25. október 2023

Árásir á börn „svartur blettur á samvisku okkar allra“

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, kallar eftir tafarlausu vopnahléi og óhindruðum aðgangi fyrir neyðaraðstoð

Undanfarna 18 daga hafa átökin á Gaza borið vitni um hörmulegar árásir á börn, en um 2.360 börn hafa þegar látið lífið og yfir 5.300 börn slasast. Það þýðir að um 400 börn slasast eða láta lífið daglega á svæðinu. Einnig hafa um 30 ísraelsk börn týnt lífi sínu og tugir barna enn í haldi á Gaza svæðinu. Síðustu 18 dagar marka því mannskæðustu átök sem hafa átt sér stað á svæðinu frá 2006.

Nánast hvert einasta barn á Gaza hefur orðið fyrir áföllum af einhverjum toga, svo sem linnulausum árásum, flótta og skorti á nauðsynjum líkt og vatni, mat og lyfjum.

Þurfa frið og óhindrað aðgengi neyðaraðstoðar

Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, segir dráp og árásir á börn, brottnám þeirra, árásir á sjúkrahús og skóla og hindranir við aðgengi mannúðarstofnana, allt alvarleg brot á alþjóðlegum réttindum barna.

„UNICEF skorar á alla aðila að samþykkja vopnahlé, leyfa mannúðaraðgang og sleppa öllum gíslum. Vernda verður almenna borgara, þá sérstaklega börn, og hlífa þeim fyrir árásum og ofbeldi við allar aðstæður,“ segir Khodr.

Aukið mannfall hefur einnig átt sér stað síðustu vikur á Vesturbakkanum, en nærri hundrað Palestínumenn er talið að hafi fallið, þar af 28 börn, og að minnsta kosti 160 börn slasast. Aðstæður á Vesturbakkanum voru þó einnig slæmar fyrir átökin sem hófust þann 7. október en börn á svæðinu glíma við hæsta áhættustig vegna átaka og hafa því 41 palestínsk börn og sex ísraelsk börn látist það sem af er þessu ári.

Yfirþyrmandi staðreyndir

„Ástandið á Gaza er sívaxandi svartur blettur á samvisku okkar allra. Dauði og tjón á börnum er einfaldlega yfirþyrmandi,“ sagði Khodr. „Sú staðreynd að enn hefur ekki dregið úr spennunni er mjög ógnvekjandi. Það er enn mikil þörf á neyðaraðstoð, vatni, mat, læknisbirgðum, eldsneyti og fleiru, sem nauðsynlegt er að koma inn á Gaza sem fyrst til að bjarga mannslífum,“ segir Khodr.

Eldsneyti er afar mikilvægt fyrir daglegan rekstur til dæmis sjúkrahúsa, vatnshreinsunarstöðva og vatnsdælustöðva. Nýburadeildir spítala hýsa nú yfir 100 fyrirbura og nýbura sem sum hver þurfa á aðstoð hitakassa að halda. Án eldsneytis eða rafmagns er líf þessa barna í mikilli hættu.

Allir íbúar Gaza, það er 2,3 milljónir manns, glíma við brýnan vatnsskort sem getur haft alvarlegar afleiðingar, sérstaklega fyrir börn, sem nema um 50 prósent íbúa svæðisins. Meirihluti vatnsstöðva Gaza hafa verið eyðilögð eða liggja niðri sökum átakanna og er því vatnsframleiðslan á svæðinu nú aðeins um 5 prósent af því sem áður var.

„Myndir sem við sjáum af börnum sem bjargað er úr húsarústum sýna þann hrylling sem börn á svæðinu upplifa. Án mannúðar- og neyðaraðstoðar munu börn ekki hafa aðgang að hreinu vatni eða lyfjum þegar þau veikjast og eru því yfirgnæfandi líkur á því að dánartíðni hækki eftir því sem á líður,“ segir Khodr.

Til þess að bregðast við ástandinu á Gaza kallar UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, eftir tafarlausu vopnahléi, öruggu og óhindruðu aðgengi mannúðarstofnana til þess að veita neyðaraðstoð á svæðinu, og að virðing sé borin fyrir borgaralegum innviðum í átökunum, svo sem skólum, heilsugæslum, sjúkrahúsum, og vatns- og hreinlætisaðstöðu til þess að koma í veg fyrir frekari árásir á börn og ungmenni.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn