geta allir verið hjálparhellur og lagt sitt af mörkum.

 Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM Vallár:

„Undangengin fjögur ár höfum við tekið þátt í mörgum brýnum verkefnum með UNICEF. Það er ánægjulegt að sjá allt það góða starf sem samtökin vinna víðs vegar um heiminn og gott að geta orðið þar að liði. Það er skýr sýn okkar að láta málefni samfélagsábyrgðar varða og með tilstuðlan okkar góðu viðskiptavina getum við veitt fjárstuðning til slíkra verka í gegnum Hjálparhellu, samfélagssjóð BM Vallár. Sú gífurlega neyð sem blasir við börnum og fjölskyldum þeirra á Gaza er vægast sagt sláandi og varla hægt að koma orðum að. Þess vegna skiptir öll aðstoð máli. Stuðningur okkar við UNICEF er hluti af skuldbindingu okkar um að vera hjálparhellur fyrir þau sem þurfa á að halda. Við vonum að framlag okkar muni hjálpa til við að draga úr neyð barna og fjölskyldna þeirra á Gaza.“

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi:

„Þegar hörmungarástand hefur varað í lengri tíma er alltaf hætt við að athygli heimsbyggðarinnar dvíni og beinist annað. Talsmaður UNICEF sagðist á dögunum óttast að Gaza gleymist þjóðum heims og að þetta skelfingarástand barna og íbúa fari nánast að þykja eðlilegt. En það er ekkert eðlilegt við það sem börn á Gaza eru að upplifa og því má aldrei gleyma. UNICEF mun aldrei gefast upp í að tryggja þessum börnum nauðsynlega mannúðaraðstoð, velferð og réttindi. Það er gott að vita að börnin á Gaza eigi bakhjarla eins og BM Vallá sem er tilbúinn að styðja við verkefni UNICEF í þeirra þágu. Fyrir það og þeirra góða fordæmi erum við þakklát.“

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn