27. apríl 2023

90% stúlkna og ungra kvenna í lágtekjuríkjum án netsambands

Á Alþjóðadegi stúlkna í upplýsinga- og fjarskiptatækni vekur UNICEF athygli á því að stúlkur eru að einangrast í sítengdum heimi.

Stúlkur í Kamerún læra á spjaldtölvu. Mynd/UNICEF

Um 90 prósent stúlkna og ungra kvenna í lágtekjuríkjum hafa ekki aðgengi að Internetinu á meðan drengir og ungir menn eru tvisvar sinnum líklegri til að vera nettengdir. Þetta kemur fram í nýrri greiningu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í tilefni af Alþjóðadegi stúlkna í upplýsinga- og fjarskiptatækni sem er í dag.

„Að draga úr þessum stafræna ójöfnuðu stúlkna og drengja snýst um meira en bara aðgengi að Internetinu og tækni. Það snýst um að valdefla stúlkur til að verða frumkvöðlar, til að skapa og verða leiðtogar,“ segir Robert Jenkins, yfirmaður menntamála hjá UNICEF. „Ef við viljum draga úr ójöfnuði kynjanna á vinnumarkaði, sérstaklega á sviðum vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði, þá verðum við að byrja á því að hjálpa ungu fólki, sérstaklega stúlkum, að sækja sér stafræna færni.“

Skýrsla UNICEF ber yfirskriftina „Bridging the Digital Divide: Challenges and an Urgent Call for Action for Equitable Digital Skills Development“ og rýnir í hið stafræna kynjamisrétti meðal ungs fólks á aldrinum 15-24 ára með greiningu á fyrirliggjandi gögnum um netnotkun, snjallsímaeign og stafræna færni í lág- og millitekjuríkjum. Þó frekari gagnaöflunar sé víða þörf þá er það niðurstaða skýrslunnar að stúlkur eru að verða eftir í sífellt stafrænni og nettengdum veruleika nútímans.

Þar er einnig bent á að þó mikilvægt sé að tryggja aðgengi að Internetinu víðar þá tryggir það eitt og sér ekki s.k. stafræna færni (e. Digital skills) barna og ungmenna.

Stúlkur eru ólíklegastar til að fá tækifæri til að verða sér út um þá færni sem til þarf í námi og starfi á 21. öldinni. Í 32 ríkjum og landsvæðum eru stúlkur 35% ólíklegri en drengir til að búa yfir grundvallar stafrænni færni, eins og að afrita og líma skjöl og möppur, senda tölvupóst og gögn.

Rót vandans ristir því dýpra en beinlínis skortur á netaðgangi því mennta- og fjölskylduumhverfi vega mun þyngra í þessu stafræna ójafnrétti kynjanna. Í skýrslunni er bent á að jafnvel innan heimila eru stúlkur mun ólíklegri en drengir til að hafa aðgengi og færni til að nota Internetið eða aðra stafræna tækni sem til staðar er á heimilum þeirra. Í þeim 41 ríki og landsvæðum sem greiningin náði til voru fjölskyldur miklu líklegri til að útvega drengjum far- og snjallsíma en stúlkum.

Kynbundnar hindranir til framhaldsnáms og atvinnu, ríkjandi kynjamisrétti og staðalímyndir og áhyggjur af netöryggi hindra svo enn frekar þátttöku og færni stúlkna til að feta sig í hinum stafræna heimi.

Til að komast yfir þessar hindranir þurfa stúlkur að fá kennslu og aðgengi að tækni, fræðslu um notkun og hættur sem og þjálfun í stafrænni færni fyrr á æviskeiðinu.

Í tilefni Alþjóðadags stúlkna í upplýsinga- og fjarskiptatækni skorar UNICEF á stjórnvöld um allan heim að loka þessu bili milli kynjanna og tryggja að stúlkur hafi jöfn tækifæri til að ná árangri í stafrænum heimi.

 

Skýrsluna í heild sinni er hægt að nálgast hér.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn