12. febrúar 2024

Akureyri fær áframhaldandi viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag

Áhersla lögð á aðgerðir sem styðja við viðkvæma hópa barna, fræðslu, geðheilbrigði, umhverfismál og aukið samráð við börn.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, ásamt ungmennaráði Akureyrar. Í ungmennaráðinu eru (frá vinstri til hægri): París, Fríða, Telma, Anton, Heimir, Lilja, Felix, Elsa og Guðmar.

Í síðustu viku veitti UNICEF á Íslandi Akureyri formlega endurnýjun viðurkenningar sinnar sem Barnvænt sveitarfélag UNICEF. Akureyri var fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til þess að öðlast viðurkenninguna árið 2020 vegna markvissrar vinnu sinnar við að innleiða Barnasáttmálann inn í stjórnsýslu sína og starfshætti. Síðan þá hefur vinnan haldið áfram og stigin hafa verið mikilvæg skref í innleiðingarvinnunni, réttindum barna til hagsbóta. Meðal þeirra aðgerða sem framkvæmdar hafa verið eru stofnun félagsmiðstöðvar fyrir hinsegin ungmenni, opnun Bergsins Headspace, aukið hjólastólaaðgengi og þá hafa þátttökuleiðir fyrir börn og ungmenni verið tryggðar frekar þannig að þau geti haft áhrif á samfélag sitt.

Ungmennaráð Akureyrar flutti virkilega sterkt erindi á hátíðinni og þau eiga mikinn heiður skilið fyrir sína vinnu.

Á Akureyri er afskaplega virkt ungmennaráð sem ráð og nefndir leita til og senda mál til umsagnar. Sem dæmi má nefna að fræðslu- og lýðheilsuráð leitar markvisst til þeirra til umsagnar um mál og ákvarðanir sem snerta börn. Er það liður í því að tryggja að barnvænt hagsmunamat fari fram.

UNICEF á Íslandi er Akureyri afskaplega þakklátt fyrir samstarfið síðan vegferðin að Barnvænu sveitarfélagi hófst árið 2016. Starfsfólk sveitarfélagsins og kjörnir fulltrúar hafa rutt brautina og þróað verkefnið með okkur og lagt sitt af mörkum þegar kemur að því að deila reynslu með öðrum sveitarfélögum.

Hér má sjá lokaskýrslu Akureyrarbæjar vegna innleiðingarinnar á tímabilinu 2020-2023.

UNICEF á Íslandi óskar Akureyrarbæ innilega til hamingju!

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn