20. apríl 2023

Bakslag í bólusetningum barna  

67 milljónir barna hafa misst af reglubundnum bólusetningum á síðustu þremur árum 

Ný skýrsla UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem kom út í dag sýnir að 67 milljónir barna hafa misst af einni eða fleiri bólusetningum á síðastliðnum þremur árum. Ýmsar ástæður liggja að baki en heimsfaraldur COVID-19 spilar þar stórt hlutverk. Í skýrslunni kemur fram að þegar heimsfaraldurinn var í hámarki minnkaði traust almennings til bólusetninga í 52 löndum af þeim 55 sem voru rannsökuð í skýrslunni. Í flestum tilvikum var fólk yngra en 35 ára og konur í meirihluta þeirra sem segjast bera minna traust til bólusetninga barna eftir að faraldurinn hófst.  

Á hverju ári gefur UNICEF út skýrslu um stöðu barna í heiminum og er umfjöllunarefnið í ár bólusetningar vegna þess bakslags sem hefur átt sér stað í bólusetningum barna. Í fyrra bentu UNICEF og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) á að heimsfaraldur COVID-19 hefði ýtt undir mestu afturför í bólusetningum barna í þrjá áratugi. Í nýju skýrslunni er varað við því að 67 milljónir barna hafi misst af reglubundnum bólusetningum á árunum 2019 til 2021 og að bólusetningum hafi fækkað í 112 löndum. Ef ekki er gripið inn í er heimurinn því langt frá því að ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um bólusetningar barna. Skýrsluna The State of the World’s Children 2023: For Every Child, Vaccination og gögnin sem hún byggir á má nálgast hér.  

Heilbrigðisstarfsfólk í Bangladess gengur hús úr húsi til að fræða foreldra um mikilvægi bólusetninga

UNICEF hringir viðvörunarbjöllum

UNICEF bendir á að það sé þörf á að afla frekari gagna til að sjá hvort minnkandi traust sé tímabundið ástand eða til marks um langtímaþróun. Góðu fréttirnar eru þær að stuðningur við bólusetningar barna við margvíslegum sjúkdómum á borð við mænusótt, mislinga og barnaveiki er áfram tiltölulega hár og í næstum helmingi þeirra 55 ríkja sem voru hluti af rannsókninni töldu yfir 80 prósent svarenda bóluefni mikilvæg fyrir börn.  

„Þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst náðu vísindamenn að þróa hratt bóluefni sem bjargaði ótal lífum. En þrátt fyrir þann sögulega árangur dreifðist ótti og rangar upplýsingar um hinar ýmsu tegundir bóluefna jafn víða og vírusinn sjálfur,” segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF. „Þessi gögn eru viðvörunarmerki sem vert er að hafa áhyggjur af. Við getum ekki leyft því að gerast að traust á venjubundnum bólusetningum verði enn eitt fórnarlamb heimsfaraldursins. Þá gæti næsta bylgja dauðsfalla orðið meðal barna með mislinga, barnaveiki eða aðra sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir.”  

Mislingatilfelli tvöfaldast milli ára

Árlega styðja UNICEF og samstarfsaðilar bólusetningar gegn lífshættulegum sjúkdómum hjá hátt í helmingi allra barna í heiminum í yfir 100 löndum sem bjarga lífi tveggja til þriggja milljóna barna á hverju ári. Heimsfaraldur COVID-19 hafði áhrif á bólusetningar barna nánast um allan heim, sérstaklega vegna álags á heilbrigðiskerfi, skorts á heilbrigðisstarfsfólki og sóttvarnaraðgerða. Börn sem fæddust rétt fyrir og í faraldrinum misstu því mörg af fyrstu bólusetningunum sínum og því brýnt að bregðast við til að koma í veg fyrir að banvænir sjúkdómar fari að breiðast út aftur. Sem dæmi má nefna að árið 2022 ríflega tvöfölduðust tilfelli mislinga samanborið við árið á undan. Fjöldi barna sem lömuðust vegna mænusóttar jókst um 16% á sama tímabili. 

 Til eru bóluefni við þessum hættulegu sjúkdómum en alltof mörg börn, sérstaklega í jaðarsettustu samfélögunum, fá ekki notið þeirra. Af þeim 67 milljónum barna sem misstu af reglubundnum bólusetningum milli 2019 og 2021 voru 48 milljónir barna sem fengu engar bólusetningar (svokallað “zero-dose”). Undir lok árs 2021 voru flest þeirra barna búsett á Indlandi og í Nígeríu. Þau gögn sem kynnt eru í skýrslunni sýna vel þetta misrétti og þar kemur fram að 1 af hverjum 5 börnum sem búa á efnaminnstu heimilunum höfðu ekki fengið neina bólusetningu á meðan talan var 1 af hverjum 20 börnum í þeim efnameiri. Börn sem hafa ekki fengið neina bólusetningu búa oft á dreifbýlum svæðum sem erfitt er að ná til eða í fátækrahverfum stórborga.  

Drengur frá Sýrlandi fær bóluefni gegn mænusótt

Tvöfalda þarf skuldbindingar um fjármögnun til bólusetninga

Með skýrslunni sem kom út í dag biðlar UNICEF til ríkisstjórna heimsins um að tvöfalda skuldbindingar sínar um auka fjármögnun til bólusetninga barna til að koma í veg fyrir að börn veikist alvarlega eða deyi af völdum sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir. UNICEF leggur einnig áherslu á að það þurfi að styrkja heilbrigðiskerfi og tryggja framlínustarfsfólki, sem oftast eru konur, það fjármagn og stuðning sem þau þurfa. Konur, sem oftast eru þær sem fara hús úr húsi til að bólusetja börn, búa við lág laun, óformlega atvinnu og skort á formlegri þjálfun sem ógna öryggi þeirra.  

Í skýrslunni eru stjórnvöld hvött til að: 

·       Ná til allra barna, sérstaklega þeirra sem misstu af bólusetningum í COVID-19 heimsfaraldrinum; 

·       Auka eftirspurn eftir bóluefnum, meðal annars með því að efla traust á ný; 

·       Forgangsraða fjármagni til bólusetningarþjónustu og heilsugæslu; 

·       Styrkja seiglu heilbrigðiskerfa með því að fjárfesta í kvenkyns heilbrigðisstarfsfólki, nýsköpun og staðbundinni framleiðslu bóluefna. 

„Bólusetningar hafa bjargað milljónum lífa og verndað samfélög gegn banvænum sjúkdómum,” segir Catherine Russell. „Við vitum of vel að sjúkdómar virða engin landamæri. Reglubundnar bólusetningar og sterk heilbrigðiskerfi eru okkar besta tækifæri til að koma í veg fyrir heimsfaraldra framtíðarinnar, ótímabær dauðsföll og þjáningu. Þar sem enn er til fjármagn vegna COVID-19 bólusetninga er nú kominn tími til að beina þeim fjármunum í að styrkja bólusetningar barna og fjárfesta í sjálfbærri þjónustu fyrir öll börn.”   

Framlög HEIMSFORELDRA UNICEF nýtast meðal annars í að bólusetja börn gegn lífshættulegum sjúkdómum. Takk kæru Heimsforeldrar fyrir að hjálpa okkur að bjarga börnum um allan heim, allt árið um kring.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn