21. febrúar 2023

Ár af stríði í Úkraínu: Tryggjum von í hjörtum milljóna barna

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna stríðsins í Úkraínu sló öll fyrri met – Áframhaldandi stuðningur við starf UNICEF nauðsynlegur

Hin 7 ára gamla Nastja faðmar bangsann sinn við UNICEF-tjald á landamærum Úkraínu og Póllands. –Mynd: UNICEF

Á morgun, 24. febrúar, er ár liðið frá innrásinni í Úkraínu. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, gaf af því tilefni út skýrslu um áhrif stríðsins á börn í landinu þar sem kemur meðal annars fram að 7,8 milljónir barna séu enn að lifa við stríð og afleiðingar þess.

Líf barna frá Úkraínu hafa umturnast og þau upplifað ólýsanlegan hrylling. Hundruð barna hafa látið lífið og enn fleiri særst, börn og fjölskyldur hafa neyðst til að flýja heimili sín og óvissan og óttinn heltekið líf allra Úkraínumanna. En í gegnum þetta allt hafa úkraínsk börn líka sýnt ótrúlegan styrk og þrautseigju. Með stuðningi Heimsforeldra og allra þeirra þúsunda einstaklinga og fyrirtækja á Íslandi sem lagt hafa neyðarsöfnun okkar lið á árinu hefur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, getað sinnt lífsnauðsynlegu hjálparstarfi í þágu milljóna barna og fjölskyldna þeirra.  En stríðinu er því miður langt í frá lokið og áframhaldandi stuðningur við börn Úkraínu nauðsynlegur.

„Eitt ár af stríði hefur rænt börn Úkraínu nánast öllu: heimili, ástvinum, skólum, leikvöllum, vinum, sálarró, lífi og limum. Von og þrautseigja verða þó aldrei af þeim tekin og UNICEF hefur staðið sleitulausa vakt við að tryggja þrautseigjuna og halda í vonina,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Og frá 24. febrúar 2022 hefur UNICEF, þökk sé stuðningi frá almenningi, fyrirtækjum og alþjóðasamfélaginu unnið þrekvirki við gríðarerfiðar aðstæður í þessu umfangsmikla verkefni.

Meðal þess sem UNICEF hefur gert innan Úkraínu og í nágrannaríkjum síðastliðið ár:

  • Útvegað námsgögn fyrir 1 milljón barna.
  • Tryggt aðgengi 2,4 milljóna barna að formlegu og óformlegu námi.
  • Útvegað 4,5 milljónum barna og forráðamanna sálræna aðstoð
  • Sett upp 39 Blue Dot–hjálparstöðvar á leið flóttafólks úr landi.
  • Veitt ríflega 400 þúsund konum og börnum viðbragðsþjónustu vegna kynbundins ofbeldis.
  • Tryggt 5,6 milljónum einstaklinga öruggt drykkjarvatn
  • Veitt ríflega 1,6 milljón einstaklinga aðgengi að hreinlætisaðstöðu.
  • Tryggt heilbrigðisþjónustu fyrir tæplega 5 milljónir einstaklinga
  • Styrkt ríflega 224 þúsund heimili innan Úkraínu með beinum fjárstuðningi og rúmlega 53 þúsund heimili í nágrannaríkjum

Stuðningur sem sló öll fyrri met

Viðtökur almennings og fyrirtækja hér á landi við neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna Úkraínu hefur frá fyrsta degi verið til fyrirmyndar.

„Stuðningur Heimsforeldra á Íslandi, almennings, fyrirtækja og stjórnvalda við verkefni UNICEF sló öll met í fyrra – en því miður er stríðið hvergi nærri búið og neyðin ennþá gríðarleg. Við treystum því að Íslendingar haldi áfram að styðja við lífsbjargandi starf UNICEF í Úkraínu svo um muni,“ segir Birna.

Verkefnin fram undan eru vissulega risavaxin og það sem börn í Úkraínu þurfa fyrst og fremst er friður svo hægt sé að hefja uppbyggingu og endurheimt á því sem þau hafa glatað af æsku sinni á síðastliðnu ári.

UNICEF mun aldrei hopa í baráttu sinni fyrir réttindum og velferð barna og svo lengi sem stríðið varir ítrekar stofnunin ákall sitt um að hjálparstarf geti haldið áfram örugglega og án hindrana. Að látið verði tafarlaust af árásum á börn og mikilvæga innviði sem þau reiða sig á, eins og skóla, sjúkrahús, vatns- og orkuveitur. Að tafarlaust verði látið af árásum á íbúðabyggðir sem kostað hafa hundruð barna líf og limi.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, áætlaði í árslok 2022 að fjárþörf til að mæta brýnustu verkefnum og langtímaþörf á mannúðaraðstoð í Úkraínu væri 1,1 milljarður Bandaríkjadala á árinu.

Í sameiningu höfum við lagt okkar af mörkum á síðustu tólf mánuðum og í sameiningu getum við haldið áfram að færa börnum Úkraínu von og þrautseigju.

Allar upplýsingar um hvernig þú getur styrkt neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna Úkraínustríðsins má finna með því að smella hér.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn