27. febrúar 2025

Alvarleg brot gegn börnum þrefaldast á einum mánuði í Kongó

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, lýsir yfir miklum áhyggjum af umtalsverðri aukningu alvarlegra brota gegn börnum í stríðshrjáðum austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, lýsir yfir miklum áhyggjum af umtalsverðri aukningu í tilkynningum um alvarleg brot gegn börnum í stríðshrjáðum austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó (DRC). Fjöldi tilfella hefur þrefaldast á aðeins einum mánuði síðan stigmögnun átaka hófst á nýjan leik í landshlutanum þann 24. janúar síðastliðinn.

Veruleg aukning hefur orðið á þessum alvarlegu brotum sem eru meðal annars kynferðisofbeldi, morð og limlestingar, brottnám barna og árásir á skóla og sjúkrahús.

„Við krefjumst þess að stríðandi aðilar láti tafarlaust af þessum skelfilega alvarlegu brotum gegn börnum,“ segir Jean Francois Basse, starfandi fulltrúi UNICEF í Kongó. „Þessi átök eru að sundra fjölskyldum, skapa glundroða og óöryggi fyrir alla íbúa og grafa undan öllum árangri sem náðst hefur undanfarin ár. Varnarlaus börnin segjast óttast um líf sitt.“

Lögleysa og ógnarástand

Algjört hrun hefur orðið á grunnþjónustu í austurhluta Kongó. Þúsundir skóla eru lokaðir, börn hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar og óöryggi og ótti fylgir nær algjöru lögleysuástandi víða þar sem vopnuð átök eru daglegt brauð, fangelsi hafa verið tæmd til að sækja liðsafla og þungvopnaðir einstaklingar í hverjum krók og kima. Börn eru berskjölduð og lífi þeirra og velferð stofnað í mikla hættu.

UNICEF lýsir einnig miklum áhyggjur af aukningu í herkvaðningu hópa barna og ungmenna þar sem stríðandi fylkingar sækja sér liðsauka með því að bera vopn á börn. Hvergi í heiminum, frá upphafi mælinga árið 2005, eru fleiri tilfelli um að börn séu neydd til að taka upp vopn í átökum en í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.

Unnið að því að sameina fjölskyldur

Sameinuðu þjóðirnar hafa verið að vinna með stjórnvöldum í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó samkvæmt aðgerðaáætlun sem undirrituð var 2012 til að binda enda á misnotkun barna í hernaðarlegum tilgangi sem og öðrum alvarlegum brotum eins og kynferðisbrotum.

Síðan í janúar síðastliðnum hafa UNICEF og samstarfsaðilar unnið að því að leita að og bera kennsl á rúmlega 5.600 börn í áhættuhópi fyrir barnahermennsku og sameinað 63 börn fjölskyldum sínum á ný. 720 börn sem orðið hafa viðskila við fjölskyldur sínar hafa einnig verið sameinaðir þeim aftur síðan í janúar og hátt í 500 komið fyrir hjá fósturfjölskyldum í öryggisskyni meðan leit heldur áfram að fjölskyldum þeirra.

Vítahringur ofbeldis gegn börnum

„Við getum ekki staðið hjá og horft upp á þetta hræðilega ofbeldi viðgangast. Gerendur þurfa að sæta ábyrgð til að rjúfa þennan refsilausa vítahring ofbeldisbrota gegn börnum í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó,“ segir Basse.

UNICEF ítrekar fyrir kröfur sínar um að allir aðilar átakanna láti af brotum gegn réttindum barna, virði alþjóðalög, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og grípi tafarlaust til aðgerða til að vernda almenna borgara og mikilvæga innviði í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög.


Fleiri
fréttir

28. febrúar 2025

Stríðið í Líbanon hafði skaðleg áhrif á líðan, næringu og menntun barna
Lesa meira

28. febrúar 2025

UNICEF bregst við kólerufaraldri í Súdan sem ógnar lífi barna
Lesa meira

27. febrúar 2025

Alvarleg brot gegn börnum þrefaldast á einum mánuði í Kongó
Lesa meira
Fara í fréttasafn