29. september 2020

Barnaskýrsla um stöðu mannréttinda á Íslandi tekin fyrir hjá Barnaréttanefnd Sameinuðu þjóðanna í fyrsta sinn

Í dag var UmBi: Barnaskýrsla til Barnaréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem börn á Íslandi hafa unnið um málefni sem á þeim brenna kynnt fyrir Barnaréttanefnd Sameinuðu þjóðanna. Þetta er í fyrsta skipti sem börn á Íslandi senda eigin skýrslu til nefndarinnar og er skýrslan kynnt samhliða skýrslu níu frjálsra félagasamtaka um stöðu mannréttinda barna á Íslandi og hvernig Íslandi gengur að uppfylla Barnasáttmálann.

Í dag var UmBi: Barnaskýrsla til Barnaréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem börn á Íslandi hafa unnið um málefni sem á þeim brenna kynnt fyrir Barnaréttanefnd Sameinuðu þjóðanna. Þetta er í fyrsta skipti sem börn á Íslandi senda eigin skýrslu til nefndarinnar og er skýrslan kynnt samhliða skýrslu níu frjálsra félagasamtaka um stöðu mannréttinda barna á Íslandi og hvernig Íslandi gengur að uppfylla Barnasáttmálann. Samtökin eru UNICEF á Íslandi, Barnaheill, Heimili og skóli, Landssamtökin Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði krossinn á Íslandi, Samfés, UMFÍ og Öryrkjabandalagið. Um viðbótarskýrslu við fimmtu og sjöttu skýrslu Íslands til Barnaréttanefndarinnar er að ræða.

Ritstjórn skýrslunnar leggur áherslu á að raddir allra barna fái að heyrast. „Eitt helsta áhersluefni Barnasáttmálans er að börn hafi aðkomu að ákvörðunum sem varða þau, enda hafa þau innsýn í málefni sín sem jafnvel reyndir sérfræðingar hafa ekki. Það er mikill munur á áherslum barnaskýrslunnar og skýrslu félagasamtakanna og bæði sjónarhornin eru nauðsynleg til að tryggja börnum sterkustu mögulegu réttindi og stöðu,“ segir Einar Hrafn Árnason, sem er einn þriggja ungmenna sem skipar ritstjórn barnaskýrslunnar ásamt Jökli Inga Þorvaldssyni og Sunnevu Björk Birgisdóttur.

Ritstjórn skýrslunnar tók til starfa 2018 og kallaði eftir fulltrúum frá ungmennaráðum um allt land. Í verkefnahópinn bættust þá sex börn yngri en 18 ára sem mynda saman Félag um barnaskýrslu til Barnaréttanefndar Sameinuðu þjóðanna. Auk þess var samráð haft við börn og ungmenni víðsvegar af á landinu og viðtöl tekin við fagfólk. Málefnin sem börnin kusu að taka fyrir eru geðheilbrigðismál, samskipti barna við lögreglu, kynferðislegt ofbeldi og ofbeldi á netinu, staða fatlaðra barna, aðgengi að eiturlyfjum, hinsegin börn og börn með fjölbreyttan menningarlegan og tungumálabakgrunn.

Kynferðisleg áreitni á netinu mikið vandamál

Sérstök áhersla er lögð á kynferðislega misnotkun á netinu og skort á kynfræðslu, en það skein í gegn við vinnslu skýrslunnar að þetta eru málefni sem brenna á börnum og ungmennum. Í myndbandi sem fylgir skýrslunni segir Sólborg Guðbrandsdóttir, sem heldur úti instagramsíðunni Fávitar, að hún fái tugi skilaboða og skjáskota á hverjum einasta degi um kynferðislega áreitni á netinu og segir það vera aðeins lítið brot af því gerist í raun á Íslandi. Börn eru algengasti hópurinn sem sendir henni skilaboð um kynferðislega áreitni á netinu, eða allt niður í 11 ára gömul börn. Fjöldi barna á grunnskólaaldri setur sig í samband við Sólborgu og biðja um ráð.

„Algengast er að þetta séu einhverskonar kynferðisleg skilaboð, kynferðislýsingar, einstaklingar að segja við börnin hvað þeir ætli að gera við þau, óumbeðnar kynfæramyndir, boð um vændiskaup, hótanir um dreifingu nektarmynda og ýmislegt svoleiðis,“ segir Sólborg. Hún segir þetta yfirleitt vera einstaklinga á Íslandi sem koma fram undir nafni. Sólborg og skýrsluhöfundar benda á að lögreglan taki þessi mál á netinu ekki nógu alvarlega og að kerfið grípi börnin ekki eins vel og það ætti að gera.

„Það er alls ekki gert nóg til að taka á þessu. Börnin sem við töluðum við höfðu enga trú á að það væri lausn innan dómskerfisins,“ segir Einar Hrafn, einn ritstjóra skýrslunnar. Í samráðshópunum kom einnig sterkt fram að hvað væri mikil vöntun á kynfræðslu fyrir börn og ungmenni og að leggja þurfi áherslu á þátttöku barna í vinnunni við betrumbæta slíka fræðslu.

Markmið UmBa: Barnaskýrsla til Barnaréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna er að raddir allra barna heyrist og að börn á Íslandi fái tækifæri til þess að nota rödd sína og skoðun til þess að bæta og breyta landinu fyrir börn dagsins í dag, sem og börn framtíðarinnar. Börnin vonast til að þeirra skýrsla og athugasemdir verði tekin alvarlega og að Barnaréttanefndin muni notast við hana sem hluta af reglubundnu eftirliti um innleiðingu Barnasáttmálans á Íslandi.

Myndbandið og skýrsluna má nálgast hér.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn