06. maí 2024

UNICEF: 600 þúsund börn eru hvergi óhult í Rafah

UNICEF varar við skelfingarástandi ef ráðist verður á Rafah – Börn þarf að vernda með öllum hætti

Börn á ferð um tjaldbúðir í Rafah sem ætlaðar eru ekkjum, slösuðum börnum og fjölskyldum í viðkvæmri stöðu. Mynd/UNICEF

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, varar við því að umsátur og hugsanleg innrás í borgina Rafah á Gaza muni hafa skelfilegar afleiðingar á líf og velferð þeirra 600 þúsund barna sem þar hafast nú við.

Áætlað er að 1,2 milljónir einstaklinga haldi nú til í Rafah þar sem áður bjuggu um 250 þúsund manns. Við núverandi aðstæður er Rafah (20 þúsund íbúar á ferkílómetra) nærri helmingi þéttbýlla svæði en New York-borg til samanburðar. Helmingur íbúa eru börn sem hafa þurft að flýja árásir oftar en einu sinni og hafast við í tjöldum og öðrum ótraustum húsakosti.

Í ljósi þess fjölda barna sem nú er í Rafah, hversu hörð hugsanleg árás þar yrði og hversu hættulegar hugsanlegar rýmingarleiðir úr borginni eru, er ljóst að lítið skjól og þjónusta er fyrir börn á svæðinu. UNICEF er því að vara við yfirvofandi hamförum fyrir börn þar sem ljóst er að allar hernaðaraðgerðir á svo þéttbýlu svæði myndu þýða mikið mannfall almennra borgara og eyðileggingu þeirra fáu innviða sem eftir eru.

„Rúmir 200 dagar af stríði hafa tekið ólýsanlegan toll á lífi barna. Rafah er núna borg barna sem hvergi eru þar óhult og finna þar ekkert öryggi. Ef til stórfelldra hernaðaraðgerða kemur mun það ekki aðeins ógna lífi þeirra og öryggi, heldur hafa í för með sér ringulreið og skelfingu ofan á allt sem lagt hefur verið á þessi börn líkamlega og andlega hingað til,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, í tilkynningu.

„Hundruð þúsunda barna sem nú búa í mannmergðinni í Rafah eru slösuð, veik, vannærð, fötluð eða í áfalli. Mörg hafa þurft að flýja margoft, hafa misst heimili sín, foreldra og ástvini. Þau þarf að vernda með öllum hætti, sem og þá innviði sem eftir standa og þau treysta á til að lifa af,“ segir Russell.

UNICEF ítrekar og tekur undir ákall Interagency Standing Committe um að Ísrael „uppfylli lagalega skyldir sínar í samræmi við alþjóðleg mannúðar- og mannréttindalög um að greiða aðgengi að mat, sjúkragögnum og mannúðaraðstoð og að þjóðarleiðtogar geri allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir frekari hamfarir.“

UNICEF kallar einnig eftir:

–        Tafarlausu og langvarandi vopnahléi af mannúðarástæðum. Öllum gíslum verði tafarlaust sleppt úr haldi og tafarlaust stopp á öllum réttindabrotum gegn börnum.

–        Vernd fyrir almenna borgara og þá innviði sem þjóna grunnþörfum þeirra eins og sjúkrahús og skjól

–        Áframhaldandi vernd fyrir börn og fjölskyldur gegn rýmingaraðgerðum með valdi.

–        Öruggu og viðvarandi aðgengi fyrir mannúðarstofnanir og starfsfólk þess til að ná til íbúa, barna og fjölskyldna með lífsbjargandi neyðaraðstoð, hvar sem þau eru á Gaza.

 

 Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn á Gaza er í fullum gangi og þú getur hjálpað:

Hringdu í 907-3014 til að styrkja um 3000 krónur


Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn