29. júní 2022

Barnahjónaböndum fjölgar í hamfaraþurrkum á Afríkuhorninu

„Við erum að sjá sláandi aukningu í barnahjónaböndum og kynfæralimlestingum á Afríkuhorni þar sem örvinglaðar fjölskyldur eru að gefa frá sér stúlkur, allt niður í tólf ára gamlar, í sárri neyð.“

Á myndinni sést hin tólf ára gamla Amira í barnaverndarathvarfi í Garissa í Kenía. Henni var bjargaði frá barnahjónabandi af stjúpbróður sínum þegar átti að gifta hana sjötugum manni í skiptum fyrir kýr.

Stúlkur, allt niður í tólf ára gamlar, eru nú í óhugnanlegum mæli þvingaðar í hjónabönd og kynfæralimlestingar á Afríkuhorninu þar sem verstu þurrkar í 40 ár geisa nú og auka á neyð fjölskyldna. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, lýsir þungum áhyggjum yfir stöðu mála á svæðinu í ákalli sínu í dag.

Í tilkynningu frá UNICEF segir að í Eþíópíu, sem verst hefur orðið úti í hamfaraþurrkum síðustu missera, hafi fjöldi barnahjónabanda tvöfaldast á einu ári. Fjöldi barna í Eþíópíu, Keníu og Sómalíu sem eiga nú á hættu að hrökklast úr skóla hefur þrefaldast á innan við þremur mánuðum. Ungar stúlkur eru þar í mestri hættu á að brotið sé gegn réttindum þeirra.

Fjölskyldur víðs vegar um Afríkuhornið standa frammi fyrir örvæntingarfullum valkostum nú þegar vatn hverfur, búpeningur drepst og áhrif hamfarahlýnunar, stríðsins í Úkraínu og efnahagsþrenginga vegna heimsfaraldurs hafa keðjuverkandi áhrif á þessa skelfilegu neyð.

Líkt og UNICEF hefur ítrekað varað við þurfa 1,8 milljón barna nauðsynlega á tafarlausri meðferð við alvarlegri bráðavannæringu að halda á svæðinu. 213 þúsund manns eru nú talin í hættu á hungursneyð í Sómalíu samkvæmt aðvörunum Famine Early Warning Network. Í þessu samhengi ber að hafa í huga að mikið þarf til að hungursneyð sé lýst yfir.

Sláandi aukning

Aukinn fjöldi foreldra og forráðamanna er því í neyð sinni að grípa til þess ráðs að selja stúlkur sínar gegn heimanmund til að tryggja afkomu fjölskyldunnar, eða í von um að stúlkunnar bíði betra líf innan nýju fjölskyldunnar.

„Við erum að sjá sláandi aukningu í barnahjónaböndum og kynfæralimlestingum á Afríkuhorni þar sem örvinglaðar fjölskyldur eru að gefa frá sér stúlkur, allt niður í tólf ára gamlar, í sárri neyð. Til manna sem dæmi eru um að séu allt að fimmfalt eldri en þær,“ segir Andy Brooks, aðalráðgjafi barnaverndar UNICEF í austur- og suðurhluta Afríku.

„Barnahjónabönd og kynfæralimlestingar binda enda á barnæsku stúlkna. Þær eru sviptar rétti sínum til menntunar, berskjaldaðar fyrir hvers kyns ofbeldi og festast í vítahring fátæktar. Tölurnar sem við höfum fanga ekki nærri því umfang vandans þar sem stór hluti þessa svæðis býður ekki upp á neina sérfræðiþjónustu þar sem hægt er að tilkynna um mál sem þessi. Þessi börn eru í bráðri hættu og við þurfum nauðsynlega á stuðningi að halda til að auka viðbragð okkar við þessari þróun í Eþíópíu, Keníu og Sómalíu. Ekki aðeins til að bjarga lífum til skamms tíma heldur til að vernda börn til lengri tíma litið,“ segir Brooks.

Þessi 13 ára stúlka í Eþíópíu var neydd til að hætta í skóla og giftast ókunnugum manni til að hjálpa fjölskyldu hennar að lifa af hamfaraþurrkinn.

Greining UNICEF á barnahjónaböndum og kynfæralimlestingunum, byggð á takmörkuðum opinberum gögnum og mati mannúðarstofnana á svæðinu, sýnir að:

  • Aukinn fjöldi stúlkna á Afríkuhorninu eru á hættu á að flosna upp úr skóla sem aftur setur þær í aukna hættu á hjónabandi og kynfæralimlestingum. Á þremur mánuðum hefur fjöldi barna, sem talin eru í hættu á að flosna úr námi vegna hamfaraþurrkanna, í Eþíópíu, Keníu og Sómalíu þrefaldast úr 1,1 milljón í 3,3 milljónir barna.
  • Í Eþíópíu, samkvæmt tölum frá stjórnvöldum þar, hefur barnahjónaböndum fjölgað um 119 prósent í héruðum sem verst hafa orðið úti vegna þurrkanna þar á tímabilinu janúar til apríl 2021 samanborið við sama tímabil í ár. Á sama tímabili hefur kynfæralimlestingum fjölgað um 27 prósent.
  • Samkvæmt könnun í Sómalíland í janúar síðastliðnum sögðust fjórðungur aðspurðra hafa upplifað aukningu í kynbundnu ofbeldi vegna ástandsins. Þar á meðal barnahjónaböndum, heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi. Aukningin nam rúmlega 50% á sumum svæðum. Önnur þarfagreining á mannúðaraðstoð í Puntland í febrúar sýndi barnahjónabönd voru 59% tilkynntra mála þar, sem mörg hver tengdust einnig kynfæralimlestingu.
  • Víðs vegar um Afríkuhornið þurfa konur og stúlkur nú að ferðast lengri vegalengdir til að sækja vatn, sem gerir þær berskjaldaðar fyrir hvers kyns ofbeldi. Í Kenía þurfa konur og stúlkur nú víða að ganga þrefalt lengri leið en áður eftir vatni, allt að 30 kílómetra í verstu tilfellunum, samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum í Kenía. 

Fjögur rigningatímabil brugðist

Á Afríkuhorninu hafa nú fjögur rigningatímabil á síðustu tveimur árum brugðist og það fimmta, í október til desember, talið mjög líklegt til að láta ekki sjá sig heldur. Stríðið í Úkraínu hefur komið hart niður á matvælaöryggi þessa svæðis. Bara í Sómalíu flutti ríkið inn 92 prósent af öllu sínu hveiti frá Rússlandi og Úkraínu. En þær flutningaleiðir eru nú úr sögunni. Sprenging í matvælaverði hefur einnig gert það að verkum að fjölskyldur geta ekki keypt sér nauðsynjar. 

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, vinnur nú hörðum höndum að því að auka enn við nauðsynlega barnavernd og ráðgjafarþjónustu vegna kynbundins ofbeldis fyrir börn og konur í viðkvæmri stöðu á Afríkuhorninu. UNICEF kallar eftir stóraukinni aðstoð alþjóðasamfélagsins til að vernda börn og konur gegn kynbundnu ofbeldi á svæðinu með varanlegum lausnum, auk færanlegra sérfræðiteyma til að ná til viðkvæmustu hópanna. Því miður, segir í tilkynningu UNICEF, eru verkefni samtakanna á Afríkuhorninu aðeins að tæplega þriðjungi fjármögnuð.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn