15. apríl 2024

Ár af stríði í Súdan: Hvergi fleiri börn á flótta í heiminum

Yfirvofandi hungursneyð, útbreiðsla sjúkdóma og mannfall á sama tíma og hörð átök ógna öryggi og aðgengi mannúðarstofna 

Barn frá Súdan fær næringaraðstoð eftir að fjölskylda þess hafði flúið átökin í heimalandinu yfir til Suður-Súdan. Mynd/UNICEF

Ár er í dag síðan borgarastyrjöld hófst í Súdan með skelfilegum afleiðingum fyrir börn og fjölskyldur sem neyðst hafa til að flýja heimili sín, glíma við útbreiðslu sjúkdóma og yfirvofandi hungursneyð. Áætlað er að fjórar milljónir barna undir fimm ára aldri muni glíma við bráðavannæringu á þessu ári. Innviðir eru að hruni komnir og framlínustarfsfólk í heilbrigðis- og menntakerfinu hafa ekki fengið greidd laun síðan átökin hófust. 90% allra þeirra 19 milljóna barna og ungmenna á skólaaldri hafa ekkert aðgengi að menntun.  UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, segir nauðsynlegt að tryggja öruggt aðgengi mannúðarstofnana að íbúum til að koma í veg fyrir algjöran harmleik og hungursneyð.

Brot gegn börnum fimmfaldast milli ára

Ted Chaiban, aðstoðarframkvæmdastjóri UNICEF, segir hið grimma stríð og yfirvofandi hungursneyð hafa skapað hættulegan farveg fyrir gríðarlegt mannfall.

„Nær helmingur barna sem glíma við alvarlega vannæringu eru búsett á svæðum sem erfitt er að komast að. Þar eru áframhaldandi átök sem gera ástand íbúa enn verra. Það væri hægt að komast hjá þessu, það er hægt að bjarga lífi þessara barna ef stríðandi fylkingar veittu okkur aðgang að þessum samfélögum þar sem neyðin er mest svo við getum uppfyllt skyldur okkar,“ segir Chaiban.

Yfirstandandi átök hafa gert það að verkum að tilkynningum um alvarleg réttindabrot gegn börnum hafa fimmfaldast milli áranna 2022 og 2023. Sérstaklega er aukningin sýnileg þar sem börn hafa verið neydd til að ganga til liðs við stríðandi fylkingar og taka upp vopn en einnig í tilkynningum um morð, limlestingar og kynferðisbrot gegn börnum. Staðfest brot gegn réttindum barna hafa ekki verið fleiri í Súdan í rúman áratug og raunverulegur fjöldi líklega mun hærri en það sem tilkynnt hefur verið um.

Hvergi fleiri börn á flótta

Hvergi í heiminum eru fleiri börn á flótta en í Súdan en rúmlega fjórar milljónir barna hafa neyðst til að flýja heimili sín síðan í apríl 2023, þar af hefur rúm ein milljón flúið yfir til nágrannaríkja einna helst Tjad, Egyptaland og Suður-Súdan.

„Umfang neyðarinnar er slíkt að það er hreinlega erfitt að setja það í samhengi. En gleymum því aldrei að þetta eru ekki bara tölur á blaði. Að baki þessum tölum eru milljónir barna. Hvert þeirra á sér nafn, eigin sögu, vonir og drauma. En án verulegrar aukningar í nauðsynlegri mannúðaraðstoð, uppbyggingar nauðsynlegra innviði til að tryggja réttindi barna og á endanum frið er hætt við að vonir og draumar heillar kynslóðar verði að engu,“ segir Chaiban.

UNICEF á vettvangi og neyðarsöfnun í fullum gangi

UNICEF er sem fyrr á vettvangi og til staðar fyrir börn í Súdan við að veita lífsnauðsynlega mannúðaraðstoð, barnavernd, vernd gegn kynbundnu ofbeldi, heilbrigðisþjónustu, næringu, hreinlætisþjónustu, menntun og fjárstuðning fyrir viðkvæmasta hóp barna og fjölskyldur þeirra.

UNICEF á Íslandi hefur frá upphafi átakanna staðið fyrir neyðarsöfnun fyrir börn í Súdan. UNICEF áætlar að næstu sex mánuði þurfi 240 milljónir dala í fjárstuðning til að koma í veg fyrir hungursneyð í 93 viðkvæmustu svæðum Súdan þar sem nú búa 3,5 milljónir barna undir fimm ára aldri. Ljóst er því að hvert einasta framlag skiptir máli fyrir börn í neyð.

Fleiri
fréttir

08. janúar 2025

Blóðug byrjun á árinu fyrir börnin á Gaza
Lesa meira

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira
Fara í fréttasafn