24. október 2024

85% barna sem fengu mænusótt í fyrra búa á átakasvæðum

Mænusóttartilfelli tvöfaldast á átakasvæðum síðustu fimm ár

Amara Mushengezi (9 mánaða) fær bóluefni gegn mænusótt í Bukava í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó 9. október síðastliðinn. Mynd: UNICEF/UNI663345/Mazinge

Af því 541 barni sem greindist með mænusótt árið 2023 bjuggu 85% þeirra á 31 svæði sem skilgreind eru átakasvæði eða viðkvæm. Frá þessu greinir UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna í dag, á alþjóðadegi mænusóttar (e. World Polio Day.)

Í greiningu UNICEF kemur fram að tvöfalt fleiri tilfelli mænusóttar greinist nú á þessum landsvæðum en fyrir fimm árum á sama tíma og hlutfall grunnbólusetninga barna gegn mænusótt hefur fallið úr 75% í 70%. Sem er talsvert undir 95% lágmarkinu sem þarf til að mynda hjarðónæmi í samfélögum.

Gögnin eru vitnisburður um að lífshættulegir sjúkdómar halda áfram að dafna á svæðum þar sem átök, náttúruhamfarir, mannúðarkrísur og aðrar hamfarir hamla aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

„Í stríði eru það ekki aðeins byssukúlur og sprengjur sem ógna lífi barna, heldur einnig lífshættulegir smitsjúkdómar sem ættu að heyra sögunni til,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF. „Í mörgum ríkjum erum við að horfa upp á algjört hrun heilbrigðiskerfa, eyðileggingu vatns- og hreinlætisinnviða og fólksflótta fjölskyldna sem vekur upp óværu eins og mænusóttina. Börn lamast og geta hvorki gengið, leikið sér né stundað nám.“

UNICEF stóraukið bólusetningarviðbragð sitt

Samdráttur í bólusetningu barna á heimsvísu hefur leitt til þess að mænusótt hefur blossað upp í auknum mæli, líka í ríkjum þar sem sjúkdómurinn hafði ekki greinst svo áratugum skiptir. 

Á undanförnum mánuðum hefur UNICEF og samstarfsaðilar stóraukið viðbragð sitt við uppgangi mænusóttar. Á Gaza hefur UNICEF í samstarfi við WHO náð til nærri 600 þúsund barna undir 10 ára aldri og veitti þeim fyrstu umferð af bólusetningum gegn mænusótt í september síðastliðnum. Önnur umferð gekk vel í suður- og miðhluta Gaza en aukinn fólksflótti og árásir í norðri hafa hindrað verkefnið í norðurhlutanum undanfarið. Mænusótt hafði ekki greinst á Gaza í 25 ár áður en árásir þar hófust fyrir rúmu ári.

Öryggi fyrir öll börn

Bólusetningarherferðir gegn mænusótt á þessum viðkvæmu átakasvæðum eru lífsnauðsynlegar til að stöðva frekari útbreiðslu og vernda börn. UNICEF segir að mannúðarhlé á átökum til að tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé lykilatriði svo hægt sé að koma nauðsynlegri þjónustu til barna og fjölskyldna þeirra. 

„Útbreiðsla mænusóttar hefur ekki aðeins hættur í för með sér fyrir börn í nærumhverfinu heldur einnig nágrannaríkjum. Lokaatlagan er oft sú erfiðasta, en núna er tími til aðgerða. Við megum ekki slaka á í eina mínútu fyrr en hvert einasta barn, í öllum heimshornum, er öruggt fyrir mænusótt– í eitt skipti fyrir öll.“

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn