28. september 2022

Ákall til íslenskra stjórnvalda um að virða mannréttindi barna á flótta

Undirrituð félagasamtök fordæma fyrirhugaðar endursendingar barna og fjölskyldna þeirra til Grikklands. Íslensk stjórnvöld ættu að taka mál þeirra fyrir og bjóða vernd á Íslandi.

Íslensk stjórnvöld undirbúa nú endursendingar barnafjölskyldna á flótta til Grikklands þar sem þær hafa alþjóðlega vernd. Við teljum að hagsmunir barna séu ekki metnir á heildstæðan hátt og að ákvarðanir um endursendingar til Grikklands skapi börnum hættu sem íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á, eins og ítrekað hefur verið bent á. Hafa ber í huga að íslensk stjórnvöld hafa hingað til ekki sent börn frá Íslandi til Grikklands.

Algjörlega óviðunandi aðstæður

Fjölda heimilda ber saman um að aðstæður flóttafólks í Grikklandi séu heilt yfir slæmar. Barnafjölskyldur, sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi og seinna leitað hingað til lands og óskað eftir alþjóðlegri vernd, hafa jafnframt undantekningalaust greint frá óviðunandi aðstæðum í Grikklandi. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra hefur búið í yfirfullum flóttamannabúðum þar sem öryggi, hreinlæti og aðbúnaði er verulega ábótavant. Þegar fjölskyldurnar hafa fengið vernd neyðast þær til að yfirgefa búðirnar innan nokkurra mánaða auk þess sem þær missa þá lágu framfærslu sem þeim er tryggð á meðan þær bíða eftir svari við umsókn sinni um vernd. Í nær öllum tilvikum ná foreldrar barnanna ekki að framfleyta fjölskyldunni vegna kerfisbundinna hindrana og gríðarlegs atvinnuleysis meðal flóttafólks í landinu. Þá er aðgengi flóttafjölskyldna að húsnæði í Grikklandi alvarlegt vandamál en margar þeirra hafast við í óviðunandi ólöglegu húsnæði eða á götunni. Fjölskyldum stendur ekki félagsleg aðstoð til boða, þ.e. fjárhagsleg aðstoð, barnabætur eða félagslegur stuðningur, auk þess sem aðgengi þeirra að grísku heilbrigðiskerfi er verulega skert, m.a. vegna tungumálaörðugleika. Stór hluti þeirra flóttabarna sem koma hingað til lands eftir að hafa dvalið í Grikklandi glímir við heilsufarsvandamál sem m.a. má rekja til óviðunandi aðstæðna þar í landi. Þá hafa börn á flótta í reynd ekki aðgengi að þeirri menntun sem grísk lög kveða á um en þar er þeim lofað ýmsum réttindum sem einungis bjóðast í orði en ekki á borði. Samkvæmt opnu bréfi sem fjöldi hagsmunasamtaka sendi frá sér í mars 2021 sæta flóttabörn mikilli mismunun hvað varðar aðgengi að menntun en í skýrslu Refugee Support Aegan (RSA) frá 13. apríl 2021 var staðfest að börn á flótta hafi ekki sama aðgengi að menntun og grísk börn.

Skylda íslenskra stjórnvalda til að hafa það sem barni er fyrir bestu í forgangi við ákvarðanatöku

Samkvæmt ákvæðum barnalaga nr. 76/2003, laga um útlendinga nr. 80/2016 og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem lögfestur var hér á landi hinn 6. mars 2013, sbr. lög nr. 19/2013, er íslenskum stjórnvöldum skylt að hafa ávallt það sem barni er fyrir bestu í forgangi og hagsmuni þess að leiðarljósi þegar teknar er ákvarðanir um málefni þess. Börn eru álitin sérstaklega viðkvæmur þjóðfélagshópur en þó nokkrir þættir geta valdið því að börn tilheyri hópi þeirra barna sem eru í enn viðkvæmari stöðu en önnur börn, s.s. fötlun barnsins sjálfs eða umönnunaraðila, heilsufar og fátækt. Skulu þau af þeirri ástæðu njóta sérstakrar verndar og umönnunar, bæði samkvæmt alþjóðasamningum og lögum. Af framangreindu er ljóst að það gengur gegn bestu hagsmunum barna að vera send héðan í framangreindar aðstæður og stríðir gegn skuldbindingum íslenskra stjórnvalda sem eiga að tryggja bestu hagsmuni barna. Endursending flóttabarna til Grikklands þjónar að mati undirritaðra ekki hagsmunum þeirra, því þar bíður þeirra öryggisleysi og óvissa, auk þess sem heilsu þeirra og velferð er stefnt í hættu. Umhverfi barna, aðstæður og upplifanir í bernsku móta þau og hafa áhrif til æviloka.

Undirrituð félagasamtök ítreka fyrri tilmæli sín til hérlendra stjórnvalda og hvetja ríkisstjórn Íslands eindregið til að endurskoða þá stefnu að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem fengið hafa stöðu sína viðurkennda í Grikklandi, aftur þangað. Ástandið í Grikklandi hefur um nokkurt skeið verið óboðlegt fyrir flóttafólk en fólk á flótta á að njóta mannréttinda á sama hátt og annað fólk.

Til stuðnings framangreindu er vísað til samantektar um aðstæður flóttafólks í Grikklandi sem birt var á heimasíðu Rauða krossins á Íslandi í apríl sl.

Reykjavík, 27. september 2022

Barnaheill – Save the Children á Íslandi

Kvenréttindafélag Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands

Rauði krossinn á Íslandi

UNICEF á Íslandi

ÖBÍ – réttindasamtök

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn