03. mars 2023

Ævintýri banka upp á – UNICEF og Múmín í ævintýralegu samstarfi 

UNICEF á Íslandi og Moomin Character Ltd í Finnlandi eru komin í ævintýralegt samstarf sem vinnur að því að bæta heiminn fyrir börn og meðal annars tryggja rétt barna til menntunar.

UNICEF á Íslandi og Moomin Character Ltd í Finnlandi eru komin í ævintýralegt samstarf sem vinnur að því að bæta heiminn fyrir börn og meðal annars tryggja rétt barna til menntunar. Samstarf UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og Múmínfjölskyldunnarhófst í fyrra. UNICEF fékk hönnunarteymið ÞYKJÓ og Ævar Þór Benediktsson, sendiherra UNICEF á Íslandi, með í lið til að skapa upplifun fyrir börn og fjölskyldur þeirra sem byggir á grunngildunum um kærleika, umburðarlyndi, samkennd og ævintýri. Sérstök kynning verður á verkefninu, sem ber heitið Ævintýri banka upp á, í Hörpu í dag, föstudaginn 4. mars, milli 16 og 19 í tengslum við tónleika Lauri Porra og Sinfóníunnar – Árstíðir í Múmíndal. 

Þau sem skrá sig í ferðalagið fá sent múmínálfaleikhús til að leika með og síðan bætast við í hverjum mánuði hinir ýmsu karakterar úr Múmíndal (Mía, Snorkstelpan, Múmínsnáðinn, Hemúllinn, Snúður og fleiri),leikjaspjöld, söguspjöld og fræðsla um réttindi barna.

Barnvæn réttindafræðsla og stuðningur við réttindi barna 

Markmið verkefnisins Ævintýri banka upp á er að efla málþroska og lesskilning barna, ýta undir ímyndunarafl og sköpunargleði og styðja um leið við börn um allan heim með því að fjölga í hópi Heimsforeldra, mánaðarlegra stuðningsaðila UNICEF. Afurðin er 12 mánaða ævintýraferðalag fyrir börn byggt á sögu Tove Jansson Örlaganóttin. Þau sem skrá sig í ferðalagið fá sent múmínálfa leikhús til að leika með og síðan bætast við í hverjum mánuði hinir ýmsu karakterar úr Múmíndal (Mía, Snorkstelpan, Múmínsnáðinn, Hemúllinn, Snúður og fleiri), leikjaspjöld, söguspjöld og fræðsla um réttindi barna. Framlög þeirra sem skrá sig í ferðalagið eru mikilvæg kjarnaframlög sem nýtast meðal annars í vinnu UNICEF við að tryggja réttindi barna um allan heim til menntunar.  

Múmínfjölskyldan hefur einsett sér í gegnum tíðina að styðja við góðgerðarmál og að vinna með völdum góðgerðarfélögum við að gera heiminn að betri stað. Það var því mikill heiður fyrir UNICEF á Íslandi að hefja þetta samstarf, en UNICEF á Íslandi leiðir þetta verkefni fyrir öll Norðurlöndin.  

„Það sem skiptir okkur máli þegar við förum í samstarf er að það tengist á einhvern hátt frásögnunum og gildunum á bak við Múmínálfana,“ segir Roleff Kråkström, framkvæmdastjóri Moomin Character Ltd og er ánægður með hvernig til hefur tekist að skapa fjölskylduferðalag sem blandar saman fallegum og sjónrænum afurðum við sögur og gildi Tove. Roleff segir að ein af áherslum Múmínfjölskyldunnar sé að auka samkennd í gegnum lestur og skrift og að þar skapi leikur og sköpunargleði sem þessi mikilvægt hlutverk. Með öllum afurðunum sem fylgja ferðalaginu er hægt að skapa sannkallaðan ævintýraheim þar sem börn leika sér og nota ímyndunaraflið í þykjustuleik, æfa sig í að setja sig í spor annarra, læra um Barnasáttmálann og skapa gæðatíma utan skjás fyrir fjölskylduna.  

Hægt er að skrá sig í ferðalagið um Múmíndal hér.  

Hönnuðir ÞYKJÓ tóku í fangið upplifunarhönnun verkefnisins og hafa dvalið í Múmíndal í fjölmarga mánuði og votta um að þar sé gott að vera. Ljósmynd: Sigga Ella

Ferðalag um mennskuna og réttindi allra barna 

Ferðalagið um Múmíndal er ekki einungis fræðandi og skapandi heldur fá börnin sent í hverjum mánuði fallega hannaðar Múmín-teikningar, leikjaspjöld með skemmtilegum verkefnum, karaktera og aðra leikmuni. Hönnuðir ÞYKJÓ tóku í fangið upplifunarhönnun verkefnisins og hafa dvalið í Múmíndal í fjölmarga mánuði og votta um að þar sé gott að vera. Þær Sigríður Sunna Reynisdóttir og Ninna Þórarinsdóttir frá ÞYKJÓ lýsa ferðalaginu á þann hátt að það sé ferðalag um mennskuna, um réttindi allra barna og hvers virði það er að geta rétt öðrum hjálparhönd: 

„Þetta er ævintýri sem gefur börnum tækifæri á að spegla sig í flóknum heimi á öruggan hátt og gefur fullorðnum tækifæri til að lesa dýpra á milli línanna,“ segja þær og gefa dæmi úr ævintýrinu. Þá setur Hemúllinn upp skilti í lystigarðinum sínum sem bannar litlum skógarungum að hoppa jafnfætis og hlægja. Á sama tíma er það réttur allra barna samkvæmt Barnasáttmálanum að leika sér og fá að segja skoðanir sínar. Það er því gaman þegar Snúður kemur og rífur niður skiltin. 

Í hverjum mánuði fá börn og forráðamenn þeirra slíka réttindafræðslumola til að nýta í ævintýraheiminum sínum og til að ræða sín á milli - Mega fullorðnir til dæmis setja reglur sem banna börnum að hlæja og leika sér?  

Þátttaka barna grunnurinn að hönnunarstarfinu 

Hönnuðir ÞYKJÓ hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til grundvallar í sínu hönnunarstarfi. Krakkaráð ÞYKJÓ er regnhlífarheiti yfir allt samstarf og samtal sem hönnuðir eiga við börn í vinnuferli hvers verkefnis og var engin undantekning gerð í þetta sinn. ÞYKJÓ skipulögðu því sérstakar vinnustofur með börnum á meðan þróunin átti sér stað. „Við fundum glöggt á samtali við fjölmörg þeirra barna sem unnu með okkur á ólíkum stigum hönnunarferlisins hvað það brennur margt á þeim. Þau heyra um börn á flótta, þau heyra um stríð í Úkraínu og þau reyna að púsla saman brotakenndum fréttum sem seytla inn. Gjöfin sem Tove Jansson hefur gefið okkur fullorðna fólkinu er að skrifa bækur um stór mál sem er oft erfitt að ræða við börn án þess að vekja ugg eða kvíða. Örlaganóttin og fleiri bækur um Múmínálfana voru skrifaðar á tíma þegar fjöldi fólks á flótta hafði aldrei verið meiri - þar til núna. Það hefur sjaldan verið jafn mikil þörf á að hlúa að viðkvæmum réttindum barna um allan heim og við erum þakklátar fyrir samtök eins og UNICEF,“ segja Sigríður Sunna og Ninna.  

Roleff Kråkström tekur undir mikilvægi þess að hjálpa börnum sem þurfa á að halda og vonast til þess að verkefnið geti leitt gott af sér og stutt við fjáröflun UNICEF til að vinna að bættum hag barna um allan heim. „Ef við getum einnig fengið börn og foreldra til að vinna að því saman að hjálpa öðrum, ræða saman, læra, skilja og þróa samkennd sína með fólki í neyð, þá er allt unnið. Það gæti verið eins konar lokamarkmið,“ segir Roleff.  

Þau sem skrá sig í ferðalagið um Múmíndal gerast um leið Heimsforeldrar UNICEF, mánaðarlegir styrktaraðilar sem styðja við verkefni UNICEF á heimsvísu. Framlög Heimsforeldra tryggja meðal annars aðgengi barna að menntun, hreinu vatni, næringu, húsaskjóli og neyðaraðstoð svo fátt eitt sé nefnt.    

Með því að skrá þig í ferðalagið um Múmíndal skráir þú þig í hóp hugsjónafólks sem tekur þátt í að bæta líf barna um allan heim með UNICEF.  

Hægt er að fræðast meira um ferðalagið hér.  

 

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn