12. nóvember 2021

Hrollvekjandi fregnir af aukningu barnahjónabanda í Afganistan: Framtíð heillar kynslóðar að veði

„Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þeim fregnum að barnahjónaböndum fjölgi hratt í Afganistan,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

12. nóvember 2021 „Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þeim fregnum að barnahjónaböndum fjölgi hratt í Afganistan,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Í yfirlýsingu frá Fore segir hún að UNICEF hafi upplýsingar um að fjölskyldur í neyð séu að bjóða barnungar stúlkur sínar í skiptum fyrir heimanmund. Stúlkur allt niður í 20 daga gamlar. Skiljanlega hafi hún og UNICEF af þessum verulegar áhyggjur.

„Fyrir nýjustu vendingar í stjórnmálum landsins höfðu UNICEF og samstarfsaðilar skráð 183 tilfelli um barnahjónaband og 10 tilfelli um sölu á börnum á árunum 2018 og 2019. Og það bara í héruðunum Herat og Baghdis. Börnin sem þar um ræddi voru frá sex mánaða gömul upp í 17 ára,“ segir Fore í yfirlýsingu sinni.

UNICEF áætlar að 28 prósent afganskra stúlkna og kvenna á aldrinum 15-49 ára hafi verið giftar fyrir átján ára aldur.

Þjóð í viðjum fátæktar

„Covid-heimsfaraldurinn, áframhaldandi matarskortur og yfirvofandi vetur hefur stóraukið á neyð fjölskyldna í Afganistan. Árið 2020 var nærri helmingur afgönsku þjóðarinnar svo fátækur að hann leið skort á nauðsynjum á borð við næringu og hreint vatn. Hið alvarlega efnahagsástand sem nú ríkir steypir fleiri fjölskyldum í hyl fátæktar og neyðir þær til að taka örvæntingarfullar ákvarðanir á borð við þær að senda börn sín til vinnu eða selja barnungar dætur sínar í hjónaband.“

Fore segir að nú megi fæstar unglingsstúlkur í Afganistan stunda nám og aukin hætta á að fleiri endi nauðugar í hjónabandi á barnsaldri. Menntun sé oft besta vörnin gegn barnahjónaböndum og barnaþrælkun.

„UNICEF heldur áfram vinnu sinni með samstarfsaðilum að vekja samfélög til vitundar um hættur hjónabanda af þessu tagi og skaðann sem þau geta valdið stúlkum til lífstíðar. Stúlkur sem neyddar eru í hjónaband fyrir 18 ára aldur eru ólíklegri til að halda áfram námi og mun líklegri til að sæta heimilisofbeldi, mismunun, misnotkun og glíma við geðræn vandkvæði.“

Stjórnvöld grípi tafarlaust til aðgerða

Fore segir UNICEF byrjað með fjárstuðningsverkefni í Afganistan, þar sem útdeilt er peningum, til að bregðast við hungri, barnaþrælkun og barnahjónaböndum meðal viðkvæmustu hópanna. Áform séu um að auka þessa þjónustu og aðra félagsþjónustu þar á næstu mánuðum.

„UNICEF mun líka vinna með trúarleiðtogum til að tryggja að þeir taki ekki þátt í „Nekah“ (hjónabandssamningnum) fyrir ungar stúlkur. En þetta er ekki nóg. Við köllum eftir því að stjórnvöld á öllum stigum grípi til aðgerða til að styðja og vernda viðkvæmar fjölskyldur og stúlkur. Við hvetjum stjórnvöld til að opna skóla fyrir stúlkur og leyfa konum að halda áfram kennslustörfum án tafar. Framtíð heillar kynslóðar stúlkna að veði.“

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir Afganistan

UNICEF hefur verið að störfum fyrir konur og börn í Afganistan í 65 ár. UNICEF tryggir áframhaldandi dreifingu hjálpargagna, hreint vatn og næringu við erfiðar aðstæður. Börn í Afganistan þurfa þína hjálp, sem aldrei fyrr.

Sendu SMS-ið BARN í númerið 1900 (1.900 kr) og hjálpaðu börnum í Afganistan.

Bankanúmerið okkar er:
701-26-102030 og kennitalan er: 481203-2950.

Við tökum sömuleiðis við AUR greiðslum í númerið:
123 789 6262.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn