24. mars 2023

Átta ár af stríði: Vertu vonarljósið í lífi jemenskra barna

Sjáðu hverju UNICEF áorkaði í Jemen í fyrra með stuðningi þínum

Hin sjö mánaða gamla Ebtihal fær næringarríkt jarðhnetumauk í fangi móður sinnar.

Enn ein sorgleg tímamótin eru nú runnin upp í stríðinu skelfilega í Jemen. Átta ár eru í dag síðan þar hófst borgarastyrjöld sem allar götur síðan hefur kallað ólýsanlegar hörmungar yfir börn og aðra íbúa ríkisins. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, greinir frá því í dag að 11 milljónir jemenskra barna þurfi nú á mannúðaraðstoð að halda. Meira en 540 þúsund börn undir fimm ára aldri þjást vegna lífshættulegrar vannæringar. Og á tíu mínútna fresti deyr barn af sjúkdómum og orsökum, sem hægt er að koma í veg fyrir.

Síðastliðin átta ár höfum við flutt ykkur fréttir af skelfilegum aðstæðum barna í Jemen, hungrinu, hættunum, mannréttindabrotunum og dauðsföllum. Til eru sex og sjö stafa tölur yfir fjölda ungra og saklausra barna sem daglega glíma við allt það versta sem hugsast getur, enda hefur lengi verið talað um Jemen sem versta stað á jörðu til að vera barn. Þessar tölur eru líklega hættar að hreyfa við alþjóðasamfélaginu og almenningur nánast farinn að taka þessu skelfingarástandi sem óumflýjanlegum hlut og ljós vonarinnar hugsanlega í einhverjum tilfellum tekið að dofna.

En það eru von, lausnir og árangur sem drífa okkur hjá UNICEF á Íslandi áfram. Það er okkar hlutverk að halda loga í ljósi vonarinnar og magna upp á ný. Því viljum við á þessum tímamótum beina kastljósinu að árangri UNICEF í þágu jemenskra barna á síðasta ári. Þökk sé m.a. stuðningi almennings á Íslandi, Heimsforeldrum, öllum þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem styrkt hafa neyðarsöfnun okkar fyrir börn í Jemen. Því við munum aldrei gefast upp. Þrotlaus vinna okkar í þágu réttinda allra barna heldur áfram.

Börn fá stuðning og kennslu á barnvænu svæði UNICEF í Jemen.

Því þótt að fjárþörfin til verkefna UNICEF í Jemen hafi sjaldan eða aldrei verið meiri og UNICEF kalli nú eftir stuðningi til að mæta því fjármögnunargati sem til staðar er til að sinna lífsbjargandi mannúðarstarfi í landinu, þá tókst nefnilega að afreka ansi margt á síðasta ári. Ofan á svo margar aðrar stórar neyðir og hamfarir sem UNICEF sinnir um allan heim.

Hér eru dæmi um það sem stuðningur við starf UNICEF í Jemen gerði til að bæta líf barna þar í landi árið 2022:

  • 375 þúsund börn, eða sem jafngildir nær heildarfjölda allra Íslendinga í dag, fengu meðhöndlun vegna alvarlegrar bráðavannæringar í 4.584 heilsugæslustöðvum og 34 næringarmiðstöðvum í landinu.
  • 1,5 milljón heimila fengu beinan fjárstuðning á hverjum ársfjórðungi, sem nær 9 milljónir íbúa nutu góðs af.
  • 6,2 milljónir einstaklinga fengu aðgengi að öruggu og sjálfbæru drykkjarvatni með margvíslegum leiðum. UNICEF útvegað einnig eldsneyti til að styðja við framleiðslu og dreifingu á hreinu vatni til 36 innlendra vatns- og hreinlætisfyrirtækja í 15 landsstjórnarumdæmum.
  • 2,1 milljónir barna, sem lítið eða ekkert aðgengi höfðu að heilbrigðisþjónustu, fengu bólusetningu við mislingum og mænusótt.
  • 478 þúsund börn og forráðamenn á átakasvæðum fengu sálrænan stuðning.
  • 5,2 milljónir barna og íbúa fengu fræðslu um jarðsprengjur og hættur sem af þeim stafa.
  • 2,7 milljónir íbúa á afskekktum og strjálbýlum svæðum fengu aðgengi að nauðsynlegri grunnheilbrigðisþjónustu
  • UNICEF studdi mæðra- og nýburaverndarþjónustu í heilbrigðiskerfinu í gegnum 24 sjúkrahús með bæði þjónustu, þekkingu, tækjabúnaði og sjúkragögnum. Svo fátt eitt sé nefnt.
  • 538.800 börn fengu námsgögn og 856.600 börn fengu aðgengi að formlegri og óformlegri menntun.

Þurfa frið
„Eftir átta ár upplifa mörg börn og fjölskyldur þeirra að þau séu stödd í vítahring vonleysis,“segir Peter Hawkins, fulltrúi UNICEF í Jemen, sem bendir á að það sem börn og íbúar Jemen þurfi fyrst og fremst á að halda, sé varanlegur friður. Svo hægt sé að græða sár síðustu ára og vinna upp allt sem glatast hefur.

Við öll þurfum því að tryggja að við höldum glæðum í ljósi vonarinnar hjá börnum og öðrum íbúum Jemen. Sýna þeim að við gefumst aldrei upp í því gríðarstóra verkefni sem það er, að bæta líf þeirra, tryggja velferð og öryggi uns friður kemst á.

Til að styðja við verkefni UNICEF í Jemen minnum við á neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Jemen hér.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn