24. ágúst 2023

Án friðar er framtíð barna í Súdan í bráðri hættu

Bara síðustu 52 daga hafa fleiri börn neyðst til að flýja heimili sín í Súdan en síðustu fjögur ár samanlagt.

Móðir með barn sitt í bólusetningu á Gezirat Al-Feel heilsugæslunni í Súdan. Sláandi fjöldi heilbrigðisstofnana er óstarfhæfur vegna átaka og álagið á aðrar mikið. Mynd/UNICEF

Rúmlega tvær milljónir barna eru á vergangi vegna blóðugra átaka í Súdan undanfarnar fjóra mánuði. Bara síðustu 52 daga hafa fleiri börn neyðst til að flýja heimili sín í Súdan en síðustu fjögur ár samanlagt.

Síðustu fjóra mánuði hefur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, útvegað rúmlega fjórum milljónum barna og fjölskyldum þeirra heilbrigðisþjónustu, næringu, vatn, hreinlætisþjónustu, menntun og vernd. En í tilkynningu frá UNICEF í dag segir að þörf sé á auknu fjármagni til að skala upp og viðhalda neyðaraðstoð og ítrekar fyrri áköll sín um vopnahlé og frið í landinu.

Við þurfum frið núna 

Áætlað er að 1,7 milljónir barna hafi flúið átök og séu á vergangi innan landamæra Súdan og tæplega hálf milljón til viðbótar hefur flúið yfir landamærin til nágrannaríkja.

„Þessi mikli fjöldi barna á flótta á svo skömmum tíma undirstrikar enn frekar mikilvægi sameiginlegs viðbragðs okkar allra við ástandinu,“ segir Mandeep O‘Brien, fulltrúi UNICEF í Súdan. „Við erum að heyra ólýsanlega skelfilegar sögur frá börnum og fjölskyldum sem hafa misst allt sitt og mátt horfa upp á ástvini og fjölskyldumeðlimi myrta. Við höfum sagt það áður og við segjum aftur: Við þurfum frið núna, eigi börnin að lifa af.“

Margþætt ógn og hryllingur

Sem stendur þurfa á nær 14 milljónir barna víðs vegar um Súdan á mannúðaraðstoð að halda og standa þau frammi fyrir margþættri ógn og skelfilegri upplifun á degi hverjum. Fyrri utan helstu átakasvæði Darfur og Khartoum þá hafa aukin átök nú dreift sér til aðra fjölmennra svæða, meðal annars Suður- og Vestur-Kordofan, með þeim afleiðingum að afhending og aðgengi mannúðaraðstoðar er í hættu. Þá hefur álag á laskaða innviði, meðal annars í heilbrigðisþjónustu, gert það að verkum að í áðurnefndum héruðum Darfur og Khartoum eru nú aðeins þriðjungur allra sjúkrastofnana starfhæfur. Hinir miklu fólksflutningar hafa því sett gríðarlegt álag á heilbrigðisstofnanir utan helstu átakasvæða. UNICEF greinir frá því að fregnir hafi borist af alvarlegum skorti á lyfjum og öðrum sjúkragögnum svo hinir ýmsu sjúkdómar, þar á meðal mislingar, eru farnir að dreifa sér.

Þegar þú ert Heimsforeldri styður þú við mannúðaraðstoð og langtímaverkefni UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í Súdan og yfir 190 öðrum ríkjum um allan heim. Smelltu hér til að sjá hvernig þú getur orðið Heimsforeldri strax í dag.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn