19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 

Samningurinn hluti af samfélagssjóðnum Hjálparhella BM Vallá – Sérstök áhersla verður á verkefni UNICEF á Gaza. 

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Anna Bára Teitsdóttir, forstöðumaður markaðsmála hjá BM Vallá, fyrir utan skrifstofu UNICEF á Íslandi að Strandgötu 75 í Hafnarfirði. Þar hefur sérstakri „Hjálparhellu“ verið komið fyrir í stéttinni við innganginn. Mynd/Guðný Sif

BM Vallá og UNICEF á Íslandi hafa skrifað undir styrktarsamning til næstu þriggja ára þar sem sérstök áhersla verður á verkefni UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í þágu barna á Gaza.  

Samningurinn, er hluti af samfélagssjóð fyrirtækisins, Hjálparhella BM Vallá – sem styður við margvísleg samfélagsverkefni á hverju ári. 

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum og verkefnin sjaldan eða aldrei verið stærri en um þessar mundir. Síðastliðna fjórtán mánuði hafa börn á Gaza mátt upplifa nær fordæmalausa neyð þar sem hundruð þúsunda barna hafa neyðst til að flýja heimili sín og enginn staður er öruggur fyrir börn. UNCEF hefur gefið út að nær öll börn á Gaza, 1,1 milljón talsins, þurfi nú á vernd, stuðningi og mannúðaraðstoð að halda.  

Viðskiptavinir leggja sitt af mörkum 

BM Vallá hefur undanfarin ár stutt við margvísleg alþjóðleg verkefni UNICEF í krafti styrktarsamninga við UNICEF á Íslandi en það væri ekki hægt án þeirra fjölmörgu viðskiptavina BM Vallá sem með viðskiptum sínum leggja sitt af mörkum til þessara góðu málefna, þar sem hlutfall af heildarveltu fyrirtækisins rennur í samfélagssjóð BM Vallá 

Anna Bára Teitsdóttir, forstöðumaður markaðsmála hjá BM Vallá: 

„Við hjá BM Vallá erum stolt af því að geta lagt okkar af mörkum til þess að styðja börn í neyð í gegnum samstarf við UNICEF á Íslandi. Samfélagssjóðurinn okkar, Hjálparhella BM Vallár, endurspeglar áherslur okkar í samfélagsábyrgð um að fyrirtæki geti gegnt mikilvægu hlutverki í að bæta lífsskilyrði þeirra sem minna mega sín. Að þessu sinni beinist stuðningur okkar að börnum á Gaza, sem þurfa á vernd, stuðningi og mannúðaraðstoð að halda í þeim skelfilegu aðstæðum sem þau búa við. Það er okkur bæði skylda en jafnframt heiður að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni með UNICEF. Tilurð samfélagssjóðsins væri ekki mögulegur nema væri fyrir stuðnings okkar tryggu viðskiptavina.“ 

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi: 

„Við erum þakklát fyrir það traust og þann stuðning BM Vallá sýnir UNICEF með þessari skuldbindingu. Fyrirtækið hefur sýnt það, ár eftir ár, að þau vilja gefa af sér þar sem þörfin er mest. Þriggja ára samstarf skiptir miklu máli á óvissutímum líkt og framundan eru hjá börnum á Gaza. Eins og öll börn sem búa við hrylling stríðs þurfa þau stuðning og vernd, en fyrst og fremst frið. Meðan árásir standa yfir þurfa þau neyðaraðstoð en við höldum ávallt í vonina um varanlegan frið og þá hefst áskorun uppbyggingar. Fyrirsjáanlegur stuðningur sem þessi við brýn verkefni til nánustu framtíðar er því dýrmætur.“  

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn