30. mars 2023

Ævar Þór áfram sendiherra UNICEF á Íslandi

Mun horfa sérstaklega til málefna barna á flótta

Ævar Þór og Birna Þórarinsdóttir. Mynd/UNICEF

Það gleður okkur hjá UNICEF á Íslandi að tilkynna að í vikunni var farsælu samstarfi við leikarann og rithöfundinn Ævar Þór Benediktsson framlengt til tveggja ára og mun hann því halda áfram sem sendiherra UNICEF á Íslandi til ársins 2025. Ævar Þór, sem landsmönnum er að góðu kunnur, var skipaður fyrsti sendiherra UNICEF á Íslandi árið 2021. Ævar hafði fyrir það gefið vinnu sína til ýmissa verkefna UNICEF á Íslandi frá árinu 2016, og verið samtökunum dýrmætur bandamaður.

„Það er heiður og ánægja að starfa áfram með Ævari Þór sem sendiherra UNICEF á Íslandi næstu tvö árin. Hann hleypur til í ólíklegustu verkefni með okkur, styður við málstað UNICEF í lífi, orði og starfi – og heldur næst hjarta sínu málstað jaðarsettra barna. Við hjá UNICEF hlökkum til áframhaldandi ævintýra og afreka með Ævari Þór - fyrir öll börn,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, í tilefni þess að samningurinn var framlengdur.

„Ég vil halda áfram að vinna með UNICEF á Íslandi einfaldlega vegna þess að það starf sem þau eru að sinna er gríðarlega mikilvægt. Ef ég get á einhvern hátt rétt þeim hjálparhönd er mér það ljúft og skylt,“ segir Ævar Þór.

Ævar Þór, Snæ Humadóttir, Hilmar Máni Magnússon og Ásdís Fjelsted á tökustað Hreyfingarinnar. Mynd/UNICEF

Burt með fordóma

Ævar og UNICEF á Íslandi munu halda áfram að vinna saman að hinum ýmsu verkefnum sem styðja við réttindi barna með sérstakri áherslu á málefni sem snúa að menntun, fræðslu og réttindum barna á flótta, sem snerta Ævar djúpt.

Fyrsta verkefni Ævars eftir endurnýjun samningsins var að taka þátt í nýrri mynd UNICEF Hreyfingarinnar, sem er fræðsluverkefni fyrir grunnskóla á Íslandi unnið með framleiðslufyrirtækinu Skjáskot. Þar er Ævar í aðalhlutverki ásamt Snæ Humadóttur, Ásdísi Fjelsted, Hilmari Mána Magnússyni og Emblu Karítas Magnúsdóttur. Myndin fjallar sérstaklega um aðra grein Barnasáttmálans – að öll börn séu jöfn – og útskýrir á barnvænan hátt hvernig börn og fullorðin geti lagt sitt af mörkum til að tryggja að öll börn geti notið réttinda sinna, sama hvaðan þau eru, hvers kyns þau eru, hvort sem þau eru rík eða fátæk, fötluð eða ófötluð eða hverrar trúar þau eða foreldrar þeirra eru. Óhætt er að segja að mikil tilhlökkun ríki fyrir frumsýningunni, en í myndinni er lag Pollapönks Enga fordóma endurgert með hátt í 40 börnum og landsþekktum söngvurum, meðal annars Sölku Sól, Jóni Jónssyni, Unnsteini Manúel og Heiðari úr Pollapönki.

Sjaldan hefur boðskapur lagsins átt jafn vel við og einmitt í dag. Við erum því full þakklætis fyrir að fá að endurgera Enga fordóma og njóta krafta Ævars og allra þeirra sem tóku þátt í gerð myndarinnar við að halda þeim boðskap á lofti, enda erum við öll sammála um að vilja burtu með fordóma og annan eins ósóma.

Myndin verður frumsýnd í grunnskólum landsins í maí og einnig á öllum miðlum UNICEF á Íslandi svo fylgist með! 

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn