04. júní 2024

Ávarp framkvæmdastjóra: Fjölkrísuheimur

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, skrifar um mikilvægt hlutverk UNICEF í hringiðu ógna við réttindi og velferð barna í heiminum.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. Mynd/Laufey

Fjölkrísuheimur. Þetta er óþjált orð og lítið þekkt. Snertifletir við íslenskan veruleika óljósir. Ég hélt að ég skildi það en inntak þess og merkingarþungi hefur aldrei birst mér jafn skýrt og þegar ég ferðaðist til Miðausturlanda í október 2023.

Erindið þangað suður eftir var annars vegar að kynnast verkefnum UNICEF í viðbragði við áhrifum loftslagsbreytinga og hins vegar að funda með framkvæmdastjórum annarra landsnefnda UNICEF og yfirmönnum verkefna UNICEF í Miðausturlöndum og N-Afríku. Þegar dagskráin var skipulögð fyrr á árinu vakti fyrir fólki að gefa innsýn í, ræða og styðja við verkefni stofnunarinnar í heimshluta sem mikið mæddi á. Engan óraði fyrir því að viku fyrir upphaf ferðarinnar

hæfist atburðarás sem myndi leiða til mestu mannúðarkrísu í manna minnum, stríðsátaka sem settu viðkvæmt jafnvægi í heimshlutanum í algert uppnám og bjó til djúpar klofningslínur, jafnvel ósættanlegar, milli fólks um allan heim.

Í framhaldi af ítarlegu mati á öryggismálum var ákveðið að halda áætlun. Ég lét slag standa og hefði aldrei viljað missa af tækifærinu til að sjá og upplifa það sem þarna bar fyrir öll skilningarvit. Fjölkrísuheimur.

Fyrsti áfangastaður var Írak. Hugrenningatengslin eru eflaust stríðin á fyrstu árum þessarar aldar en landið er í dag í fremstu víglínu loftslagsbreytinga. Ógnarhiti (+50˚c reglulega), eyðilegging vistkerfa og tilheyrandi fólksflutningar þar sem þúsundir fjölskyldna flytja úr sveitinni í borgir og þéttbýlisstaði. Þarna vinnur UNICEF með heimafólki að sterkari innviðum fyrir menntun, heilsu, hreint vatn og styður ungt fólk í því að skapa sjálfbærari framtíð fyrir sig og land sitt.

Þaðan hélt ég til Amman, höfuðborgar Jórdaníu, sem jafnframt gegnir mikilvægu hlutverki sem miðstöð svæðisbundinnar vinnu alþjóðastofnana í heimshlutanum. Stríðið á Gaza var þá á sinni annarri viku og óvissa, ótti og sorg héngu í loftinu. Úr miðborginni mátti heyra hrópin frá fjölmennum mótmælum. Starfsfólk UNICEF var saman komið til að ráða ráðum sínum – og líka sækja stuðning og hughreystingu hvert til annars. Ástandið reyndi á öll – og strax þarna, á fyrstu dögum stríðsins, sagðist reynslumikið neyðarstarfsfólk aldrei hafa staðið frammi fyrir öðru eins.

Þrátt fyrir áskoranirnar þá var enga uppgjöf að finna hjá kollegum mínum heldur þrautseigju og seiglu. Og hvílík seigla. Starfsfólk UNICEF í Miðausturlöndum og N-Afríku hafði á fyrstu 10 mánuðum ársins brugðist við jarðskjálftum í Tyrklandi, Sýrlandi og Marokkó, flóðum í Líbýu, borgarstríði í Súdan og nú stríði á Gaza. Hver og einn þessara atburða var hamfarir þar sem þúsundir barna – jafnvel tugþúsundir – dóu eða misstu fjölskyldu sína, heimili og alla tilfinningu fyrir öryggi. Fjölkrísuheimur.

Í þessari hringiðu ógna leikur UNICEF mikilvægt hlutverk við að gæta að og tryggja réttindi barna, þrátt fyrir allt. Heimsforeldrar og aðrir styrktaraðilar á Íslandi gera okkur kleift að vera til staðar í langhlaupinu, líkt og uppbygging innviða í ógnarhita í Írak og víðar kallar á, og í sprettinum þegar skyndileg neyð verður, s.s. vegna átaka, flóða og jarðskjálfta. Íslendingar eiga heimsmet í að styrkja verkefni UNICEF sem þýðir að við eigum heimsmet í trú á betri heim, þrátt fyrir allt. Við ætlum ekki að gefast upp á að fjármagna verkefni UNICEF fyrir öll börn, sama hversu margar og hversu flóknar áskoranirnar verða. Ef eitthvað er, þá bætum við vonandi í. Landsnefnd UNICEF á Íslandi skilaði öðrum besta árangri landsnefndarinnar frá upphafi á síðasta ári og sá árangur skiptir máli. Við ætlum að byggja á honum til að gera fleira fólki og fleiri fyrirtækjum á Íslandi kleift að styrkja verkefni UNICEF því öll börn eiga sömu réttindi. Líka í fjölkrísuheimi.

Ávarpið birtist í ársskýrslu UNICEF á Íslandi sem hægt er að nálgast í heild sinni hér.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn