14. mars 2022

„Hvað ætlið þið að gera til að breyta þessu?“

Sigyn Blöndal, réttindaskólastjóri UNICEF á Íslandi, skrifar um barnaþing 2022

Sigyn Blöndal, réttindaskólastjóri UNICEF á Íslandi, skrifar um barnaþing 2022:

Virðing, jákvæðni og að hafa gaman voru kosin gildi barnaþings 2022 og það má segja að þau hafi verið í hávegum höfð meðal allra sem mættu og tóku þátt í barnaþingi í síðustu viku. Umboðsmaður barna heldur þingið og boðar 120 börn, 11-16 ára sem valin voru með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Mættu þau til leiks og völdu sér þrjá málaflokka til þess að fjalla um á þinginu í ár. Þeir voru; mannréttindi, umhverfismál og menntun og skóli. Börnum var skipt niður á borð þar sem einn málaflokkur var tekinn fyrir. Þjálfaðir borðstjórar sátu með börnunum og aðstoðuðu þau við að koma hugmyndum sínum á blað og þrengja umræðuefni niður í eitt aðaláherslumál. Þau völdu eina spurningu sem þau ræddu við ráðamenn og áhrifafólk í samfélaginu.

Í lok dags var svo komið að ráðherrum að svara spurningum barnanna og hlusta á þeirra áherslumál. Hér eru dæmi um spurningar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra og Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra fengu.





  • Af hverju lærum við dönsku en ekki táknmál?

Af hverju bönnum við ekki plast?



Af hverju borga ekki stór fyrirtæki sem menga mikið hærri skatta en önnur?



Þurfum við virkilega að læra sund í 9 ár? Er það ekki of mikið?



Af hverju lærum við ekki meira um umhverfisvernd í skólanum?



Af hverju fá kennarar ekki þjálfun í að tala um kynsegin og hinsegin mál við nemendur?



Af hverju eru lágmarkslaun svona lág og hvað eruð þið að gera til þess að hækka þau?



Af hverju eru ekki sálfræðingar í öllum skólum?



Er verið að tryggja það að öll börn njóti mannréttinda sinna í skólanum?



Skólakerfið býst við einni týpu af manneskjum. Af hverju fá ekki allir frelsi til að fara hvert sem er í skólanum? Af hverju eru allir fatlaðir; líkamlega og andlega fatlaðir, settir í sama pott í skólum?



Kennarar eiga að bera meiri virðingu fyrir fornöfnum og kynhneigð barna. Hvernig er hægt að fullvissa það að kennarar beri skilning og virðingu fyrir fornöfnum og kynhneigð barna?





---------------------------------------------------------------------------------------------



Börnin fengu svör við spurningum sínum og fengu tækifæri til að spyrja aftur ef þau voru ekki sátt við upphafleg svör ráðherra. Svörin voru skráð niður og mun starfsfólk Umboðsmanns barna koma þeim áleiðis til ráðamanna.









„Við viljum útskýringar og lausnir en ekki bara NEI“

Börn árið 2022 eru sérfræðingar í því að vera börn árið 2022. Við fullorðna fólkið erum ekki grunnskólanemendur árið 2022 og getum lítið sagt um það hvernig það er að vera grunnskólanemandi í dag. Við verðum að hlusta - það eru þeirra réttindi og okkar skylda að við gerum það.





Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna stendur í 12. grein að aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varðar og að réttmætt tillit sé tekið til þeirra. Í 13. grein sáttmálans er tjáningarfrelsi barna ítrekað.



Það er óhætt að segja að þessum tveimur greinum Barnasáttmálans sé haldið hátt á lofti á barnaþingi og útkoman verði eins falleg og hugsast getur. Mannréttindi og lýðræðisleg þátttaka í sinni bestu mynd. Virðing fyrir börnum og virðing fyrir fullorðnum, virðing fyrir mismunandi bakgrunni og sögum, virðing fyrir spurningum og svörum og mismunandi skoðunum. Ég virði mín réttindi og þín réttindi og þú þín og mín.



,,Það er ekkert verra en að upplifa að þú hafir ekki rödd. Til þessa að röddin virki eins og hún á að virka þarf einhver að hlusta.Það er ekkert verra en að upplifa að þú hafir ekki rödd. Til þessa að röddin virki eins og hún á að virka þarf einhver að hlusta.



Ég fékk það dásamlega hlutverk að vera veislustjóri barnaþingsins og deildi með börnunum á þinginu sögu sem ég hafði aldrei sagt neinum nema mínum nánustu vinum og fjölskyldu áður. Þegar ég var 10 ára byrjaði ég í nýjum skóla og til að gera langa sögu stutta var ég lögð í einelti í skólanum. Ég upplifði að það væri enginn innan skólans sem ég gæti talað við, enda hefðu börnin höfðu verið þar lengur en ég, með háværari raddir innan veggja skólans og hver væri svo sem að fara að hlusta á vælið í mér. Ég held að ef ég hefði vitað að ég ætti nákvæmlega sama rétt og allir aðrir í skólanum hefði málið mögulega litið öðruvísi út fyrir mér. Upplifun mín var sú að þau börn sem tala, standa með sér, berjast gegn gerendum væru með vesen og ég vildi ekki vera með vesen. Ég held að það hefðu verið meiri líkur á því að einhver hefði stigið inni í aðstæður og hjálpað mér ef allir í skólanum hefðu verið meðvitaðir um réttindi allra barna - bæði börn og fullorðnir.



Í mörgum Réttindaskólum UNICEF hefur myndast hefð fyrir því að vera með barnaþing innan skólans í kringum Alþjóðadag barna, 20. nóvember ár hvert. Þar fá öll börn skólans að taka þátt og kjósa um málaflokka og einn árgangur fær þjálfun við að stýra umræðum. Kennarar og starfsfólk stíga til hliðar, styðja við en stjórna ekki. Niðurstöður þingsins eru oft tengdar skólanum og nærumhverfi barnanna sem þar stunda nám. Skólalóðin, maturinn, frímínútur, hvað er kennt og hvernig. Niðurstöðurnar eru teknar saman og komið á viðkomandi ráðamann; skólastjóra, deildarstjóra, kokkinn, skóla- og frístundasvið sveitarfélagsins nú eða bæjar/borgarstjóra eða jafnvel forsetann.



Þetta er frábær leið til þess að kenna börnum lýðræðislega þátttöku, kynna þau fyrir Barnasáttmálanum og réttindum þeirra, sem þau eiga skilyrðislaust en þekkja ekki alltaf.



Valdefling fyrir börn





Markviss réttindafræðsla og viðburður eins og barnaþing, sama hvort það er innan skólans eða þjóðfundaform, skiptir gríðarlega miklu máli í samfélaginu okkar. Börnin valdeflast við að taka þátt í svona viðburðum. Þau læra um lýðræði, að hlusta á sig og skoðanir annara, móta hugsanir sínar og koma þeim frá sér. Auk þess sýna rannsóknir á réttindafræðslu í skólum að börn sem fá fræðslu um réttindi sín skilja þau betur og eiga auðveldara með að tengja þau við daglegt líf. Þau skilja betur hvernig þau tengjast og að túlka beri sáttmálann í heild. Þau eru líklegri til að berjast fyrir réttlæti og jafnrétti og líklegri til að þora að grípa til jákvæðra aðgerða til að vernda og styðja réttindi annarra. Þau bera fremur virðingu fyrir hvert öðru og réttindum annarra og eru færari í að setja sér sín eigin mörk. Þá öðlast þau betri félagslega færni og eiga auðveldara með að setja sig í spor annarra. Þannig getur réttindafræðsla verið gagnleg til að koma í veg fyrir og vinna gegn ofbeldi og einelti.

Til samanburðar hefur verið sýnt fram á að börn sem fá ekki réttindafræðslu skilja réttindi sín fremur sem frelsi til að gera það sem þau vilja og átta sig ekki á því að mörg réttindi tengjast og skarast og að réttindi manns geti takmarkast af réttindum annarra.

Við eigum að kenna börnum að nota röddina sína og fylgja eigin sannfæringu. Við eigum að kenna þeim að þau eigi réttindi jafnt og allir aðrir. Þannig búum við til samkennd og virðingu fyrir öllu fólki hvar sem er í heiminum.

Við eigum að hlusta og virða og meta og fræða og útskýra. Það er okkar hlutverk og okkar skylda og það er meira að segja í lögum.

Áskorun til allra skóla











Það var alveg yndisleg upplifun að vera á Barnaþingi og heyra umræður, sjá börnin undirbúa sig, sjá ráðamenn hlusta og ræða málin á jafningjagrundvelli. Það var líka mikið stuð þegar við krýndum Íslandsmeistara í skæri-blað-steinn og lékum okkur með 80 lítra af slími í “stórhættulegu spurningakeppninni”. Það var jú eitt af gildum þingsins að hafa gaman og það er alltaf aðeins meira gaman þegar það er slím.

Ég hlakka til að fylgjast með hvað verður um áherslur og hugmyndir barnanna og hvernig þær munu breyta samfélagi okkar til hins betra, því þær munu gera það.

Svo langar mig að hvetja, jafnvel bara skora á alla skóla til þess að skipuleggja svona viðburð þar sem lýðræði, mannréttindi og raddir barna fá að njóta sín. Barnaþing í öllum skólum landsins 2022! Þið verðið ekki fyrir vonbrigðum - ég lofa.

Meðfylgjandi myndir frá Umboðsmanni Barna.











Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn