Að minnsta kosti 74 börn hafa verið drepin í linnulausum árásum á Gaza-ströndinni fyrstu viku ársins 2025. Fram kemur í tilkynningu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, að fjölmörg börn hafi látist í mannskæðum árásum á Gaza-borg, Khan Younis og Al Mawasi sem skilgreint hafði verið einhliða sem „öruggt svæði.“ Í nýjustu árásinni í gær létust fimm börn í Al Mawasi.
„Upphaf nýs árs hefur fært börnum Gaza meiri dauða og meiri þjáningar vegna árása, skorts og kulda,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF í tilkynningu. „Vopnahlé er löngu tímabært. Of mörg börn hafa látið lífið eða misst fjölskyldumeðlimi eða ástvini og þessi byrjun á árinu lofar ekki góðu.“
Skortur á skjóli í bland við vetrarkulda heldur áfram að ógna lífi barna. Rúmlega milljón barna búa í tjaldi og fyrir fólk á flótta síðastliðna 15 mánuði eru ógnirnar margar. Frá 26. desember hafa átta nýburar látið lífið vegna ofkælingar. Þau fáu starfhæfu sjúkrahús sem eftir eru ráða ekki við álagið, eyðilegging innviða verður til þess að fjölskyldur geta ekki orðið sér úti um nauðsynjar á borð við vatn, mat, hreinlætisaðstöðu og heilbrigðisþjónustu. Kamal Adwan-sjúkrahúsið, sem hafði verið eina starfhæfa heilbrigðisstofnunin og eina sjúkrahúsið með barnalækningadeild í norðurhluta Gaza, er ekki lengur starfandi eftir áhlaup í síðasta mánuði.
„UNICEF hefur lengi varað við ófullnægjandi skjóli, skort á næringu og heilbrigðisþjónustu og alvarlegu ástandi vatns- og hreinlætisþjónustu og nú í ofanálag ógnar vetrartíðin lífi barna á Gaza. Stríðandi fylkingar og alþjóðasamfélagið verður að grípa til tafarlausra aðgerða til að binda enda á ofbeldisverkin, draga úr þjáningu almennra borgara og tryggja að öllum gíslum, sérstaklega börnunum tveimur sem eftir eru, sé sleppt. Þessari ólýsanlegu martröð þjáninga og sorgar verður að linna,“ segir Russell.
UNICEF ítrekar enn á ný ákall sitt um að farið sé að alþjóðlegum mannréttindalögum, þar á meðal að árásum á almenna borgara, mannúðarstarfsfólk, nauðsynlega innviði, þörfum á mannúðaraðstoð verði mætt og fljótt, öruggt og óhindrað aðgengi mannúðaraðstoðar verði tryggt.
UINCEF ítrekar sömuleiðis enn á ný ákall sitt um bættar öryggisaðstæður, þar á meðal fyrir bílalestir sem flytja hjálpargögn svo mannúðarstarfsfólk geti komist með öruggum hætti að þeim samfélögum sem þau hyggjast aðstoða. Örugg afhending hjálpargagna og mannúðaraðstoðar er spurning um líf eða dauða fyrir börn á Gaza.