29. september 2022

Að tala við börn um hryðjuverkaógn

Ráð til foreldra frá UNICEF á Íslandi

Upplýsingar sem berast okkur þessa dagana um hryðjuverkaógn geta verið yfirþyrmandi. Börnum gæti þótt erfitt að skilja ýmislegt sem þau sjá á netinu, í sjónvarpinu eða heyra frá öðru fólki í tengslum við það sem gerist í samfélaginu, sem getur skapað hjá þeim kvíða, streitu og depurð. Að eiga opinská samtöl við börn um stöðuna stuðlar að því að þau skilji aðstæður og séu í betri aðstöðu til að vinna úr þeim tilfinningum sem þau kunna að finna fyrir.

Engin ástæða er til að ung börn viti eða skilji smáatriði varðandi atburði frétta. Þau hafa mjög takmarkaða færni til að skilja ofbeldisfulla hegðun og geta fundið fyrir mikilli hræðslu við að sjá slíkt myndefni eða heyra lýsingar í fréttum. Með það fyrir augum er til að mynda mælt með að foreldrar bíði með að horfa á kvöldfréttirnar þar til börnin eru farin að sofa, þegar mikið er fjallað um hryðjuverk, stríð eða önnur átök eða ofbeldi í samfélaginu.

Erfiðara getur verið að skýla eldri börnum frá umfjöllun fjölmiðla og því fullt tilefni fyrir foreldra að grípa þau tækifæri sem gefast til að ræða við börnin sín. Þar gildir að ræða við þau opinskátt og reyna að útskýra eftir fremsta megni þá atburði sem þau sjá í fjölmiðlum eða samfélagsmiðlum og geta valdið þeim vanlíðan og kvíða. Þó við gerum okkar besta til að halda umfjöllun um hryðjuverkaógn frá börnunum okkar, eru allar líkur á að þau sjái eitthvað um það á netinu, heima hjá vini eða í skólanum. Það er því mikilvægt að undirbúa þau og ræða þessa hluti við þau.

Okkur hjá UNICEF á Íslandi langar að deila með ykkur nokkrum ráðum sem geta aðstoðað foreldra og forsjáraðila við að styðja börn sín.

Stutt samantekt

  • Leyfðu barninu að stýra samtalinu, það sem veldur því áhyggjum gæti komið þér á óvart.
  • Ekki gera lítið úr eða forðast að ræða áhyggjur barnsins. Það eru hryðjuverkaógnin sjálf sem að getur verið ógnvekjandi, ekki samtalið.
  • Haltu umræðunum opnum, barnið þarf að geta fundið fyrir því að það geti leitað aftur til þín.
  • Heiðarlegt samtal skiptir öllu máli, viðurkenndu eigin takmarkanir og ekki giska ef þú veist ekki svarið. Hryðjuverk, stríð, átök og ofbeldi er í sjálfu sér óskiljanlegt.
  • Útskýrðu að sumar upplýsingar á internetinu eru ekki réttar, og að það sé best að treysta sérfræðingum. Leitaðu með barninu að svörum við spurningum þess.
  • Hryðjuverkaógn getur leitt til aukinna fordóma og rasisma í samfélaginu. Útskýrðu að hryðjuverk og annað ofbeldi hefur ekki með það að gera hvernig fólk lítur út, hvaðan það er, hverrar trúar það er eða hvaða tungumál það talar.
  • Það getur falist styrkur í því að vita af fólki sem hjálpar og reynir sitt besta til að koma í veg fyrir ofbeldi í samfélaginu. Við getum líka öll hjálpað til og dreift kærleika í nærumhverfi okkar.
  • Hughreystu barnið og minntu það á að þú ert alltaf til taks.

Bjóddu barninu upp á samtal
Byrjaðu á því að bjóða barninu þínu að ræða við þig og biðja það um að segja þér hvað það veit nú þegar. Þekking barna á hryðjuverkaógn eða öðru ofbeldi getur komið úr ótal áttum þ.á.m. frá fjölskyldumeðlimum, vinum, samfélagsmiðlum eða skólanum.

Leyfðu barninu að stýra samtalinu og ekki þvinga það til samtals ef það hefur ekki áhuga á að ræða málin að þessu sinni. Ef barnið fær að ræða áhyggjur sínar á eigin forsendum, fær það tækifæri til að ræða eigin áhyggjuefni og samtalið gengur ekki út frá ályktunum þínum. Það gæti komið þér á óvart hvað veldur barninu áhyggjum.

Gættu þess að vera í öruggu umhverfi þar sem barnið getur talað frjálst. Það gæti hjálpað að teikna myndasögur eða vera í öðrum skapandi leik meðan á samtalinu stendur. Foreldrar vilja að sjálfsögðu ekki valda börnum sínum kvíða eða ótta. Þess vegna er mikilvægt að muna að það er hryðjuverkaógnin sjálf sem geta verið ógnvekjandi, ekki samtalið.

Hlustaðu á tilfinningar barnsins
Mikilvægt er að gera ekki lítið úr eða forðast að ræða áhyggjur barnsins. Viðurkenndu tilfinningar þess og útskýrðu að það sé mjög eðlilegt að finna fyrir alls konar tilfinningum í þessum aðstæðum. Sýndu barninu að þú sért að hlusta með því að gefa því óskerta athygli þína, og gerðu því ljóst að það megi alltaf leita til þín eða kennaranna sinna þegar áhyggjur koma upp. Þú getur sagt barninu að þú sért líka að upplifa alls konar tilfinningar.

Það skiptir einnig máli að halda samtalinu opnu. Barnið þarf að finna að það geti leitað til þín aftur og aftur og spurt spurninga um sama málefnið. Barnið aflar sér líka sjálft upplýsinga og verður í framhaldinu að finnast það geta borið erindið upp aftur ef nýjar vangaveltur vakna.

Fari áhyggjur barnsins hins vegar að taka á sig þráhyggjukenndan blæ, getur verið gott að takmarka tímann og jafnvel skilgreina ákveðinn tíma dags þar sem þær séu ræddar, t.d. 20 mínútna „áhyggjutíma“ rétt fyrir kvöldmat á hverju kvöldi.

Heiðarleiki skiptir öllu: útskýrðu sannleikann á barnvænan hátt
Barnið á rétt á að fá að heyra sannleikann um það sem er að gerast í heiminum, en fullorðnir bera ábyrgð á því að tryggja öryggi barnsins. Passaðu þig að nota orð og útskýringar sem hæfa aldri barnsins, fylgstu með viðbrögum þess og vertu meðvituð um hvort barnið sýni einkenni kvíða.

Ekki giska á svör ef þú veist ekki svörin við spurningum barnsins. Notaðu tækifærið til þess að leita að svörum í sameiningu. Útskýrðu að sumar upplýsingar á internetinu eru ekki réttar, og að það sé best að treysta sérfræðingum.

Enginn ætlast til þess að foreldrar geti útskýrt hryðjuverkaógn, stríð, átök eða ofbeldi í minnstu smáatriðum, allra síst börnin okkar. Þau þurfa heldur ekki á því að halda að fá ítarlega útskýringu. Hryðjuverkaógn eru í sjálfu sér óskiljanleg. Það er í góðu lagi að viðurkenna fyrir þeim eigin takmarkanir og segja þeim að þú sem fullorðinn einstaklingur eigir einnig erfitt með að skilja aðstæður hryðjuverkaógnar og ofbeldis.

Hughreystu barnið

Þegar við sjáum mikið af ógnvekjandi myndum í sjónvarpinu eða á netinu, getur okkur stundum liðið eins og það séu átök og erfiðleikar allt í kring um okkur. Barn getur ekki alltaf gert greinarmun á myndum á skjá og persónulegu lífi sínu, og gæti trúað því að bráð hætta steðji að. Þú getur hjálpað barninu þínu að vinna gegn álaginu með því að búa til tækifæri fyrir þau til að leika og slaka á.

Minntu barnið þitt á að það sé afar ólíklegt að hryðjuverk muni hafa áhrif á ykkar líf. Segðu því frá því að það sé mikið af fólki sem sé að leggja allt sitt að mörkum til þess að fjölskyldan ykkar sé örugg.

Kannaðu hvort barnið sé að upplifa eða dreifa skömm
Hryðjuverkaógn getur ýtt undir fordóma og rasisma í samfélaginu. Það getur verið auðvelt að alhæfa um stóran hóp eða kenna öðrum um ef þekking er ekki til staðar. Þess vegna er mikilvægt að fylgjast með og passa að barnið þitt verði ekki fyrir fordómum eða sýni öðrum fordóma.

Útskýrðu að hryðjuverk, stríð, átök eða annað ofbeldi hafi ekki með það að gera hvernig fólk lítur út, hvaðan það er, hverrar trúar það er eða hvaða tungumál það talar.

Leitið að þeim sem eru að hjálpa
Segðu barninu frá því að um allan heim, og í samfélaginu sem þið búið í, er mikið af fólki sem er að hjálpast að og gerir góðverk. Deildu með barninu sögum af fólki sem vinnur að því að koma í veg fyrir hryðjuverk og tryggja öryggi samfélagsins. Það getur verið mikill styrkur fólginn í því að vita að það er mikið af góðhjörtuðu fólki þarna úti að hjálpa.

Minntu barnið þitt á að það skiptir máli hvernig við komum fram við annað fólk. Þú getur jafnvel bent því á leiðir til að hjálpa öðrum í kring um sig með því að dreifa kærleika og velvild. Allir eiga skilið að upplifa öryggi.

Hugsaðu um þig
Mundu að þú getur líka upplifað alls konar tilfinningar. Deildu með barninu aðferðum sem þú notar til þess að takast á við eigin tilfinningar. Barnið tekur eftir þínum viðbrögðum við fréttunum og í umræðum, þess vegna hjálpar það ef þú hefur stjórn á tilfinningum þínum og vandar vel orð þín þegar barnið er nálægt.

Ef þú finnur fyrir kvíða eða óróleika, taktu þér tíma fyrir sjálfan þig og hafðu samband við fjölskyldu, vini og aðra sem þú treystir. Gefðu þér tíma til þess að slaka á og jafna þig eftir fremsta megni.

Lokaðu samtalinu vandlega
Það er mikilvægt að skilja börnin ekki eftir í ástandi sem veldur þeim kvíða eða álagi í kjölfar samtals um erfið mál. Þegar samtali ykkar er að ljúka, skaltu reyna að átta þig á hvort barnið finni fyrir kvíða með því að fylgjast með líkamstjáningu þess. Fylgstu með því hvort það sé að nota venjulegu röddina sína og með andadrætti þess.

Minntu barnið á að þú sért alltaf til taks ef það finnur fyrir áhyggjum eða kvíða. Minntu barnið þitt á að það getur talað við þig um hvað sem er, hvenær sem er.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn